Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Jón Hafþór Marteinsson, upphafsmaður Bambahúsa og framleiðandi þeirra, segir fyrirtækið vilja vera afl til fræðslu og sjálfbærni.
Jón Hafþór Marteinsson, upphafsmaður Bambahúsa og framleiðandi þeirra, segir fyrirtækið vilja vera afl til fræðslu og sjálfbærni.
Mynd / Bambahús
Líf og starf 31. maí 2023

Bambahús hasla sér völl

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Hugmyndin að Bambahúsunum varð til í ársbyrjun 2020 hjá fjölskyldu í Bolungarvík. Um er að ræða gróðurhús úr einnota umbúðum sem ella myndu urðast sem rusl. Fyrsta gróðurhúsið, ásamt mold og moltu, var gefið Bolvíkingum svo að bæjarbúar gætu sameinast um að rækta þar mat handa sér og sínum.

Bambahús draga nafn sitt af bömbum, sem eru sterkbyggðir 1.000 lítra IBC söfnunarkassar/ tankar fyrir t.d. vökva, matvæli eða spilliefni. Öryggisgrind tankanna er gerð úr galvaníseruðum stálrörum og þolir mjög harkalega meðferð og skelin hágæðaplast (HDPE). Aflóga bambar verða svo að gulli í greipum Bambahúsa því efnið úr þeim er notað í gróðurhús sem fást í ýmsum stærðum.

Jón Hafþór Marteinsson er framleiðandi gróðurhúsanna. Hann var nýkominn af sjó þegar Bændablaðið hafði samband og segist vera að vinna að hugmynd sem gæti umbylt strandveiðum talsvert hvað varðar öryggi og aðbúnað sjómanna og veiðihæfni hvers báts. Hann vildi ekki gefa meira upp um verkefnið að svo stöddu svo við setjum fókusinn á Bambahús hans.

Gróðurhúsin nýtast sem kennslurými í fjölmörgum leik- og grunnskólum víða um land.

Kennir börnum að hlúa að lífi

Velgengni Bambahúsa segir Jón Hafþór fyrst og fremst að þakka þeim sjálfum og þeim fjölmörgu grunn- og leikskólum sem hafa tekið sjálfstæðar ákvarðanir um að kenna börnum ræktun og annað í Bambahúsum. „Síðan fyrstu Bambahúsin urðu til er kominn fjöldi Bambahúsa við grunn- og leikskóla víðs vegar um landið og þau hafa hafa verið fjármögnuð með ýmsum ráðum,“ segir Jón Hafþór og heldur áfram:

„Nú í dag er hægt að telja um 90 húseiningar víðs vegar um landið og um það bil 30 af þeim eru staðsettar fyrir utan leik- og grunnskóla. Við finnum fyrir mikilli vakningu meðal kennara um mikilvægi þess að krakkar kynnist náttúrunni á þennan hátt. Í bónus með Bambahúsum eru börnin að sjá hvernig hlutir geta breytt um form. Það virkjar svo þeirra sköpunarkraft til áframhaldandi verka í að umbreyta og hlúa að lífi.“

Hann segir ljóst að áhugi skólanna fari ört vaxandi og þeir virðist meðvitaðir um þörf á að ræktun og meðferð plantna verði framar á námskránni en verið hefur. „Bara það að starfsemi Bambahúsa geti fullum fetum merkt sig 9 af 17 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun ætti að vekja viðbrögð þeirra sem standa að innflutningi á þessum bömbum og hjálpa okkur við að nýta efnið í eitthvað gagnlegt fyrir samfélagið,“ segir hann.

Styrkur húsanna, einföld uppsetning, lágt verð, lítið viðhald og jákvæð umhverfisáhrif gera húsin eftirsóknarverð, að sögn Jóns Hafþórs. „Það eru mikil tækifæri til uppvinnslu og hringrásar í matvælaiðnaði á Íslandi. Framlag Bambahúsa býður upp á fullkomna lausn á uppvinnslu þess bambaúrgangs sem til fellur í iðnaði hér á landi. Að búa til úr þeim gróðurhús fyrir skóla, sem munu nýtast sem kennslurými fyrir komandi kynslóðir um uppvinnslu, umhverfisfræði og ræktun, er risastórt skref sem stuðlar að eflingu hringrásarkerfisins á Íslandi,“ segir hann jafnframt.

Lukkuleg leikskólabörn horfa á bílinn Bambaljóð flytja til þeirra Bambagróðurhús.

Almenningur vakni til vitundar

Húsin eru að sögn Jóns Hafþórs veðurþolin, notendavæn og nær viðhaldsfrí og hafa fram yfir önnur gróðurhús að þurfa ekki jarðfestingar og geta staðið hvar sem er á sléttum fleti. Þau henti jafnt í ræktun í mold sem og í hydroponic-ræktun (vatnsræktun plantna) og aquaponic-ræktun (fisk- og plönturæktun í vatni).

„Íslendingar framleiða aðeins 10% af því grænmeti sem þeir neyta og aðeins 3% ávaxta í ræktun með umhverfisvænni orku og hreinu vatni,“ segir hann. „Innflutningur á grænmeti er kostnaðarsamur og kolefnisfrekur. Með ræktun grænmetis hér á landi sparast kolefnisspor vegna innflutnings, pökkunar og umbúða. Við þurfum að huga að því að verða sjálfbærari í matvælaframleiðslu en einnig endurnýtingu efnis og uppvinnslu þess.“ Hann segir að eitt helsta vandamálið varðandi ræktun og því að ná meiri sjálfbærni í matvælaframleiðslu sé þekkingarleysi almennings. Lýsing og sjálfvirkni hafi aldrei verið eins aðgengilegt og þar með aldrei verið jafnauðvelt að rækta sinn eigin mat.

