Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Allar ísbreiður og jöklar á jörðinni eru að minnka vegna loftslagsbreytinga
Á faglegum nótum 2. október 2019

Allar ísbreiður og jöklar á jörðinni eru að minnka vegna loftslagsbreytinga

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Hlýnun á norðurskauts­svæðinu hefur verið meira en tvöfalt hraðari en að meðaltali á jörðinni á síðustu tveimur áratugum. Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem Hafrannsóknastofnun og Veðurstofa Íslands sendu frá sér fyrir skemmstu. Þar er vísað til nýrrar skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um lofts­lags­breytingar (IPCC) um áhrif loftslagsbreytinga á hafið og freðhvolfið.

Þessa mögnun hlýnunar má að hluta rekja til samdráttar hafíss og snjóþekju á sama tíma. Á komandi árum og áratugum munu jöklar enn hörfa víðast hvar og snjóhula að vetri endast skemur. Matvælaöryggi og skilyrði til búsetu á norðurskauts­svæðinu munu breytast. Breytinga er að vænta á náttúruvá, m.a. á flóðum í ám, snjóflóðum, skriðuföllum og vandamálum vegna óstöðugra jarðlaga, sem gera má ráð fyrir að hafi áhrif á innviði, ferðamennsku og aðstæður til útivistar. 

Grænlandsjökull rýrnar hratt

Leysingarvatn frá jöklum mun stuðla að áframhaldandi hækkun sjávar­stöðu. Þar munar mest um bráðnun Grænlandsjökuls, en á tíma­bilinu 2006–2015 rýrnaði Grænlands­jökull að meðaltali um 280 gígatonn á ári, sem samsvarar um 0,8 mm hækkun sjávar­borðs heimshafanna árlega. Sjávarborð heimshafanna hækkaði að jafnaði um 3,6 mm á ári á tímabilinu 2005–2015 og er sú hækkun 2,5 sinnum meiri en á árabilinu 1901–1990.

Aftakaflóð verða algengari

Innan þrjátíu ára verða aftakaflóð sem nú henda sjaldan algengari og komi ekki til verulegrar aðlögunar umfram það sem nú er gert mun hækkun sjávar og tíðari aftakaflóð auka verulega áhættu vegna sjávar­flóða á lágsvæðum. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu IPCC, milliríkjanefndar um loftslags­breytingar, sem kom út í gær. Þar er einnig ályktað að metnaðar­fullar og samhæfðar aðgerðir eru nauðsyn­legar til þess að samfélög geti aðlagast afleiðingum loftslagsbreytinga.

Rýrnun íss og snævar mun aukast á 21. öldinni

Á komandi árum og áratugum munu jöklar enn hörfa víðast hvar og snjóhula að vetri endast skemur og sífreri þiðnar enn frekar og hjaðnar. Áhrifa þessara breytinga mun gæta í rennsli vatnsfalla og á háfjalla­svæðum munu fjallahlíðar verða óstöðugri vegna hörfunar jökla og þiðnunar sífrera. Einnig munu jaðarlón framan við jökla stækka og slíkum lónum mun fjölga. Búast má við að skriðuföll og flóð muni eiga sér stað þar sem slíkra atburða hefur ekki áður orðið vart. Snjóflóðum mun sennilega fækka og þau munu ekki ná jafn langt frá fjallshlíð og áður, en krapaflóðum og votum snjóflóðum mun fara fjölgandi, jafnvel að vetri til. Flóð í ám sem orsakast af asarigningu á snjó verða fyrr á vorin og síðar um haust en áður. Þau verða líka tíðari hærra til fjalla en fátíðari neðar í fjöllunum. Breytingar á snjó, ís og jöklum munu hafa áhrif á vistkerfi á landi og í fersku vatni á heimskauta- og háfjallasvæðum. Búsvæði tegunda munu hnikast til norðurs og yfir á hærri svæði til fjalla sem hefur áhrif á uppbyggingu vistkerfa og framleiðni lífríkisins. Gert er ráð fyrir að breytingarnar dragi úr líffræðilegum fjölbreytileika þegar fram í sækir og að tegundir deyja út á líffræðilega einstökum svæðum. 

Niðurstöður spálíkana benda til þess að rýrnun íss og snævar muni enn aukast á seinni hluta 21. aldar ef losun gróðurhúslofttegunda verður áfram veruleg. Verði stórlega dregið úr losuninni á komandi áratugum er líklegt að hægja taki á rýrnun sífrera og snjóhulu, en leysing og hörfun jökla mun halda áfram.

Hækkun sjávarborðs við Ísland getur numið einum metra

Samkvæmt athugunum fer sjávar­borð heimshafanna hækkandi og verður hækkunin örari með árunum. Samanlagt leysingarvatn frá jöklum og jökulbreiðum leggur nú til stærstan hlut þessarar hækkunar og er umfram varmaþenslu hafsins vegna hlýnunar. Samanlögð árleg rýrnun hinna stóru jökulbreiða Grænlands og Suðurskautslandsins fer vaxandi. Massatap þeirra árin 2012–2016 var líklega meira en á árunum 2002–2011 og margfalt á við massatap áranna 1992–2001.

Að jafnaði hækkaði sjávarmál um 3,6 mm á ári á tímabilinu 2005–2015 (3,1–4,1 mm á ári) og er sú hækkun 2,5 sinnum meiri en á árabilinu 1901–1990, er hækkunin mældist að jafnaði 1,4 mm á ári (0,8–2,0 mm á ári).

Í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar sem kom út árið 2018 kemur fram að haldi forsendur um álíka mikla bráðnun jökulbreiða  Grænlands og Suðurskauts­landsins verður hækkun sjávar við Íslands­strendur innan við helmingur hnatt­rænni meðalhækkun. Landsig og landris munu einnig hafa áhrif. Að teknu tilliti til óvissu getur hækkun hér við land út öldina nálgast einn metra þar sem hún verður mest.

Hnattræn hlýnun hefur breytt útbreiðslu fiskistofna

Áhrifa veðurfarsbreytinga á vistkerfi norðurslóða gætir nú þegar í fiskafla samkvæmt niðurstöðum skýrslu milliríkjanefndarinnar.

Frá árinu 1970 hafa orðið breyt­ingar í tegundasamsetningu í vist­kerfum víða á landgrunnssvæðum meginlanda samfara minnkandi heildarafla. Vistkerfi á grunnslóð eru undir álagi vegna hlýnunar sjávar, aukinna sjávarhitabylgna, súrnunar sjávar, minnkandi súrefnisstyrks og hækkandi sjávarstöðu, sem og óhagstæðra áhrifa frá margvíslegri starfsemi mannsins á sjó og á landi. Jafnframt verður tilfærsla í útbreiðslu tegunda í átt til pólsvæða sem leiða mun til breytinga í samfélagsgerðum sem og minnkandi í fisksveiða með aukinni hlýnun hafsvæða á 21. öldinni.

Hraði þessara breytinga verður mestur við miðbaug en afleiðingarnar eru margbreyti­legri á pólsvæðunum. Breytingar á útbreiðslu og stofnstærðum fiski­stofna af völdum hlýnunar hafa þegar haft áhrif á stjórnun veiða úr mikilvægum stofnum og á efnahags­legan ávinning veiðanna. Þetta hefur torveldað viðleitni haf- og fiskveiðistjórnunarstofnana til þess að tryggja gott ástand vistkerfa, mynda efnahagslegan ávinning og styrkja lífsafkomu. 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...