Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Hótel Saga, eða Bændahöllin, við Hagatorg í Reykjavík mun væntanlega innan tíðar hverfa úr eigu bænda sem hafa rekið þar hótel frá 1962, eða í 59 ár.
Hótel Saga, eða Bændahöllin, við Hagatorg í Reykjavík mun væntanlega innan tíðar hverfa úr eigu bænda sem hafa rekið þar hótel frá 1962, eða í 59 ár.
Mynd / HKr.
Fréttir 24. júní 2021

Fjárfestahópur áformar að reka áfram hótel í Bændahöllinni

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Fjárfestahópur, sem tengist meðal annars Hótel Óðinsvéum, er í viðræðum við stjórn Bændahallarinnar um kaup á húseigninni. Ef að viðskiptin ganga í gegn mun hópurinn reka hótel í eigninni.

Bændablaðið sagði frá því í gær að stjórn Bændahallarinnar ehf., félags í eigu Bændasamtaka Ís­lands, hefði samþykkt að hefja einka­­­­viðræður við hóp fjárfesta um sölu á fasteign sinni, Bænda­höllinni við Hagatorg 1 í Reykjavík, sem hýst hefur Hótel Sögu síðan 1962.

Fjárfestahópurinn tengist meðal annars Hótel Óðinsvéum. Gangi kaup­­in eftir áforma nýir eigendur áfram­haldandi rekstur hótels í fasteigninni, að því er segir í tilkynn­ingu samningsaðila sem undirrituð er af Sigurði Kára Kristjánssyni hæsta­réttarlögmanni. Hann var skipaður tilsjónarmaður með fjárhags­legri endurskipulagningu Bænda­hallarinnar, sem veitt var heimild til í júlí á síðasta sumri. Sú heimild rennur endanlega út þann 7. júlí næstkomandi svo ljóst er að viðræður við fjárfestahópinn miðast við að þeim verði lokið fyrir þann tíma.

Ekki í fyrsta sinn sem reynt er að selja hótelið

Áform um að selja Hótel Sögu eru ekki ný af nálinni og oft hafa bændur tekist á um slíkar hug­myndir. Alvara komst í þau mál í kjölfar rekstrarvanda sem fram kom í ársreikningi 2012. Var tilkynnt um það 19. nóvember 2014 að Hótel Saga væri til sölu. Sagt var að mikill áhugi fjárfesta væri á að kaupa þetta sögufræga hótel við Hagatorg. Frestur var til 16. janúar 2015 til að leggja fram skuldbindandi tilboð.

Hætt við sölu 2015

Bárust fjögur tilboð, en ekkert þeirra þótti nógu hagstætt. Var því hætt við söluna og taldi stjórnin hagstæðara að halda áfram rekstri hótelsins og ráðast í endurbætur á byggingunni.
Í kjölfar kostnaðarsamra endur­bóta á hótelbyggingunni skall á heimsfaraldur vegna Covid-19. Leiddi það ásamt rekstrarvanda til þess að Hótel Saga var sett í greiðslustöðvun og hótelrekstri lokað um óákveðinn tíma frá og með 1. nóvember 2020. Fram að því höfðu verið 236 herbergi í rekstri auk annarrar starfsemi í þessu 20 þúsund fermetra húsi, þar á meðal skrifstofur Bændasamtaka Íslands.

Aftur samþykkt að hefja söluferli á síðasta Búnaðarþingi

Á Búnaðarþingi í mars 2021 var stjórn Bændasamtakanna veitt ný heimild til að ræða við áhugasama kaupendur og undirbúa sölu á Hótel Sögu. Margir hafa sýnt áhuga á að kaupa húsið og um tíma voru uppi hugmyndir um að ríkið keypti bygginguna fyrir starfsemi Háskóla Íslands. Af því hefur ekki orðið. Nú hillir hins vegar undir að skrifað verði undir kaup hóps fjárfesta á húsinu í byrjun júlí.

Stórmerkileg saga

Hótel Saga á merka sögu í hótelrekstri og menningarlífi Íslendinga. Hefur það verið vettvangur fjölmargra stórviðburða og jafnt erlendra og innlendra listamanna sem og stjórnmálamanna og þjóðar­leiðtoga í gegnum áratugina. Þá gistu þar meðal annarra fyrstu tunglfarar heimsbyggðarinnar þegar þeir stunduðu æfingar fyrir flug Appolo eldflauga NASA til tunglsins. Í þeim hópi voru Neil Armstrong og Buzz Aldrin, sem stigu fyrstir manna á yfirborð tunglsins þann 20. ágúst 1969.
Fyrsta skóflustunga að byggingu Hótel Sögu var tekin í júlí 1956, en hótelið var tekin í notkun 1962. Byggingu fyrri áfanga lauk þó ekki fyrr en 1965. Á áttunda áratug síðustu aldar var ákveðið að byggja sjö hæða byggingu við Bændahöllina að norðanverðu. Framkvæmdir við verkið hófust árið 1982 og lauk 1985.

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f