Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Verur alsettar augum
Skoðun 2. október 2015

Verur alsettar augum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Englar eru sendiboðar sem flytja boð Guðs milli himins og jarðar og hver þeirra flytur eitthvað af dýrð hans með sér. Komu þeirra fylgir söngur og birta.

Í Biblíunni eru englar sagðir í mannsmynd og vængjalausir, nema kerúbar og serafar.
Kerúbar eru gæslumenn Paradísar, þeir geta haft tvo, fjóra eða sex vængi og stundum eru vængir þeirra þaktir augum. Í fyrstu Mósebók segir: „Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð.“ Í Opinberunarbók Jóhannesar er kerúbum lýst þannig: „Fyrir miðju hásætinu og umhverfis hásætið voru fjórar verur alsettar augum í bak og fyrir. Fyrsta veran var lík ljóni, önnur veran lík uxa, þriðja veran hafði ásjónu sem maður og fjórða veran var lík fljúgandi erni. Verurnar fjórar höfðu hver um sig sex vængi og voru alsettar augum, allt um kring og að innanverðu.“

Seröfum er lýst í Jesajabók: „Umhverfis hann stóðu serafar. Hafði hver þeirra sex vængi. Með tveimur huldu þeir ásjónu sína, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir.“ Kerúbar og serafar virðast vera sérstakir englar sem eru í himnaskaranum sem er næst Guði.

Englar hafa lengi verið vinsælt myndefni og til er ótölulegur fjöldi englamynda af öllum stærðum og gerðum, elsta englamynd sem þekkist er frá annarri öld eftir Krist. Myndin sýnir boðun Maríu, engillinn er ungur, vængjalaus maður í hvítum kyrtli.

Það er ekki fyrr en á 4. öld sem farið er að sýna vængjaða engla á myndum. Á 15. öld fara englar að verða kvenlegir og á endurreisnartímanum eru þeir sýndir sem börn með vængi og kallast angeli minor. Vængirnir eru tákn þess hversu fljótir þeir eru í förum.
Erkienglar eða höfuðenglar eru yfirenglar sem stjórna herskara Guðs.

Í Gamla testamentinu eru aðeins nafngreindir þrír erkienglar, Mikjáll, Gabríel og Rafael, og í þann hóp er stundum bætt Úríel sem kemur fram í apokrýfu bókunum. Menn eru ekki á einu máli um fjölda erkienglanna, múslímar viðurkenna eingöngu fjóra en kristnir menn og gyðingar virðast sammála um að þeir séu sjö.

Af höfuðenglunum hefur Mikjáll verið í mestum metum hér á landi og er 29. september kenndur við hann. Mikjáll var talinn eins konar herforingi engla og messa hans sungin af kappi við upphaf norrænnar kristni. Dæmi eru um að skuldalúkningar miðist við Mikjálsmessu. Samkomur voru haldnar á Mikjálsmessu, enda bar hana upp um svipað leyti og heyskaparlok, fjárleitir og upphaf sláturtíðar.  Á Íslandi voru fimmtán kirkjur helgaðar Mikjáli.

Vítisenglar eru fallnir englar sem gert hafa uppreisn gegn Guði. Þar er fremstur í flokki sjálfur Lúsífer, yfirskratti í neðra, en hann var einn af erkienglunum áður en hann féll.
Nokkrar sögur um engla er að finna í þjóðsagnasöfnum Jóns Árnasonar og Sigfúsar Sigfússonar og eflaust víðar sé að leitað.

Trúin á engla virðist að mestu horfin úr trúarlífi Íslendinga og leifar hennar helst að finna í gömlum bænum eða í tengslum við ungbörn. Þegar börn hjala í vöggu sinni er sagt að þau tali englamál og að þau séu að tala við englana.

Skylt efni: Stekkur | englar

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...