Samhengi hlutanna
Skoðun 5. desember

Samhengi hlutanna

Þjóðmálaumræða dagsins er stundum ofsafengin. Eitt mál verður ráðandi og það eru „allir“ að tala um það og hafa á því skoðanir, þrátt fyrir að hafa ekkert kynnt sér það nema kannski með lestri fyrirsagna eða stöðuuppfærslna á samfélagsmiðlum. Sú umræða verður alltaf grunn og stendur stutt yfir því að á morgun kemur nýtt hneyksli og hitt gleymist. Öfgarnar eru líka meiri.

Einhvern tíma var sagt að „kurteisi kostar ekkert“ og það er enn staðreynd í huga þess sem þetta ritar, en stundum er upplifunin sú að ekki sé hlustað á neitt nema öfgakenndan og svarthvítan málflutning, kryddaðan uppnefnum eða ásökunum. Það er sannarlega miður, því þannig leysum við engin mál. Við stöndum bara í endalausri störu- eða öskurkeppni, án þess að takast nokkurn tíma að ræða málin af yfirvegun.

Til dæmis er oft sagt frá slæmu ástandi í heilbrigðisþjónustunni; fjársvelti, biðlistum, hallarekstri, uppsögnum og ýmsum öðrum vandkvæðum. Við gætum líka rætt að við gerum sífellt kröfu um dýrari og betri þjónustu auk tilsvarandi lyfja. Við fáum hingað sífellt fleiri ferðamenn sem þurfa líka heilbrigðisþjónustu. Auk þess hefur legið fyrir í áratugi að eldri borgurum, sem eðli málsins samkvæmt þurfa meiri þjónustu, er að fjölga hlutfallslega á meðan að fjöldi þeirra sem er á vinnualdri stendur í stað. Það fæst ekki mikil umræða hvernig við ætlum að leysa það. Þurfa notendur að borga meira eða ætlum við að gera það saman með hærri sköttum? Þarna vantar samhengi í umræðuna.

Ábyrg neysla og minni sóun

Það er vaxandi umræða um loftslagsvána. Það er risavaxið verkefni sem verður ekki leyst nema með því að við leggjum öll eitthvað fram til lausnar, stundum ábyrgari neyslu og sóum minna. Við þurfum líka að spyrja okkur að því hvernig við ætlum að réttlæta það fyrir hratt vaxandi fjölda samborgara okkar í veröldinni að þeir fái ekki aðgang að sömu lífskjörum og við höfum notið í áratugi, vegna þess að plánetan okkar ræður ekki við það. Á sama tíma einblína aðrir á að lausnin felist í að moka ofan í skurði í gömlum framræstum mýrum, henda svo skóflunni aftur fyrir sig og halda áfram óbreyttri hegðun.

Við gætum líka rætt hvað það var sem raunverulega breyttist við iðnbyltinguna. Að við fundum leiðir til að dæla og grafa upp milljóna ára gamalt kolefni og sleppa því út í andrúmsloftið á brotabrotabroti af myndunartíma þess. Það gjörbylti lífskjörum okkar og breytti heiminum svo sannarlega, en nú höfum við ekki lengur svigrúm til að halda áfram á þeirri braut. Hvernig ætlum við að leysa úr því og hvernig á að fæða sífellt fleiri munna á sama tíma? Á aðeins einum og hálfum sólarhring fjölgar íbúum heimsins um alla íbúatölu Íslands – allt árið um kring. Þarna vantar lausnir og það hratt, en það vantar líka samhengi í umræðuna.

Á matur að vera sem ódýrastur?

Við getum líka spurt okkur hvernig við viljum hafa okkar eigin matvælaframleiðslu. Sjávarútvegurinn okkar er sterkur alþjóðlega og flytur út matvæli í miklu magni á hverjum einasta degi. Í landbúnaðinum eigum við mörg sóknarfæri en aukinn innflutningur á búvörum hefur letjandi áhrif á ýmsar greinar hans.

Ætlum við að reyna að nýta alla okkar möguleika eins og við getum eða eigum við að horfa eingöngu á verð hlutanna og treysta á aðra?

Það er ríkt viðhorf í okkar menningu og víðar að matur eigi að vera sem ódýrastur. Fyrir því eru vissulega sterk rök. Það þurfa allir að borða og ekki svo langt síðan að við þurftum að verja miklu hærra hlutfalli af ráðstöfunartekjum til að kaupa í matinn en þeim 13–15 prósentum sem við nýtum til þess í dag.

Framleiðniaukning og hagræðing hafa keyrt niður verð um allan hinn vestræna heim – líka hér á Íslandi. Jafnvel má spyrja hvort að matur sé orðinn of ódýr ef okkur finnst í lagi að sóa þriðjungi af honum. Gerum við áfram þá kröfu að við fáum alla hluti sem við viljum allan ársins hring og skeytum engu um árstíðir, framleiðslu í nærumhverfinu eða hina náttúrulegu hringrás? Er það ekki eitt af því sem við þurfum að ræða í samhengi?

Allt eru þetta mál sem lesendur hafa örugglega mismunandi skoðanir á. Þannig á það líka að vera. Við þurfum að geta rætt mál, verið ósammála og tekist á. En það sem við megum ekki tapa er eiginleikinn til að geta rætt saman og komist að niðurstöðu með yfirveguðum hætti. Ef við gerum það þá endar það með upplausn og átökum sem aldrei mun skila samfélaginu fram á veg.

Danskt drykkjarvatn
Skoðun 28. september

Danskt drykkjarvatn

Sumarið kom, sá og sigraði með ferðalögum landsmanna um land allt. Blómlegar sve...

Í mótlætinu geta falist tækifæri
Skoðun 25. september

Í mótlætinu geta falist tækifæri

Áföll af ýmsum toga geta oft haft skelfilegar afleiðingar fyrir einstaklinga og ...

Ríkidæmi þjóðar
Skoðun 11. september

Ríkidæmi þjóðar

Orðatiltækið enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, lýsir vel því hugsu...

Misræmi í inn- og útflutningstölum frá ESB
Skoðun 10. september

Misræmi í inn- og útflutningstölum frá ESB

Enn af tollamálum, forysta Bændasamtakanna hefur á síðustu vikum fundað með fjár...

Enn um endurheimt votlendis
Lesendabásinn 7. september

Enn um endurheimt votlendis

Alllengi hefur mig undrað hve margir bændur virðast vera andsnúnir eða feimnir v...

Hinir óæðri
Skoðun 21. ágúst

Hinir óæðri

Það eru mikil átök í fræðslumálum sem snerta landbúnaðinn um þessar mundir. Má ...

Göngur og réttir með öðrum brag
Skoðun 20. ágúst

Göngur og réttir með öðrum brag

Nú líður að því að bændur fari til fjalla og smali saman búfénaði sem gengið hef...

Gætum hagsmuna hver annars
Skoðun 5. ágúst

Gætum hagsmuna hver annars

Það er áþreifanleg spenna í þjóðfélaginu þrátt fyrir að nú séu flestir landsmenn...