Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Kort af sýnileika vindorkuvers á Alviðru í Borgarfirði. Höfundur korta er David Christopher Ostman sem hann vann fyrir 4. áfanga rammaáætlunar.
Kort af sýnileika vindorkuvers á Alviðru í Borgarfirði. Höfundur korta er David Christopher Ostman sem hann vann fyrir 4. áfanga rammaáætlunar.
Lesendabásinn 25. maí 2021

Vindorkuver á Íslandi – nei takk

Höfundur: Sveinn Runólfsson

Vindorka er auðlind í eigu allra Íslendinga. Af þeirri ástæðu á nýtingin að vera með samræmdum hætti alls staðar á landinu. Ef það verður stefna stjórnvalda að hér megi reisa vindorkuver að þá verður að fjalla um þau öll í rammaáætlun. Því er fráleitt að einstaklingar, fyrirtæki eða ein­staka sveitarstjórnir geti tekið sér rétt til að nýta þessa náttúruauðlind og með því að valda íbúum og náttúrunni skaða og óþægindum. Vindorkuver munu skaða ferðaþjónustu og útivist og lækka verð á fasteignum í þeim sveitarfélögum þar sem vindorkuver kunna að rísa og jafnvel utan þeirra.

Það er engu líkara en runnið hafi æði á fyrirtæki og rafmagnsriddara sem vilja reisa vindorkuver víða um land. Á fjórða tug aðila hafa leitað til Orkustofnunar og óskað eftir heimild til að reisa vindorkuver. Svo virðist sem fjárfestar og aðrir vilji festa sér hagstætt stæði í landinu þrátt fyrir að undirbúningur margra þeirra virðist vera afar skammt kominn. En á hinn bóginn eru mörg vindorkuver fullhönnuð og fimm þeirra hafa hlotið afgreiðslu í drögum að tillögu um 4. áfanga rammaáætlunar. Tvö voru sett í biðflokk en þrjú í nýtingarflokk. Það vekur einnig furðu hversu langt undirbúningur er kominn í uppbyggingu nokkurra vindorkuvera án þess að nokkur kynning hafi átt sér stað til sveitarstjórna og íbúa hlutaðeigandi byggða.

Sýnileiki vindorkugarðs í Garpsdal.

Erlend fyrirtæki koma á íslenskan raforkumarkað

Meirihluti fyrirhugaðra vind­orkuvera virðist vera í eigu erlendra fyrirtækja með hérlenda samverkamenn – rafmagnsvíkinga. Stórfellt erlent eignarhald á raforkuframleiðslu hér á landi hlýtur að vera stjórnvöldum og þjóðinni allri umhugsunarefni. Lætur nærri að ef öll þessi vindorkuver verða að veruleika væri uppsett afl mun meira en öll raforkuframleiðslan landsins um þessar mundir. Hvað á að gera við alla þessa orku og hverjir ætla að kaupa hana?

Svipuð hæð og á þremur Hallgrímskirkjuturnum!

Rannsóknir sýna að ferðamenn sækja Ísland heim fyrst og fremst vegna upplifunar af lítt spilltri náttúru og víðerni. Verði farið út á þá braut að byggja hér vindorkuver skaðast verðmæt ímynd landsins verulega. Ímynd sem verður verðmætari fyrir þjóðarbúið þegar fram líða stundir.

Vindorkuverum fjölgar ört í allri Evrópu og víða um heim, þar sem verulegur skortur er á orku sem framleidd er með umhverfisvænni hætti. Við erum svo lánsöm að þurfa ekki á þessari lausn að halda hér á landi. Í vaxandi mæli eru vindorkuver erlendis staðsett á grunnsævi við strandríki vegna andstöðu íbúa sem verða fyrir barðinu á vindorkuverum á landi. Vindmyllur eru alltaf mjög áberandi í landslagi og geta aldrei annað en haft mjög mikil sjónræn áhrif. Erlendis er talið að vindorkuverin, svipuð þeim sem nú eru fyrirhuguð hér á landi, sjáist í að minnsta kosti 40 km fjarlægð og jafnvel í allt að 50 km. Vindmyllur nútímans eru engin smásmíði. Hæð svona mannvirkja samsvarar því að þremur Hallgrímskirkjuturnum sé staflað hverjum ofan á annan.