Samkvæmt Jóni Hafþóri eru um 5.000 IBC-tankar eða bambar fluttir til landsins á hverju ári. „Úr þeim gætum við smíðað 700 hús á ári. Það er mjög kostnaðarsamt að flytja þessa tanka utan til endurvinnslu og því hafa þeir verið urðaðir eða nýttir undir rusl sem fer til útflutnings. Þá eru úrvinnsluaðilar að losa sig við bamba með því að flytja í þeim úrgang. Þetta þykir okkur í Bambahúsum miður því við höfum fundið leið til að nýta þessa tanka og búa til úr þeim vöru sem er í raun verðmætari en upprunalega einingin. Þetta er kallað uppvinnsla og er annað sem við viljum sjá börn í skóla fræðast um. Með tilvist Bambahúsa og ef við sjáum viðvarandi aukningu á eftirspurn verðum við að finna leiðir til að fá bambana til okkar.

Núna er nóg framboð af bömbum en við viljum aðeins þá tanka sem eru vel varðveittir og af ákveðinni gerð,“ segir Jón Hafþór og bætir við að töluvert hafi þurft að hafa fyrir því að finna réttu bambana áður en þeir færu til spillis eða væri fargað. „Við viljum koma upp bamba- miðlun þar sem allir bambar sem koma til landsins verða flokkaðir og notaðir eftir þeim gæðum sem í þeim eru. Það er að innfluttir bambar verði skráðir eftir hvað þeir innihalda og af hvaða gerð þeir eru og að þeir verði eftir tæmingu nýttir eftir gæðum þeirra og ástandi.“

Bambahús eru ekki við eina fjölina felld í framleiðslu sinni heldur hafa framleitt fleira úr hráefninu. „Við höfum smíðað kalda og heita potta og útisturtu. Hönnun heita pottsins er sérstök og miðast við að nýta heita vatnið betur en hefðbundnir heitir pottar gera,“ segir Jón Hafþór. Ýmislegt annað sé einnig á teikniborðinu sem miðist út frá að nýta annars konar byggingarefni sem einnig sé erfitt að endurvinna eða farga á góðan hátt fyrir umhverfið. „Við höfum sótt um styrki til að klára þessa hönnun og vonandi fáum við að frumsýna nýja tegund af afþreyingarhúsnæði innan skamms. Þetta er spennandi verkefni og við erum að leita að rétta samstarfsaðilanum sem gæti verið með okkur í þessu.“

  Unnið að endurvinnslu bamba. Hráefnið er nýtt til að byggja gróðurhús og ýmislegt fleira.

Vilja vera leiðandi afl

Bambahús eru sífellt að sækja í sig veðrið og uppi á borðinu eru alls konar hugmyndir og verkefni. „Um daginn fórum við með þrefalt Bambahús á Hvalsnes á Reykjanesskaga en þar var fólk sem missti gamla gróðurhúsið sitt út á haf í vetrarstormi. Bambahúsin hafa staðið af sér veður á sumum verstu veðurstöðum á landinu svo við hlökkum til að sjá blómin blómstra í þessu húsi næstu 20 árin.“

Framtíðarsýn Jóns Hafþórs er skýr og stefnir hátt: „Við hjá Bambahúsum ætlum okkur að verða leiðandi afl í mótun framtíðarstefnu í uppvinnslu- og endurvinnslumálum á Íslandi,“ segir hann. „Bambahús eru nýsköpun og hluti af hringrásarhagkerfinu sem getur, líkt og áður var getið, merkt sig við heil 9 af 17 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í lofts- lagsmálum. Bambahús vilja vera afl til fræðslu og sjálfbærni. Því setjum við okkur stór markmið til uppvinnslu efnis sem kemur til eyjunnar sem við búum á. Við gerum okkur grein fyrir að það þýðir illa að ætla að flytja allt rusl, sem hér fellur til, erlendis til brennslu, urðunar eða endurnýtingar. Við hjá Bambahúsum teljum okkur vera að stíga mikilvæg skref í þá átt,“ segir Jón Hafþór að lokum.

Skylt efni: bambahús

Áframhaldandi búseta talin möguleg
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði...

Kirkjugarðsklúbburinn
Líf og starf 12. mars 2024

Kirkjugarðsklúbburinn

Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Mench...

Bændamótmæli á Íslandi?
Líf og starf 11. mars 2024

Bændamótmæli á Íslandi?

Mótmæli bænda í Evrópu hafa verið í fréttum undanfarin misseri þar sem þeir vald...

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars
Líf og starf 8. mars 2024

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars

Vatnsberinn hefur alla burði til þess að koma í framkvæmd þeim hugmyndum sem eru...

Lundi
Líf og starf 6. mars 2024

Lundi

Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Ha...

„... ég heyrði fnasað og krafsað í hálfrökkrinu ...“
Líf og starf 5. mars 2024

„... ég heyrði fnasað og krafsað í hálfrökkrinu ...“

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Svövu Jakobsdóttur.

Auðugri framtíðarsýn Dalabyggðar
Líf og starf 1. mars 2024

Auðugri framtíðarsýn Dalabyggðar

Eins og áður hefur verið kynnt hafa alls 14 byggðarlög hérlendis tekið þátt í ve...

Fagleg og fræðandi afmælissýning
Líf og starf 26. febrúar 2024

Fagleg og fræðandi afmælissýning

Hálfrar aldar afmæli Félags tamningamanna var haldið hátíðlegt þann 17. febrúar ...