Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Seiði af hrognkelsum. Hrognkelsi eru fyrirtaks hreinsifiskur. Þau eru svo mikilvirk við lúsaátið að fastir kaupendur að hrognkelsaseiðum hafa lítið sem ekkert þurft að nota lyf gegn laxalús á sjókvíaeldissvæðum.
Seiði af hrognkelsum. Hrognkelsi eru fyrirtaks hreinsifiskur. Þau eru svo mikilvirk við lúsaátið að fastir kaupendur að hrognkelsaseiðum hafa lítið sem ekkert þurft að nota lyf gegn laxalús á sjókvíaeldissvæðum.
Fréttaskýring 13. maí 2022

Fjölbreytt fiskeldi til hliðar við laxinn

Höfundur: Kjartan stefánsson

Styrjuhrogn, lúsétandi hrognkelsi, græn sæeyru, sushi-lostætið gullinrafi og gómsæt senegalflúra eru hluti af fjölbreyttri „flóru“ fiskeldis á Íslandi. Nýjar og spennandi afurðir eru í farvatninu.

Fiskeldi er ört vaxandi atvinnugrein á Íslandi, einkum laxeldi í sjókvíum í fjörðum fyrir vestan land og austan. Einnig eru áform uppi um stórfellt landeldi á laxi á Reykjanesi og jafnvel víðar.

Mikið hefur verið fjallað um vöxt laxeldis hér á landi og aðrar eldistegundir hafa fallið í skuggann að miklu leyti. Þótt annað fiskeldi en lax, bleikja og regnbogasilungur sé aðeins stundað hér í smáum stíl er það þó allrar athygli vert. Það getur orðið vísir að einhvejru meira í framtíðinni. Eitt fyrirtæki, Stolt Sea Farm Iceland hf. á Reykjanesi, kemur hér mjög við sögu.

Senegalflúra í eldi hjá Stolt Sea Farm Iceland. Flúran er einn vinsælasti og verðmætasti flatfiskur sem um getur.

Í þessari grein verður fjallað um þær eldistegundir sem minna hefur borið á. Greinargott yfirlit yfir fiskeldi á Íslandi er að finna í ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma 2021 hjá Matvælastofnun. Í umfjöllun hér á eftir verður gluggað í eldiskaflann í þessari skýrslu, hann endursagður í stuttu máli en margt tekið orðrétt upp.

Hagstætt ár fyrir fiskeldi

Áður en vikið verður að eldisteg­­undum sem minna hefur farið fyrir í umræðunni skal fyrst litið á heildarframleiðslu fiskeldis á
árinu 2021.

Í skýrslunni kemur fram að árið 2021 hafi á heildina litið verið farsælt á flestum sviðum íslensks fiskeldis og framleiðsla til slátrunar nokkuð umfram bjartsýnar væntingar.

Samtals voru 54 eldisstöðvar í fullum rekstri árið 2021. Af þeim voru 4 með lax í sjókvíum í 7 fjörðum og 3 með regnbogasilung í 3 fjörðum. Öll önnur eldisfyrirtæki voru með starfsemi sína á landi í ýmsum útfærslum.

Alls var slátrað 53.136 tonnum af eldisfiski á liðnu ári og jókst heildarframleiðslan um 31% milli ára. Þar vó þyngst rúmlega 12.000 tonna aukning á laxi úr sjókvíaeldi. Landeldi á laxi stóð í stað og er einungis rúm 4% af heildinni. Sjókvíar gáfu 44.503 tonn en land­eldi 1.955 tonn.

Heildarframleiðslan til manneldis í fyrra samanstendur aðeins af fjórum eldistegundum. Framleiðsla á laxi var 46.458 tonn, á bleikju 5.390 tonn, á regnbogasilungi 951 tonn og senegalflúru 337 tonn.

Hreinsa lús af laxi

Snúum okkur þá að þeim eldisteg­undum sem minna hefur verið fjallað um. Fyrst skal nefna hrognkelsi, eða öllu heldur hrognkelsaseiði, sem alin eru hér í nokkrum mæli, ekki til manneldis heldur til að hreinsa lús af laxi.

Hrognkelsaeldi hófst í fyrsta sinn með skipulögðum hætti hér á landi vorið 2014. Þá höfðu Færeyingar lýst áhuga sínum á því að kaupa „hreinsifisk“ til að halda lús í sjókvíalaxi í skefjum. Tilrauneldisstöð Hafrannsókna­stofnunar á Stað við Grindavík hóf þessa framleiðslu en langstærsti framleiðandinn í dag er Benchmark Genetics Iceland hf. (áður StofnFiskur).

Framleiðslugeta nú er 3,5 milljónir seiða á ári að stærð 25 grömm. Megnið er flutt út á seiðastigi til Færeyja. Einnig hafa fyrirtæki á Vestfjörðum verið dugleg við að nýta sér þessa aðferð til að halda laxalús í skefjum. Þá hefur skoskt laxeldi á hverju ári síðan 2015 sótt hingað hrognkelsaefnivið, ýmist sem hrogn eða lirfur.

Árið 2021 voru flutt út rétt rúm 1,2 milljónir seiða (24 til 44 grömm) til Færeyja. Auk þess fóru 650.000 smáseiði til Færeyja (0,5 grömm).

Vestfirskar laxeldisstöðvar fengu á síðasta ári 863.000 seiði sem dreift var á sjókvíar á 8 sjókvíaeldissvæði í 3 fjörðum.