Heilsuspillandi áhrif á íbúa

Vindorkuver hafa margvísleg áhrif, ekki bara á náttúruna og ásýnd lands, heldur einnig á heilsu fólks, samfélög og atvinnugreinar sérstaklega ferðaþjónustu og útivist. Í allri þeirri hvatningu til nýtingar á vindorku sem kemur fram m.a. á Alþingi, virðist hvergi vera minnst á þá hættu sem fólki, sem býr í nálægð vindorkuvera stafar af lágtíðnihljóði, taktföstu hljóði, skuggavarpi og ljósflökti frá þeim. Lítið hefur farið fyrir þeirri staðreynd að vindmyllur drepa fugla í miklum mæli. Bændablaðið greindi t.d. frá því fyrr á árinu að vindmyllur hafi drepið á annað hundrað haferni í Noregi síðan 2006.

Staðsetning vindmylla og vindorkuvera í byggð hefur mikil og víðtæk búsetuáhrif. Hætt er við að fólk muni síður setjast að á þeim svæðum þar sem sveitarstjórnir kunna að heimila uppsetningu vindorkuvera og þeir sem fyrir eru munu frekar flýja þá staði ef þeir mögulega geta. Víti til varnaðar er uppsetning tveggja vindmylla fyrir nokkrum árum við byggðina í Þykkvabæ. Þessar vindmyllur eru þó mun lægri en vindmyllurnar sem rætt hefur verið um að reisa hér á landi.

Þrátt fyrir að vindmyllurnar í Þykkvabænum hafi verið óstarfhæfar síðustu misserin hafa þær ekki verið fjarlægðar og eru öllum til ama. Samkvæmt erlendum rannsóknum þá leikur enginn vafi á því að þær hefðu haft heilsuspillandi áhrif á íbúa þeirra húsa sem næst þeim eru, ef þær hefðu haldið orkuvinnslu áfram. Íbúar Þykkvabæjar gleðjast þó yfir að gnýrinn frá þeim angrar þá ekki lengur.

Vindmyllugarður í Roger Crofts í Skotlandi.

Móta þarf stefnu um nýtingu vindorku á Íslandi

Nýlega lagði umhverfis- og auðlindaráðherra fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um endurskoðaða landsskipulagsstefnu 2015–2026. Þar er ekki annað að sjá en sveitarfélögin eigi að hafa algjört frumkvæði og ákvörðunarvald um leyfi fyrir vindorkuverum, hvert á sínu svæði og taki þá mið af leiðbeiningum Skipulagsstofnunar og væntanlega öðrum þáttum.

Í tillögu Skipulagsstofnunar að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015-2026 til umhverfis- og auðlindaráðherra, febrúar 2021, segir m.a.: „Nýting vindorku er nýtt viðfangsefni í skipulagi og umhverfismati hér á landi sem fylgja nýjar áskoranir, ekki síst varðandi áhrif á landslag. Stefna um slíka nýtingu er mikilvæg fyrir ákvarðanatöku sveitarfélaga og hafa sveitarfélög ítrekað kallað eftir skýrri stefnu og leiðsögn um þetta efni.“ – Enn fremur segir þar:

„Tilefni þykir til að mæla fyrir um gerð leiðbeininga, þar sem áherslur landsskipulagsstefnu verði nánar útskýrðar og þannig stuðlað enn frekar að vandaðri og samræmdri vinnu við greiningu umhverfisáhrifa vindorkuvera og stefnumótun um vindorkuver í skipulagsáætlunum.“

