Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Verndum Þjórsá fyrir þjóðina
Lesendarýni 19. mars 2015

Verndum Þjórsá fyrir þjóðina

Meira en þúsund ár eru liðin síðan landnámsmenn settust að á kostamiklum jörðum á bökkum Þjórsár. Nú steðjar ógn að  sveitunum við ána. Hluti íslensku þjóðarinnar telur afl Þjórsár  geta bætt kjör landsmanna verði það beislað og  nýtt til að snúa raforkuhverflum. Talað er um þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár, Urriðafossvirkjun neðst, Holtavirkjun og Hvammsvirkjun ofar. 
 
Við undirrituð bændur á bökkum Þjórsár viljum benda á eftirfarandi staðreyndir:
Mörg virk eldfjöll eru á upptakasvæðum Þjórsár, Hekla, Tungnafellsjökull og Bárðarbunga. Verði náttúruhamfarir á Þjórsár/Tungnársvæðinu munu eftirtalin orkuver vera í hættu:
 
  • Búrfellsvirkjun 270 MW
  • Sultartangavirkjun 120 MW
  • Hrauneyjafossvirkjun 210 MW
  • Sigölduvirkjun 150 MW
  • Búðarhálsvirkjun 95 MW
  • Vatnsfellsvirkjun 90 MW ásamt Kvíslaveitum
 
Alls 935 MW af 1893 MW sem er heildarraforkuframleiðsla vatnsorkuvera Landsvirkjunar. Verði virkjað í neðri hluta Þjórsár eykst heildar raforkuframleiðsla vatnsorkuvera  í 2183 MW og þar af verða 1225 MW til á þessu vatnasvæði eða tæp 57% allrar raforku­framleiðslu vatnsorkuvera Lands­virk­junar. Hlutur Landsvirkjunar í orkuframleiðslu með vatnsafli er tæp 97% á landsvísu.
 
Verði af þessum framkvæmdum myndast þrjú uppistöðulón í farvegi Þjórsár. Þau skerða blómlegar sveitir beggja vegna árinnar þar sem nú er stundaður arðsamur landbúnaður. Um er að ræða stór stöðuvötn sem drekkja munu gróðri og jarðvegi þar sem þau leggjast upp á bakka árinnar. Tún og beitarland munu hverfa undir vatn og malarhauga. Til dæmis er áætlað  að úr neðsta lónstæðinu þurfi að fjarlægja 1,5 milljónir rúmmetra efnis svo hægt sé  að virkja Urriðafoss. Þessu efni verður komið fyrir á milli  sveitabæja við ána. Á rekstrartíma virkjananna mun með vissu millibili þurfa að dæla brott botnfalli, m.a.jökulleir, úr lónunum ofan stíflnanna því  framburður sem áin ber með sér ofan af hálendinu mun falla þar til botns. Magnið af þessu rokgjarna efni sem dælt verður inn á lönd bújarða við ána skiptir milljónum rúmmetra. Lónin verða öll á upptakasvæði stórra jarðskjálfta þar sem landið er víða mjög sprungið eftir jarðhræringar fyrri alda.
 
Með tilkomu virkjana í neðri hluta Þjórsár mun rennsli árinnar á löngum köflum fyrir neðan stíflumannvirkin verða um  10 m³/sek í stað 340-360 m³/sek meðalrennslis sem nú er. Varla mun örla á vatni í margra tuga metra breiðum farveginum sem rúmar allt að 2000 m³/sek. Urriðafoss er á einu þeirra svæða sem vatnið hverfur af.  Urriðafoss er nú vatnsmesti foss Íslands. Fossinn er afar tilkomumikill  í náttúru héraðsins. Aðgengi að honum er  mjög gott, hann er í tæplega eins kílómetra fjarlægð frá Þjórsárbrú á þjóðvegi 1.
 
Með virkjun neðri hluta Þjórsár verður nánast öllum fiskgengum  svæðum árinnar ógnað. Síðan umhverfismat var framkvæmt á árunum 2001 og 2002 hefur laxgengd stóraukist  og hryggningarstöðum og búsvæðum fjölgað. Veiði í Þjórsá hefur aukist jafnt og þétt og var yfir 9000 laxar árið 2010 eða sem var um 17% af veiddum laxi á Íslandi það ár. Heyrst hefur um mótvægisaðgerðir lífríkinu til bjargar en óljóst er hvernig þær virka. Þegar  lónin fyllast skyndilega, sem mun gerast oft á hverju ári, vex rennslið um farvegina, getur aukist um 1000% og sjatnað svo jafnskjótt. Ekki er við því að búast að hrogn og seiði eigi miklar lífslíkur við þessar aðstæður. Þeim skolar á þurrt í flóðum og verða til þar þegar vatnsborðið lækkar.  Svo virðist sem óljósar mótvægisaðgerðir framkvæmdaaðila eigi að vega upp á móti öllum vandamálum sem kunna að skapast. Ekki hefur verið sýnt fram á að boðaðar aðgerðir muni skila árangri. Sanna verður að mótvægislausnir sem kynntar hafa verið séu óbrigðular. Minnstu frávik geta haft afdrifarík áhrif og skaðað fiskistofna árinnar til langframa. Forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa í raun gengist við því að fyrirtækið muni ekki geta haldið lífríki Þjórsár í því ástandi að fiskur fái þar þrifist. Þetta hafa þeir gert með því að lýsa sig fúsa til uppkaupa á veiðirétti í ánni.
 