Hrognkelsin eru svo mikilvirk við lúsaátið að fastir kaupendur að hrognkelsaseiðum hafa lítið sem ekkert þurft að nota lyf gegn laxalús á sjókvíaeldissvæðum, að því er fram kemur í skýrslu dýralæknis Mast.

Kræklingarækt enn í lægð

Kræklingarækt hefur átt á brattann að sækja eins og áður hefur verið fjallað um á þessum vettvangi. Því verður farið fljótt yfir sögu hér.

Í skýrslunni kemur fram að þrjú fyrirtæki haldi enn velli og hafi undanfarin ár stundað ræktun og uppskeru á tveimur megin hafsvæðum, í Breiðafirði og Steingrímsfirði.
Megnið af uppskerunni í dag er fengið með veiðum á villtri skel (plæging). Minni skel sem veiðist er sett í pulsur og ræktuð í sjó í heppilega stærð. Árleg uppskera við eðlilegar markaðsaðstæður er í kringum 100 tonn og þar af er vel yfir helmingur villt skel.

Eldi á senegalflúru

Senegalflúra þykir einn vinsælasti flatfiskurinn á betri veitingahúsum víða um heim. Eldi á senegalflúru hófst með formlegum hætti hjá Stolt Sea Farm Iceland í ágúst 2013.

Í byrjun árs 2015 var eldisstöðin farin að ala fiski í öllum stærðum og fyrsta slátrun hófst í febrúar sama ár. Flest hefur farið fram samkvæmt áætlun. Sjálft eldið hefur gengið að óskum og flúran er harðger og sæmilega hraðvaxta. Mest fór framleiðslan í 400 tonn árið 2017 en var 337 tonn á síðasta ári eins og áður er getið.

Upphaflegt markmið var að ala upp eigin klakstofn með tíð og tíma. Þau áform hafa breyst og seiði eru fengin eftir þörfum frá móðurfyrirtækinu á Spáni. Á síðasta ári voru flutt inn 2,6 milljónir smáseiða.

Tilraunaeldi á styrju hefur gefist vel

Styrjueldi hófst sem lítil tilraun hjá Stolt Sea Farm Iceland í desember 2014.

Alls voru flutt inn 300 smáseiði frá dótturfyrirtæki Stolt Sea Farm í Kaliforníu. Tilgangur tilraunarinnar er að kanna möguleika á því að koma á fót kavíarframleiðslu. Það tekur hér 8 til 10 ár að ala seiði fram að kynþroska.

Styrjan hefur dafnað vel og á liðnu ári voru um 160 fiskar í eldi og meðalþyngd komin í 70 kíló. Stærstu hrygnur eru í kringum 1,5 metrar á lengd og vel yfir 100 kíló. Búast má við að fyrstu hrygnur gefi hrogn, sem eru sem kunnugt er verðmætustu afurðir styrjunnar, árið 2022.

Stefnt að kavíarframleiðslu á Ólafsfirði

Styrjurnar hafa ekki látið staðar numið á Reykjanesi því nýtt félag, Hið Norðlenzka Styrjufjelag ehf., sem stofnað var síðastliðið haust, hefur fjárfest í fiskunum og flutt megnið af þeim norður á Ólafsfjörð. Styrjueldið verður þar í gamalli saltfiskverkun sem gerð hefur verið upp.

Í bígerð er að útbúa húsnæðið meðal annars þannig að aðstaða verði fyrir ferðamenn til að fylgjast með eldi styrjunnar. Ef allt gengur að óskum er stefnt að því að hefja framleiðslu á kavíar þegar á þessu ári. Þess má geta að hrogn eru um 10% af þyngd hrygnunnar þannig að reikna má með 6 til 18 kílóum af kavíar úr hverri hrygnu annað hvert ár.

Gullinrafi, verðmætur eldisfiskur

Gullinrafi er okkar allra nýjasti eldisfiskur en tegundin var í fyrsta sinn flutt til Íslands frá Spáni í júlí í fyrra til tilraunaeldis hjá Stolt Sea Farm Iceland.

Gullinrafi (yellowtail kingfish) er hraðvaxta hlýsjávartegund. Hann getur orðið næstum tveir metrar á lengd og um 80 kíló að þyngd við náttúruleg skilyrði.

Á meðan á tilraunaeldinu stendur er áformað að ala 30 til 40 tonn á ári sem krefst árlegs innflutnings á 7-10.000 smáseiðum.

Gullinrafi er yfirleitt allt að tvöfalt verðmætari en lax sem felst fyrst og fremst í miklum holdgæðum sem henta vel til sushi matargerðar.

Sæeyru lofa góðu

Sæeyru eru stór sæsnigill í skel. Þetta er ein dýrasta sjávarafurð sem hægt er að panta á veitingastöðum erlendis. Eldi og tilraunir með eldi á svokölluðum rauðum sæeyrum fóru fram hér á árum áður en framleiðsla til útflutnings féll niður.

Þráðurinn hefur verið tekinn upp að nýju og sæeyru af gerðinni græn eyru hafa verið í tilraunaeldi hjá Sæbýli á Eyrarbakka síðan 2012. Eftir 10 ára þróunarstarf er starfsemin flutt til Grindavíkur.

Unnið hefur verið að uppbyggingu lífmassa framleiðsludýra á Eyrar­bakka sem lofar góðu fyrir fram­leiðslu afurða til manneldis í nýju aðstöðunni í Grindavík.

Skylt efni: Fiskeldi

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...