Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.

Lesendabásinn 17. september 2019
Sumri hallar og haustverkin taka við af sumarverkunum. Heilt yfir virðist góður fóðurforði hafa náðst og ágætlega gengið að heyja.
Hluti af haustverkunum að þessu sinni er að ljúka endurskoðun búvörusamninga. Eftir aðalfund Landssambands kúabænda, sem haldinn var snemma síðastliðið vor, var samninganefnd bænda klár í þá vinnu. Ríkið skipaði svo samninganefnd af sinni hálfu og veitir Unnur Brá Konráðsdóttir henni formennsku. Það er skemmst frá því að segja að haldnir voru 5 fundir áður en við misstum stjórnsýsluna í sumarleyfi en eins og allir vita sem komið hafa nálægt vinnu í svona umhverfi þá gerist fátt á þeim tíma og fram yfir verslunarmannahelgi, þetta er náttúrulögmál.
Þessir fyrstu fundir voru nýttir til að stilla saman strengi. Ná saman um hvað skyldi leggja áherslu á, hverju þyrfti að breyta í samningunum, lögum og reglugerðum þeim tengdum.
Greiðslumark og verðlagning efst á baugi
Aðilar eru sammála um að tvö stærstu málin sem nauðsynlegt er að taka á í þessari endurskoðun séu greiðslumarks- og verðlagningarmál. Eins og flestir vita sennilega kusu kúbændur á þann veg að framleiðslustýringu skyldi viðhaldið í formi greiðslumarks eða kvóta. Það er breyting frá núgildandi samningi sem gerir ráð fyrir að framleiðslustýring leggist af. Einnig var, á sínum tíma, ákveðið að fresta gildistöku 12. greinar búvörusamningsins sem fjallar um verðlagningarmál. Nauðsynlegt er að taka upp sveigjanlegra kerfi verðlagningar svo takast megi með betri hætti á við breytingar á markaðsumhverfi og neysluvenjum fólks.
Þær línur sem lagðar eru af hálfu bænda í þessum viðræðum eru byggðar á ályktunum aðalfundar LK og hefur framkvæmdastjóri LK rakið þær áherslur ágætlega í nýlegum pistli á naut.is.
Kvótamarkaðurinn frosinn
Staðan sem nú er uppi í greininni er ekki neitt sem kemur á óvart. Innlausnarmarkaður með kvóta er frosinn, þ.e. að lítið framboð er á greiðslumarki. Bændur sem ætla sér að hætta búskap halda að sér höndum í þeirri von að það komist í gang kvótamarkaður sem gæti gefið þeim hærra verð en núna býðst á innlausnarmarkaði. Þetta var fyrirséð. Það var algjörlega ljóst frá því að skrifað var undir núverandi samning að þessi staða kæmi upp. Reynt var að stefna gegn vilja meirihluta íslenskra kúabænda – að afleggja kvótakerfið og innleiða nýtt kerfi. Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar farið er svo mjög gegn grasrótinni, alveg sama á hvaða vettvangi það er gert.
Réttum kúrsinn
Afleiðingarnar birtast okkur núna með þessum hætti sem rakinn er hér á undan, þ.e. kerfi í pattstöðu. Við sem sitjum í brúnni, ásamt öllum íslenskum kúabændum, erum nú með það verkefni í höndunum að snúa af þessari stefnu, verkefni sem við vissum að kæmi upp, verkefni sem okkur var úthlutað og munum stýra af festu. Það er okkar skylda að gæta að hag og framtíð íslenskrar mjólkurframleiðslu og það gerum við!
Nú eru aðilar aftur að setjast niður eftir sumarfríin enda margt sem þarf að klára þar sem endurskoðaður samningur þarf að fara í gegnum þingið núna í haust. Það verður fagnaðarefni þegar loksins verður settur punktur aftan við þá óvissu sem greinin hefur þurft að búa við frá upphafi þessarar vegferðar um afnám kvótakerfisins, vegferðar sem fáir báðu um og hefur reynst greininni ansi dýrkeypt.
Hranastöðum
í byrjun september 2019
Arnar Árnason,
formaður Landssambands kúabænda, arnar@naut.is
Lesendabásinn 19. maí 2022
Hversu vel erum við bændur tryggðir?
Veðurfar er síbreytilegt eins og við vitum en nú blasir við okkur nýr raunverule...
Lesendabásinn 18. maí 2022
Stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs í skjóli veikra, óljósra laga
Í tíð fyrrum umhverfisráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, reið yfir landið...
Lesendabásinn 12. maí 2022
Arfleifð bújarða
Eftir margra ára vinnu, blóð og svita kemur að því að bændur bregði búi og snúi ...
Lesendabásinn 6. maí 2022
Hvernig tryggjum við fæðuöryggi
Það hefur aldrei vantað neitt upp á að þjóðin og stjórnmálamenn vilji í orði try...
Lesendabásinn 6. maí 2022
Blóðmerahald í samanburði við annan húsdýrabúskap
Húsdýrabúskapur byggist á því að menn halda skepnur og hafa gott af þeim á einhv...
Lesendabásinn 29. apríl 2022
Er veisluhöldunum að ljúka?
Fyrirsagnir í heimspressunni, sem og innlendum fjölmiðlum, vísa nú í vaxandi mæl...
Lesendabásinn 28. apríl 2022
Reikult er rótlaust þangið
Allt frá því að land byggðist hefur það verið okkur lífsnauðsynlegt að nýta auðl...
Lesendabásinn 13. apríl 2022
Íslenskur landbúnaður og fæðuöryggi
Nú er komin upp sú staða í þriðja skiptið á fáeinum árum að spurningar vakna um ...