Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Okkar eigin mistök sæta oft meiri gagnrýni frá okkur sjálfum, eitthvað sem við myndum sjaldnast gera gagnvart vinum.
Okkar eigin mistök sæta oft meiri gagnrýni frá okkur sjálfum, eitthvað sem við myndum sjaldnast gera gagnvart vinum.
Af vettvangi Bændasamtakana 11. ágúst 2023

Að halda haus

Höfundur: Halla Eiríksdóttir, stjórnarmaður BÍ, hjúkrunarfræðingur og sauðfjárbóndi.

Eitt af fyrstu þroskaverkefnum okkar er að halda höfðinu stöðugu eða eins og sagt er í daglegu máli að „halda haus“.

Halla Eiríksdóttir

Þetta orðatiltæki hefur einnig aðra merkingu eins og að halda andlitinu eða með öðrum orðum að láta ekki tilfinningar í ljós. Alveg sama á hverju gengur. Innra með okkur bærist þó ólgusjór og stormviðvörun sem fyllir á stundum tilfinningaskalann. Við höldum samt andlitinu og þjálfum okkur markvisst í að þjappa tilfinningum saman eins og gert var þegar síld var söltuð í tunnu. Þjappa og þjappa, svo skellum við lokinu á. Líkaminn fær að kenna á tilfinningapressunni, því við höldum stöðugri spennu, erum eins og spennt teygja til að koma í veg fyrir að það komi leki. Áhrifin eru líkust því sem við sjáum í aflraunakeppnum þar sem haldið er á þungum hlut í útréttri hönd sem reynist ótrúlega mikil áreynsla.

Fylgikvilli stöðugrar spennu er þreytutilfinning sem fólk áttar sig oft ekki á eða tengir við orsökina. En tunnan getur brostið á böndunum og þá gusast út vökvinn og það sama gerist í tilfinningagosinu þegar við ausum úr okkur með hávaða og orðaflaumi sem við ráðum bara ekki við því það kom jú leki í tunnuna. Afleiðingarnar geta verið slæmar, við missum út úr okkur eitthvað sem við sjáum eftir og upplifum slæmar tilfinningar á eftir. Og þá kemur að iðruninni eða að gangast við sínum tilfinningabrestum. Það getur verið hægara sagt en gert því orðin sem sögð voru eru ekki aftur tekin og fyrirgefning ekki alltaf gefin. Þá hefst viðgerðarvinnan sem tekst sisvona, allt eftir því hvað við getum verið heiðarleg gagnvart tilfinningum og tekist á við grunnvandann eða bara nota gömlu aðferðina og þjappa í tunnuna. Þegja þetta bara af sér.

En besta leiðin er sennilega sú að hætta að troða í tunnuna, mæta sínum áskorunum og læra að takast á við tilfinningaágjöfina. Fyrir þá sem ekki eru reiðubúnir til þess, að þá eru til leiðir sem markvisst geta dregið úr spennu sem eru fólgnar í líkamlegri áreynslu, teygjum eða djúpslökun.

Að kenna gömlum hundi að sitja

Það reynist mörgum fullorðnum verulega erfitt að breyta um lífsstíl eða lífsmáta til hins betra. „Ég er bara svona“ eru í raun ákveðin skilaboð um að við treystum okkur ekki til eða sjáum ekki fram á að við getum breytt neinu til batnaðar. Við búum til hindranir eða höft til að takast á við óþægilegar tilfinningar, af því við viljum það ekki, getum það ekki eða vitum ekki hvernig á að gera það. Dómharkan gagnvart okkur sjálfum er mun meiri en til dæmis gagnvart vinum, við fyrirgefum þeim, umberum og styðjum þá. En gagnvart eigin breyskleika setjumst við gjarnan í dómarasætið og gefum okkur sjálfum falleinkunn og niðurbrot. Okkar eigin mistök sæta oft meiri gagnrýni frá okkur sjálfum, eitthvað sem við myndum sjaldnast gera gagnvart vinum. Þetta er eitthvað sem nánast allir kannast við og þú, lesandi góður, manst örugglega eftir atviki þar sem dómgæslan í leiknum var ekki alveg sanngjörn.

Þroski og umburðarlyndi

Lífshlaupið er eitt þroskaverkefni með öllum sínum áskorunum sem við ýmist leitum eftir eða færast í hendur okkar óumbeðið. Að vera ábyrgur fyrir lífi annarra sem foreldri, forráðamaður eða bóndi er stórt þroskaverkefni sem færir okkur í fang ótrúlegar áskoranir sem geta haft meiri tilfinningaleg áhrif en við gerum okkur grein fyrir. Þroskinn felst meðal annars í að gangast við þessum tilfinningum, reyna að skilja þær, sýna umburðarlyndi í stað dómhörku í eigin garð og stækka þar með persónuna sem við viljum vera. Í landi þar sem ekki er alltaf sumar og sól þó að dagatalið segi annað, er lífið stundum erfitt á drungalegum degi og við leitum leiða til að bæta okkar geð. Vanlíðan er hægt að deyfa með lyfjum og áfengi og sú leið er vel þekkt og enda telja sumir sig ná mjög góðum árangri í að svæfa sínar tilfinningar á þann hátt. Sú leið er hins vegar öfug við það sem ég áður nefndi með þroskann því svo einkennilegt sem það virðist þá erum við að taka út þroska allt lífið enda er skóli lífsins eilífur. Lífsgjöfin sem okkur var gefin við fæðingu er á okkar ábyrgð að rækta og hlúa að svo vöxturinn verði sem bestur og gefi góðan ávöxt.

Skylt efni: bændageð

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f