Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Sameinuðu þjóðirnar óttast um stöðu grunnvatns
Mynd / Steppeland - Lutgarde De Brouwer - Unsplash
Fréttir 13. apríl 2022

Sameinuðu þjóðirnar óttast um stöðu grunnvatns

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Næstum helmingur jarðarbúa stendur frammi fyrir miklum vatnsskorti, að minnsta kosti einhvern hluta ársins, að því er fram kemur í nýrri skýrslu UNESCO, Menntunar-, vísinda- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þá er því spáð að þetta ástand haldi áfram að versna og jafnvel talað um yfirvofandi kreppu í neysluvatnsmálum jarðarbúa.

Þótt loftslagsbreytingar geti gegnt stóru hlutverki í hvernig grunnvatn safnast upp í jarðlögum til lengri tíma, þá er mesta hættan samt af mikilli uppdælingu grunnvatns að mati UNESCO. Fyrir upphaf þessarar aldar var metið að á milli 100 og 200 km³/ári (rúmkílómetrar af vatni á ári) væri dælt upp úr jarðlögum. Það er um það bil 15 til 25% af heildarvatnsnotkuninni.

Grunnvatnsmengun dregur úr neysluhæfni á vatni

Grunnvatn gefur helming þess vatns sem jarðarbúar nota til heimilisnota, þar með talið drykkjarvatn fyrir langflestan hluta dreifbýlis sem er ekki tengt veitukerfum. Um 25% af áveituvatni er grunnvatn. Engu að síður er mikilvægi þessarar náttúruauðlindar oft vanmetið og illa skilið. Vatnsbúskap er illa stjórnað og illa farið með vatnið sökum mengunar, að sögn SÞ.

Um helmingur jarðarbúa býr við einhvern vatnsskort

Næstum helmingur jarðarbúa stendur frammi fyrir miklum vatnsskorti, að minnsta kosti einhvern hluta ársins, en um 2,2 milljarðar manna hafa nú ekki aðgang að fersku drykkjarvatni.

Forsíða nýrrar skýrslu UNESCO.

Í skýrslunni segir að vegna loftslagsbreytinga sem hafa áhrif á úrkomu og heildar vatnshringrás á jörðinni sé því spáð að þetta ástand versni enn frekar. Hins vegar kemur líka fram í skýrslunni að höfuðorsök þessa ástands sé ekki síður ofnýting grunnvatns í landbúnaði á sumum svæðum og mengun jarðvegs af mannavöldum.

Komið að tímamörkum

Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að vegna bráðnunar jökla og sífrera, séu vatnafarsbreytingar að nálgast þau mörk að ekki verði aftur snúið. Þá er að sjálfsögðu miðað við lok litlu ísaldar sem svo er nefnd og gjarnan hefur verið notað sem núllpunktur í loftslagsumræðunni.

Ný skýrsla milliríkjanefndarinnar um loftslagsbreytingar (IPPC) bendir á umfang yfirvofandi vatnskreppu og þær gríðarlegu áskoranir sem fram undan eru við stjórnun þessarar auðlindar.

Vatnsmagn sem myndast vegna bráðnunar á snjó og ís mun minnka. Það er helsta uppspretta áveitu í sumum heimshlutum. Tap jöklamassa mun draga enn frekar úr framboði á vatni í landbúnaði og rekstri vatnsaflsvirkjana og framboði til borga og byggða til næstu framtíðar og lengri tíma.

Breytingar á hringrás vatns, sem og öfgar í veðri, munu hafa neikvæð áhrif á ferskvatnsvistkerfi. Á sama tíma munu beinar flóðaskemmdir aukast með hverju broti af hækkun hitastigs, að því er fram hefur komið í málflutningi nefndarmanna IPCC. 

Áburður og skordýraeitur skaðar grunnvatn

Grunnvatn verður einnig fyrir áhrifum af mengun frá áburði og skordýraeitri í öflugum landbúnaði, eitruðum efnum í illa stjórnuðum iðnaði og fráveitu frá illa stjórnaðri hreinlætisaðstöðu.

Mikilvægi grunnvatns mun aðeins aukast vegna vaxandi eftirspurnar eftir vatni í öllum greinum og breytileika og ófyrirsjáanlegrar úrkomu og úrkomumynsturs í andrúmsloftinu.

Heimsvatnsþróunarskýrsla Sameinuðu þjóðanna 2022 bendir á að skilningur á möguleikum grunnvatns krefst samstillts átaks í stjórnun og sjálfbærri nýtingu þessarar auðlindar. Grunnvatn skiptir sköpum í baráttunni gegn fátækt, matvæla- og vatnsöryggi og aðgengi og þol samfélagsins, efnahagslífsins og samfélaga við loftslagsbreytingar. 

Heilbrigðar ár fyrir heilbrigt grunnvatn

Herferðin Save the Blue Heart of Europe undirstrikar tengsl heilbrigðra vistkerfa í ám og grunnvatni. Árnar eru með grunnvatnskerfi í stöðugum skiptum. Vatnið skilar sér til ánna, hreinsað, sem vistkerfi grunnvatnsins stuðlar að.

„Þetta heilbrigða samband grunnvatns og áa getur orðið fyrir áhrifum af hnignun áa. Ef árfarvegum er breytt eða þær stíflaðar, getur það skaðað líffræðilegan fjölbreytileika og haft þar af leiðandi áhrif á gæði yfirborðvatnsins sem verður að grunnvatni,“ segir í átakinu.

Save the Blue Heart of Europe segir að vatnsföllum á Balkanskaga sé ógnað af gerð yfir 3.500 stíflna vegna vatnsaflsframkvæmda til aukinnar raforkuframleiðslu. Það geti stórlega ógnað grunnvatns­auðlindum og aðgengi að drykkjarvatni fyrir staðbundin sam­félög.

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...