Vegna neikvæðra áhrifa á Þjórsá af völdum framkvæmda Landsvirkjunar við Búrfell og Hrauneyjafoss á sínum tíma var gerður fiskvegur hjá fossinum Búða árið 1991. Ofan Búða eru  góð hrygningarskilyrði og næg fæða fyrir seiði. Lax  hrygnir nú á nýjum svæðum fyrir ofan Búða og hefur fiskgengd farið vaxandi undanfarna tvo áratugi, bæði í Þjórsá og þverám hennar svo sem Minnivallarlæk, Þverá, Sandá/Hvammsá og Fossá.  Fyrirhugað lón Hvammsvirkjunar mun raska um 68% af búsvæðum ofan Búða, skerða mögulegar göngur og hrigningu sjógenginna laxfiska ásamt því að hafa óþekkt áhrif á stofna staðbundinna urriða og bleikju.  Sl. áratug eða lengur markaði Alþingi lögformlegan feril Rammaáætlunar, sem kostað hefur ærið fé. Í öllu þessu ferli var það grundvallarforsenda og útgangspunktur í vinnu verkefnastjórnar að virkjanir mættu ekki á neinn hátt skerða lífsskilyrði göngufiska í ám. Tillögur um virkjanir í neðri hluta Þjórsár voru því alltaf gerðar með fyrirvörum um að ekki væri hætta á hruni fiskstofna. Vitað er  að allir hlutlausir sérfræðingar eru á einu máli um að engar mótvægisaðgerðir geti komið í veg fyrir að virkjanir í neðri hluta Þjórsár hafi  neikvæð áhrif á sjóbirting og lax í ánni. Því verður að gera þá kröfu til stjórnmálamanna og stjórnenda Landsvirkjunar að þeir taki tillit til þeirra málefnalegu og faglegu upplýsinga sem liggja fyrir um þann mikla og varanlega umhverfisskaða sem virkjanir í neðri hluta Þjórsár myndu valda. Ekki dugir að horfa til  skammtímasjónarmiða. 
Sl. 10–15 ár hefur bændum við Þjórsá verið gert ókleift að  framfylgja rekstraráætlunum og fyrirhugaðri uppbyggingu  hvort heldur er í landbúnaði, ræktun og matvælaframleiðslu eða ferðaþjónustu, vegna óvissu um virkjunarframkvæmdir og áhrif þeirra og vegna skorts á upplýsingum frá yfirvöldum og Landsvirkjun.
 
Fjölmargir hafa hagsmuna að gæta vegna þess verðmæta lands sem liggur að neðri  hluta Þjórsár. Þessir aðilar krefjast þess að landið verði ekki verðfellt með virkjunum. Hugmyndir um Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun eiga rót sína að rekja til stjórnmálamanna sem  trúa á stóriðju sem heildarlausn fyrir alþýðu þessa lands.
 
Af virðingu skulum við umgangast náttúru landsins og gæta hófsemdar í nýtingu auðlinda þess. Sýnum komandi kynslóðum tillitssemi og jafnframt gott fordæmi. 
 
Jón Árni Vignisson og Erna Gunnarsdóttir Skálmholti
Guðmunda Tyrfingsdóttir Lækjartúni
Kristjana Ragnarsdóttir og Örn Ingvarsson Sauðholti
Renate Hannemann og Arnar Jónsson Herríðarhóli
 Sverrir Kristinsson Gíslholti
Oddur Bjarnason og Hrafnhildur Ágústsdóttir Stöðulfelli
Tryggvi Sveinbjörnsson Heiði
Bjarni Gunnlaugur Bjarnason Skeiðháholti
Þórbergur Hrafn Ólafsson Forsæti 1
Ágúst Valgarð Ólafsson og Kolbrún Berglind Grétarsdóttir Forsæti 3
Ólafur Sigurjónsson Forsæti 5
Sturla Þormóðsson Fljótshólum
Albert Sigurjónsson Sandbakka
Axel Páll Einarsson og Elísabet Thorsteinsson Króki
Sævar Örn Sigurvinsson og Louise Anne Aitken Arabæ
Bragi Ásgeirsson og Petra Nicola Deutrid Selparti
Sigríður Kristjánsdóttir Grund
Aðalheiður Kr. Alfonsdóttir Ferjunesi 2
Guðfinnur Jakobsson Skaftholti
Valgerður Auðunsdóttir og Guðjón Vigfússon Húsatóftum 1
Ástrún S. Davidsson og Aðalsteinn Guðmundsson Húsatóftum 2
Erlingur Loftsson Sandlæk 1
Elín Erlingsdóttir Sandlæk 2
Sigrún Bjarnadóttir Fossnesi
Úlfhéðinn Sigurmundsson Haga
Sveinn Sigurjónsson Galtalæk 2
Svanborg R. Jónsdóttir Stóra-Núpi
Kristinn Marvinsson Miðhúsum
Veiðifélag Kálfár

Skylt efni: Þjórsá | virkjanir

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...