Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Hópur kúabænda stóð fyrir undirskriftasöfnun þar sem skorað var á samninganefndir bænda og ríkisins að setjast aftur að samningaborðinu og endurskoða nýundirritað samkomulag um nautgripasamning.
Hópur kúabænda stóð fyrir undirskriftasöfnun þar sem skorað var á samninganefndir bænda og ríkisins að setjast aftur að samningaborðinu og endurskoða nýundirritað samkomulag um nautgripasamning.
Mynd / TB
Lesendarýni 21. nóvember 2019

„Nei takk“

Höfundur: Guðrún Sigurjónsdóttir bóndi á Glitstöðum Laufey Bjarnadóttir bóndi á Stakkhamri
Við mótmælum því að samningsaðilar skuli hafa skrifað undir samning sem er líkt og opinn tékki. Þar eigum við við það að ekki sé sett hámarksverð á greiðslumark líkt og samþykkt var á aðalfundi LK og var lagt var upp með í samningaviðræðum. Reyndar höfum við heyrt að samningsaðilar hafi verið sammála því að í samningi væri tilgreint hámarksverð en á síðustu metrunum hafi viðsemjandi bænda hætt við líkt og einhver hafi stigið á tærnar á honum. 
 
Við erum mjög ósátt við að fulltrúar bænda í samninganefndinni skuli hafa skrifað upp á búvörusamning sem gengur þannig þvert á þá tillögu sem samþykkt var á aðalfundi LK og fól í sér að hámarksverð á greiðslumarki sem nemur tvöföldu lágmarks afurðastöðvar verði innan greiðslumarks og er langtum lægra en það verð sem bankar og lánastofnanir vilja nú ota bændum í að bjóða í kvóta á. Við teljum að fulltrúar bænda í samninganefnd hafi ekki haft umboð frá kúabændum til þess að undirrita samning sem felur í sér jafn mikla eftirgjöf frá því sem aðalfundur LK lagði upp með. Slíkur hringlandaháttur í rekstrarumhverfi bænda er algjörlega óásættanlegur. Hvers vegna liggur á að setja þennan nýja samning í atkvæðagreiðslu áður en hann er fullkláraður? Tímamörk eru á starfsnefndum, skila af sér í maí og þá á að kjósa aftur. Bíðum bara fram í maí og kjósum þá um fullkláraðan samning. Við höfum samning við ríkið í gildi sem tryggir okkur greiðslur til 2026.
 
Það er rangt að halda að verð á greiðslumarki verði innan skynsamlegra marka og það er slæm stjórnsýsla að halda að það sé nú gott að hafa ákvæði um að geta gripið inn í og handstýrt kerfi sem á að vera frjálst. Hvernig á að meta það hvenær verð á greiðslumarki er of hátt og það þurfi að grípa inn í? Eru menn sammála um hvar þau mörk liggja? Getum við hin sem eigum að spila eftir þessum reglum fengið að vita það? Okkar útreikningar sýna að verð í kringum 200kr/ltr geti verið ásættanlegt m.v. kaup á fyrsta ári. Bankar og lánastofnanir tala um 400–500kr/ltr og einhverjir hafa slegið fram 750kr/ltr. Þarna ber svolítið á milli og skiptir þann sem vill kaupa miklu. Mikil spenna hefur myndast eftir að aðalfundur LK vakti væntingar um hærra verð og mikil þörf víða bæði á að kaupa og selja. Búið er að opna upp á gátt leið þess sem vill selja til að gera góðan díl. Það liggur hins vegar nokkuð ljóst fyrir að þessi gjörningur kemur ekki til með að vera hagfelldur fyrir þá sem ætla að vera eftir í greininni. Auka óþarfaskuldsetning er ekki það sem greinin þarf. Er það svo að þeim sem leggja þennan samning fram er meira umhugað um þá sem eru að fara út úr greininni? Þessi samningur er einfaldlega gullnáma fyrir þá sem vilja hætta, feitur starfslokasamningur og getur jafnvel farið svo að bændur telji sig ekki hafa efni á öðru en að selja. Samningurinn kemur jafnframt þeim sem vilja starfa áfram og þurfa að kaupa greiðslumark illa. Vel á minnst, hvar í þessari umræðu allri var ákveðið að greiðslumarkið væri lífeyrir bænda? 
 
