Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri.
Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri.
Lesendarýni 28. maí 2019

Hluti svars um sjálfbæra landnýtingu

Höfundur: Þröstur Eysteinsson
Í síðasta tölublaði Bændablaðsins gerir Ari Teitsson frændi minn tilraun til að svara spurningu Árna Bragasonar landgræðslustjóra um hvað felist í sjálfbærri landnotkun, eða öllu heldur dregur hann fram eitt atriði sem hann telur ekki felast í sjálfbærni, þ.e. að friða einstaka afréttir fyrir beit. 
 
Í samtali fyrir skemmstu spurði Árni mig hvort ég gæti skilgreint sjálfbæra landnýtingu og svaraði ég um hæl „já já, ekki málið“ en bætti svo við að ég gæti það hvorki  án umhugsunar né í stuttu máli. Það er nefnilega ekki rétt sem Ari skrifar í pistli sínum að hugtakið sjálfbær þróun hafi fyrst komið fram í Brundtland-skýrslunni árið 1987, sama hvað Wikipedia segir. Hugtakið og hugmyndafræðin um sjálfbærni er mun eldri, eða frá því snemma á 18. öld, og er fengin að láni frá skógrækt, þar sem hún hefur verið leiðarstef í skógfræðimenntun í 300 ár. Ef skógfræðingur getur ekki skilgreint sjálfbæra landnotkun, hver getur það þá? 
 
Grunnstefið eins og Ari ritar það, „landnýting sem mætir þörfum þeirra sem nýta landið nú, án þess að skerða möguleika þeirra sem landið munu nýta í framtíðinni“ er í samræmi við upphaflega hugmynd Carls von Carlowitz sem fyrst setti hana á blað fyrir 300 árum. Hún var hagfræðilegs eðlis og fjallaði um það hvernig hægt væri að rækta skóg á ný þar sem skógur hafði verið felldur svo komandi kynslóðir gætu einnig notið gæða skógarins. Hún snerist upphaflega eingöngu um þann hag sem mannkynið gæti haft af skógum, líkt og orðalag Ara um landnotkun. Í millitíðinni hefur hugmyndafræðin hins vegar þróast heilmikið með skrifum og samfélagsumræðu skógfræðinga. Það er ekki von til þess að almenningur fylgist með þróun hugmyndafræði í einni faggrein og því heldur fólk gjarnan að hugmyndafræði sjálfbærni hafi sprottið fullmótuð úr höfði Gro Harlem Brundtland. Það gerði hún að sjálfsögðu ekki. 
 
Án þess að rekja alla söguna, þá fjallar sjálfbærni um aðferðir við nýtingu auðlinda. Hugmyndafræðin samanstendur nú af tugum þátta sem falla undir þrjá meginflokka, hagræna, umhverfislega og félagslega. Voru þessir þættir flestir orðnir til í skógfræði og kenndir verðandi skógfræðingum löngu fyrir 1987. Auðlindanýting telst ekki sjálfbær nema kröfum allra þriggja flokka og þorra undirþátta þeirra sé mætt. Mæta þarf ýmsum kröfum um stöðuga arðsemi eða a.m.k. með reglulegu millibili, nýtingin má ekki skemma eða eyðileggja loft- eða vatnsgæði eða búsvæði lífvera í stórum stíl, samfélagið þarf að vera sátt við nýtinguna og hún má ekki ganga á lífsgæði fólks um of. Á undanförnum 40 árum hefur almenna samfélagsumræðan um sjálfbærni einkum snúist um umhverfisflokkinn og innan hans um flokkun sorps. Það er svo gróf einföldun að hún á í raun varla nokkuð skylt við sjálfbærni í heild. 
 
Innan umhverfisflokksins hefur nýr mælikvarði á sjálfbærni nýtingar bæst við á síðustu áratugum, þ.e. binding koltvísýrings úr andrúmsloftinu og varðveisla kolefnis í skógi, öðrum gróðri og mold. Sem fyrr hefur sú umræða mótast að miklu leyti innan skógræktargeirans og er komin lengst þar vegna órjúfanlegra tengsla skógfræði við sjálfbærni. Þess vegna er öll þessi áhersla á mikilvægi verndar regnskóganna og aukna skógarþekju yfirleitt.   
 
