Bærinn okkar 15. ágúst 2019

Litla-Ármót

Ábúendurnir á Litla-Ármóti, þau Ragnar og Hrafnhildur, tóku við búskapnum 1. maí 2013, af foreldrum Hrafnhildar, Baldri I. Sveinssyni og Betzy M. Davidsson. 

Býli:  Litla-Ármót.

Staðsett í sveit:  Hraungerðishrepp í Flóanum.

Ábúendur: Ragnar, Hrafnhildur, Baldur Ragnar og Nikulás Tumi.

Fjölskyldustærð (og gæludýra): 4.

Stærð jarðar?  Tæpir 200 ha.

Gerð bús? Kúabúskapur; það er mjólkur-framleiðsla og kjötframleiðsla.

Fjöldi búfjár og tegundir? 150 nautgripir, 3 hross og einn köttur.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Mjaltir, önnur vinna, mjaltir og önnur vinna. 

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Öll verk skemmtileg annaðhvort í upphafi eða í lokin. 

Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Áframhald á kúabúskap.

Hvaða skoðun hafið þið á félagsmálum bænda? Þakklát fyrir að það séu til bændur sem gefa sig í þetta starf fyrir hópinn.

Hvernig mun íslenskum landbúnaði vegna í framtíðinni? Það er augljóst að upplýsa þarf þjóðina um sveitastörf, mörg tækifæri liggja í upplýsingagjöf til neytenda, umfjöllun í fjölmiðlum sýnir að áhugi er fyrir matvælaframleiðslu. Ef skilningur er á milli neytenda og framleiðenda þá vegnar innlendum landbúnaði vel.

Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í útflutningi íslenskra búvara?  Líklegast er erfitt að standa í útflutningi þar sem kostnaður við framleidda einingu hér á landi er hár, þar ræður líklegast mestu vextir, launakostnaður almennt og lega landsins.  

Svo er það siðferðislega spurningin varðandi kolefnisfótspor sem í dag verður að taka tillit til.

Hvað er alltaf til í ísskápnum? Við erum það lánsöm að það er til nóg.

Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Það er heimaræktað nautakjöt. 

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Erfitt að nefna eitthvað eitt. Það sem situr þó eftir er þegar yngri kynslóðinni hefur tekist að leysa krefjandi verkefni við bústörfin.