Það vantar því ekki aðeins heildarsýn fyrir landið allt heldur einnig yfir hvar vindorkuver eiga alls ekki að vera með tilliti til áhrifa á landslag. Enn fremur vantar sárlega leiðsögn og „tæki“ fyrir sveitarstjórnir til að taka vandaðar og samræmdar ákvarðanir um nýtingu vindorku. Á meðan framangreint liggur ekki fyrir eiga sveitarstjórnir aðeins þann kost að hafna öllum hugmyndum um vindorkuver eða fresta ákvörðunum. Annað er ekki góð stjórnsýsla og almenningur á að veita sveitarstjórnum aðhald hvað það varðar. Sveitarstjórn Hörgársveitar hefur nú riðið á vaðið og samþykkt að hafna öllum hugmyndum um vindorkuver í sveitarfélaginu, til hamingju, sveitarstjórnarfólk. Til skýringar er rétt að geta þess að Vindheimavirkjun var sett í nýtingarflokk í 4. áfanga rammaáætlunar, en nú alfarið hafnað í sveitarstjórn.

Vindorkuver eiga ekki heima á Íslandi

Vegna hagsmuna ferðaþjónustunnar, útivistarfólks og allra náttúruunnenda er mjög mikilvægt að forðast að vindorkuver verði einkennandi landslagsfyrirbæri á Íslandi. Til þess að varðveita sérstöðu íslensks landslags er ljóst að það fyrirfinnst enginn staður hér á landi þar sem vindorkuver geta verið í sátt við náttúruna og okkur sjálf. Alþingi ætti að taka þá ákvörðun að vindorkuver verði ekki reist hér á landi. Slík ákvörðun kemur í veg fyrir óafturkræf umhverfisslys.

Sveinn Runólfsson,
er fyrrverandi landgræðslustjóri.

Skylt efni: vindorka | Vindmyllur | vindorkuver

Kröfur fjármálaráðherra í land á Vestfjörðum – 3. hluti
Lesendabásinn 11. október 2021

Kröfur fjármálaráðherra í land á Vestfjörðum – 3. hluti

Í fyrsta hluta var fjallað um að þjóðlendulög eigi rætur að rekja til tveggja hæ...

Norska leiðin  er íslenskum  landbúnaði  mikilvæg
Lesendabásinn 4. október 2021

Norska leiðin er íslenskum landbúnaði mikilvæg

Ég hef látið setja upp norsku leiðina í skipuriti Noregs gagnvart landbúnaði og ...

Að lifa með reisn
Lesendabásinn 23. september 2021

Að lifa með reisn

Ísland er ríkt land og hér á að vera best í heimi að búa, eldast og eiga gott æv...

Vörslumenn landsins: Bændur
Lesendabásinn 23. september 2021

Vörslumenn landsins: Bændur

Það sárnaði mörgum ummæli um að sauðfjárbúskapur væri hobbí en kannski eðlilegt ...

Það er best að kjósa XD
Lesendabásinn 23. september 2021

Það er best að kjósa XD

Í gegnum alla sögu Sjálfstæðis­flokksins hefur flokkurinn alltaf staðið með bænd...

Bændur skipta sköpum fyrir framtíð okkar sem þjóðar
Lesendabásinn 23. september 2021

Bændur skipta sköpum fyrir framtíð okkar sem þjóðar

„Bóndi er bústólpi“ heyrði ég sagt sem barn og það leikur enginn vafi  á sannlei...

Miðflokkurinn og landbúnaðurinn
Lesendabásinn 23. september 2021

Miðflokkurinn og landbúnaðurinn

Fyrir u.þ.b. þremur mánuðum tók ég ákvörðun um að bjóða krafta mína til setu á A...

Jöfnum búsetuskilyrði og réttum hlut sjávarbyggða
Lesendabásinn 23. september 2021

Jöfnum búsetuskilyrði og réttum hlut sjávarbyggða

Jöfn búsetuskilyrði í landinu er grundvallarréttur allra landsmanna. Val á búset...