Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Árni Björn Pálsson heldur hér á eftirsóttasta verðlaunagripi heimsmeistaramótanna, Tölthorninu.
Árni Björn Pálsson heldur hér á eftirsóttasta verðlaunagripi heimsmeistaramótanna, Tölthorninu.
Fréttir 15. ágúst 2025

Sigurför Íslendinga í Sviss

Höfundur: Hulda Finnsdóttir

Heimsmeistaramót íslenska hestsins fór fram í Birmenstorf í Sviss dagana 3. til 10. ágúst. Þar öttu kappi nítján þjóðir um átján heimsmeistaratitla í íþróttakeppni ásamt kynbótasýningu. Íslenska landsliðið var afar sigursælt með tíu gullverðlaun og átta silfur.

Eins og ávallt ríkti eftirvænting fyrir mótinu í Sviss og er áætlað að um 30.000 gestir hafi verið á mótinu. Íslenska liðið var ágætlega vel samsett og tókst Íslandi að vinna liðabikarinn en Ísland hefur unnið bikarinn frá því að hann varð fyrst veittur fyrir utan árið 2015 og 2023.

Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir á Hulinn frá Breiðstöðum er fyrsti knapinn til að vinna slaktaumatölt á heimsmeistaramóti fyrir Íslands hönd.
Unnum slaktaumatöltið í fyrsta sinn

Eftirsóttasti verðlaunagripur heimsmeistaramótanna er Tölthornið og er þetta sjöunda mótið í röð sem hornið fer til Íslands en Árni Björn Pálsson gerði sér lítið fyrir og vann töltið á Kastaníu frá Kvistum og er nú kominn í hóp þeirra knapa sem hampað hafa Tölthorninu.

Gullið í slaktaumatölti fór einnig til Íslands en þar urðu hlutskörpust Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir á Hulinn frá Breiðstöðum. Er þetta í fyrsta sinn sem knapi úr íslenska landsliðinu vinnur þessa grein á heimsmeistaramóti. Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað urðu í öðru sæti en þær unnu einnig til silfurverðlauna í samanlögðum fjórgangsgreinum og voru í A úrslitum í fjórgangi.

Voru þetta einu tvö gullin sem fóru til Íslands í fullorðinsflokki. Það var norskur sigur í fjórganginum en þar bar sigur úr býtum Anne Stine Haugen á Hæmi frá Hyldsbæk og í fimmganginum var það Lena Maxheimer á Abel frá Nordal sem bar sigur úr býtum en þau kepptu fyrir Þýskaland. Svíinn Caspar Logan Hegardt á Odda frá Skeppargården varði titil sinn í samanlögðum fimmgangsgreinum og titillinn í samanlögðum fjórgangsgreinum fór til Þjóðverjans Lisu Schürger á Kjalari frá Strandarhjáleigu.

Kristján Árni Birgisson varð tvöfaldur heimsmeistari á Kröflu frá SyðriRauðalæk.
Besti tími ársins

Natalie Fischer vann bæði 100 m og 250 m skeiðið, á Ímni frá Egeskov, en þau náðu frábærum tíma í 100 m skeiðinu eða 7,10 sek., sem er besti tími ársins. Natalie keppir fyrir Danmörku. Þjóðverjinn Laura Enderes vann gæðingaskeiðið á gæðingnum sínum Fannari von der Elschendau en þau enduðu einnig í fjórða sæti í 100 m skeiðinu.

Íslendingarnir unnu þó til þrennra silfurverðlauna í skeiðinu. Sigursteinn Sumarliðason á Krókus frá Dalbæ varð í öðru sæti í 100 m og 250 m skeiðinu og Hinrik Bragason á Trú frá Árbakka voru nokkrum kommum frá sigri í gæðingaskeiðinu.

Stórkostlegur árangur hjá ungmennunum

U21-liðið stóð sig frábærlega á mótinu og vann öll gullin fyrir utan tvö, í samanlögðum fjórgangsgreinum og í slaktaumatölti. Það munaði þó litlu í slaktaumatöltinu en þar voru þær Lilja Rún Sigurjónsdóttir á Arion frá Miklholti og hin hollenska Dromelot van Helvoort á Glymjanda frá Íbishóli jafnar í 1–2. sæti. Eftir sætaröðun frá dómurum endaði Dromelot í fyrsta sæti og Lilja Rún þurfti að láta sér lynda silfrið en hún endaði einnig með silfur í töltinu.

Jón Ársæll Bergmann fór mikinn á mótinu á hryssunni Hörpu frá Höskuldsstöðum en þau unnu til þrennra gullverðlauna í samanlögðum fimmgangsgreinum, gæðingaskeiði og fimmgangi. Í fimmganginum þurfti einnig að skera úr um sigur með sætaröðun dómara en jöfn Jóni var Þórgunnur Þórarinsdóttir á Djarfi frá Flatatungu. Fóru því silfurverðlaunin einnig til Íslands.

Jón Ársæll og Harpa frá Höskuldsstöðum þrefaldir heimsmeistarar. Mynd / Henk & Patty

Kristján Árni Birgisson vann tvö gull á Kröflu frá Syðri-Rauðalæk í 100 m skeiði og 250 m skeiði en tími þeirra í 100 m skeiðinu hefði dugað þeim til bronsverðlauna í fullorðinsflokki.

Védís Huld Sigurðardóttir á Ísaki frá Þjórsárbakka varð heimsmeistari í tölti og fjórgangi í ungmennaflokki. Munaði litlu að þau yrðu einnig heimsmeistarar í samanlögðum fjórgangsgreinum en sá titill fór til Þjóðverjans Daniel Rechten á Óskari frá Lindeberg.

Þrátt fyrir frækna framgöngu íslensku ungmennanna var gaman að sjá hvað samkeppnin var orðin mun meiri en á síðasta heimsmeistaramóti sem segir okkur að hestamennskan sé í sókn.

Kynbótagullin til Íslands og Þýskalands

Árangur kynbótahrossanna sem ræktuð voru á Íslandi var góður en stóðu þau efst í öllum flokkum fyrir utan tveimur, flokki 7 vetra og eldri hryssna og 6 vetra hryssna. Þar voru efstu hross þýsk fædd. Efsta sex vetra hryssan var Flóka vom Sonnenhof sýnd af Jolly Schrenk með 8,51 í aðaleinkunn og efsta hryssan í 7 vetra flokknum var Náttdís vom Kronshof með 8,96 í aðaleinkunn, sýnd af Frauke Schenzel en hún sýndi einnig Pálu vom Kronshof sem var önnur í sama flokki með 8,86 í aðaleinkunn. Báðar hryssurnar voru með yfir níu fyrir hæfileika og hlaut Náttdís m.a. 10 fyrir samstarfsvilja.

Í fimm vetra flokki var efsta hryssan Óskastund frá Steinnesi með 8,41 í aðaleinkunn, sýnd af Árna Birni Pálssyni og efsti stóðhesturinn var Sörli frá Lyngási með 8,43 í aðaleinkunn, sýndur af Agnari Snorra Stefánssyni.

Hljómur frá Auðsholtshjáleigu var efstur í elsta flokki stóðhesta með 8,77 í aðaleinkunn, sýndur af Árna Birni Pálssyni og efstur í sex vetra flokki stóðhesta varð Drangur frá Ketilsstöðum með 8,58 í aðaleinkunn, sýndur af Viðari Ingólfssyni.

Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka urðu heimsmeistarar í tölti og fjórgangi í ungmennaflokki.
Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...