Það er annað sem er hættumerki í þessu og það er sú staðreynd að kvótann skuli eignfæra. Mikil eignamyndun getur þannig orðið sem lánastofnanir taka væntanlega veð í eða a.m.k. meta þegar kemur að því að gera lánasamninga. Eign sem er fallvölt því ekki þarf að breyta miklu til þess að hún breytist í verði.  Ýmsar aðrar leiðir eru þess virði að skoða ef menn á annað borð vilja. Til dæmis hefði mátt skoða þá leið að festa verð á greiðslumarki á því verði sem lagt var upp með í samningi 2016 og heimila lágar afskriftir (undir 5% á ári). Önnur leið sem líka mætti skoða er sú að ríkið leysi til sín allt greiðslumark og leigi svo bændum sem í staðinn fyrir að eyða orku og fjármunum í að kaupa greiðslumark á yfirverði geta þá einbeitt sér að því að framleiða ódýrari mjólk. 
 
Hvernig ætla fulltrúar bænda í verðlagsnefnd að rökstyðja það við aðra nefndarmenn að fara fram á hækkun á verði til bænda? Aðrir nefndarmenn munu benda á að bændur hafi haft efni á því að versla greiðslumark dýrum dómum en bændur biðja síðan um verðhækkun sér til handa. Hér fer bara ekki saman hljóð og mynd. Verslun með greiðslumark á háu verði stuðlar ekki að hagkvæmum rekstri og kemur ekki til með að auka samkeppnishæfni greinarinnar t.a.m. við þann innflutning sem þegar er farinn að hafa áhrif á sölu okkar mjólkurafurða. 
 
Verðlagsmál eru sett í nefnd ... það er eiginlega allt sem segja þarf. Í samkomulaginu er verið að opna á að það verði að aðskilja enn frekar söfnun og sölu á hrámjólk frá vinnslu mjólkurafurða og öðrum rekstri. Þarna virðist samninganefndarfólk ekki gera sér grein fyrir að nú þegar er ákveðinn aðskilnaður þar sem Auðhumla svf safnar og kaupir mjólk af bændum og selur síðan iðnaðinum hrámjólk, þ.e. MS, KS, Örnu, Biobú og svo framvegis. Jafnframt er gert að því skóna að dreifing á vörum verði að vera aðskilin söfnun á mjólk. Það mun þýða hækkun á flutningi og eins mun sótsporið aukast. Í samkomulaginu er mjög óljóst hvert menn eru að halda. Þarna þarf að vera staðfesta með skýr markmið hvert sé haldið. Stefnuleysið sem má lesa út úr textanum er algert. Það er mikil hætta á að menn endi út í mýri ef ekki verði haldið fast í stýrið miðað við hvernig aðrir þættir sem hafa áhrif á greinina stefna. Það er óásættanlegt að kjósa um þetta núna án þess að búið sé að ljúka þessum þætti. 
 
Það var sett reglugerð 15. júní 2018 til að loka á þau viðskipti að færa greiðslumark á milli jarða. Tilgangurinn með þeirri reglugerð var að loka á sýndarviðskipti svo að kvótamarkaður virki. Eitt af markmiðunum með kvótamarkaðinum er að allir sætu við sama borð og hefðu jafnan aðgang að kaupum á greiðslumarki. Það þýðir væntanlega að allur kvóti sem bændur vilja selja verður að koma á kvótamarkaðinn, undantekningalaust. Engin krafa var frá aðalfundi LK um að breyta þessari dagsetningu eins og síðan er gert í samningnum sem núna liggur fyrir. Til hvers var þessi dagsetning sett? 
 
Þar sem tekin var u-beygja í stefnu í mjólkurframleiðslu frá því á vormánuðum 2016 hefði þá ekki verið eðlilegra að skrifa allan samninginn upp á nýtt? Þegar þessi tvö plögg, samningur frá 2016 og svo þessi endurskoðun sem um er rætt núna, eru lesin saman tala þau út og suður og það virðist ekki vera heil hugsun í þessu. Eða eins og góður maður sagði um þennan gjörning að ákveðnum markmiðum sem voru sett í saminginn frá 2016 er kastað fyrir róða og tekin skörp handbremsubeygja og reikað stefnulítið inn í sólarlag fortíðarinnar.
 
Guðrún Sigurjónsdóttir
bóndi á Glitstöðum 
Laufey Bjarnadóttir
bóndi á Stakkhamri
„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?
Lesendarýni 20. mars 2024

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?

Mikill fjöldi ótímabærra dauðsfalla á síðustu misserum hefur ekki farið fram hjá...

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker
Lesendarýni 14. mars 2024

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker

Óbyggðanefnd tók til meðferðarsvæði 12, með því að fjármálaráðuneytinu var tilky...

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?
Lesendarýni 13. mars 2024

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?

Í Samráðsgátt stjórnvalda lágu fyrir skemmstu til umsagnar drög að reglugerð um ...

Niðurskurðargapuxarnir
Lesendarýni 12. mars 2024

Niðurskurðargapuxarnir

Eins og meðfylgjandi grein í Nýjum félagsritum frá 1885 ber með sér hafa verið u...