Auðlindin sem um ræðir verður fyrst að vera til og í sæmilegu ástandi til þess að taka megi upp aðferðir sjálfbærni. Hugmyndin er að við sem notum auðlindina nú gerum það á þann hátt að komandi kynslóðir geti það einnig. En hvað ef fyrri kynslóðir hafa gengið svo hart að auðlindinni og gæði hennar rýrnað svo mjög að hún er vart svipur hjá sjón? Hvað ef við sjálf erum þessar „komandi kynslóðir“ og stöndum frammi fyrir auðlind sem búið er að nota upp til agna, ónýtri auðlind í orðsins fyllstu merkingu? Er einu sinni hægt að tala um nokkuð í líkingu við sjálfbæni þegar svo er komið?
 
Nei, auðvitað ekki. Þegar því sem næst allir skógar eru eyddir, helmingur alls jarðvegs fokinn á haf út og gróðurinn sem eftir er svo rýr og aumur að hann vex varla, þá er of seint í rassinn gripið. Nýting þeirra auðlindaleyfa getur ekki verið sjálfbær. Af henni er engan arð að hafa nema með mikilli meðgjöf, hún veldur áfram skaða á umhverfinu og hún leiðir til félagslegra erfiðleika og fátæktar, sem sjá má á því að fólk yfirgefur dreifbýlið sem aldrei fyrr. 
 
Þegar svo er komið verður að endurheimta auðlindina áður en hægt er að tala um sjálfbæra nýtingu hennar. Í skógrækt felst þróun í átt að sjálfbærni í því að byggja upp skógarauðlind og á meðan verði nýting hennar svo takmörkuð að auðlindin eflist eins og kostur er. Í annarri landnotkun gildir svipað. Byggja þarf upp gróður- og jarðvegsauðlindirnar og á meðan þarf nýting þeirra að vera svo takmörkuð að þær eflist eins og kostur er. Ég endurtek að í þessu felst þróun í átt að sjálfbærni en ekki sjálfbær nýting. 
 
Í nýjum landgræðslulögum er kveðið á um að tryggja skuli að landnýting sé sjálfbær. Svipað ákvæði er í nýjum skógræktarlögum um nýtingu skóga. Hvort tveggja ber að túlka sem svo að það sé vilji löggjafans að unnið skuli að þróun í átt að sjálfbærni í þeim málaflokkum. Innan þess ramma þarf síðan að setja markmið, t.d. um aukið flatarmál skóga eða aukna gróðurþekju á afréttum, og að á meðan sé nýtingin svo takmörkuð að markmiðin náist á ásættanlegum tíma. Í ljósi loftslagsröskunar og þarfarinnar fyrir að binda koltvísýring úr andrúmsloftinu höfum við ekki mikinn tíma. Í sumum tilvikum þarf að takmarka nýtingu svo mikið að hún verði engin.
 
Þröstur Eysteinsson
skógræktarstjóri
Þjóðlendukröfur í eyjar og sker
Lesendarýni 14. mars 2024

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker

Óbyggðanefnd tók til meðferðarsvæði 12, með því að fjármálaráðuneytinu var tilky...

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?
Lesendarýni 13. mars 2024

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?

Í Samráðsgátt stjórnvalda lágu fyrir skemmstu til umsagnar drög að reglugerð um ...

Niðurskurðargapuxarnir
Lesendarýni 12. mars 2024

Niðurskurðargapuxarnir

Eins og meðfylgjandi grein í Nýjum félagsritum frá 1885 ber með sér hafa verið u...

Alvarleg aðför að eignarrétti, landbúnaði og byggðafestu
Lesendarýni 8. mars 2024

Alvarleg aðför að eignarrétti, landbúnaði og byggðafestu

Reglugerðardrög um sjálfbæra landnýtingu sem lokið hafa umsagnarferli í samráðsg...

Deildarfundir Auðhumlu svf. 2024
Lesendarýni 4. mars 2024

Deildarfundir Auðhumlu svf. 2024

Deildarfundir Auðhumlu svf. 2024 verða haldnir sem hér segir:

Falskt fæðuöryggi undir merkjum ofstjórnar
Lesendarýni 1. mars 2024

Falskt fæðuöryggi undir merkjum ofstjórnar

Þess gætir í vaxandi mæli í þjóðfélaginu að dregnar eru upp sviðsmyndir sem í eð...

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda
Lesendarýni 28. febrúar 2024

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda

Eftir 1. júlí 2024 mega bændur ekki endurnota eyrnamerki/ örmerki sín í sauðfé, ...

Hið „meinta“ viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur við ESB
Lesendarýni 28. febrúar 2024

Hið „meinta“ viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur við ESB

Árið 1993 var lokið við gerð samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og hann l...