Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Þessi gervitunglamynd af Eldhrauni segir sögu sem menn verða að heyra. Hraunið er víða undir vatni enda er meira vatn á ferð en áður hefur þekkst. Vatnsflaumurinn mun valda náttúruspjöllum á svæði sem er á náttúruminjaskrá. Myndin var tekin um síðustu mán
Þessi gervitunglamynd af Eldhrauni segir sögu sem menn verða að heyra. Hraunið er víða undir vatni enda er meira vatn á ferð en áður hefur þekkst. Vatnsflaumurinn mun valda náttúruspjöllum á svæði sem er á náttúruminjaskrá. Myndin var tekin um síðustu mán
Lesendarýni 30. nóvember 2016

Um náttúruhamfarir í Eldhrauni sem nú eru af völdum manna

Höfundur: Sveinn Runólfsson
Langstærsta Skaftárhlaup á sögulegum tíma braust fram undan Skaftárjökli fyrir liðlega ári. Hlaupið eyddi gróðri á afréttum og í Eldhrauni á Út Síðu og þakti gróðurlendi jökuleir og sandi. Í þessum náttúruhamförum fóru stór svæði undir aur og sand í Eldhrauni og varnargarðar og vegslóðar skemmdust. 
 
Síðastliðið vor og fyrri hluti sumars var það úrkomuminnsta sem mælst hefur á Kirkjubæjarklaustri. Því fylgdi vatnsþurrð í nær öllum lækjum í Skaftárhreppi. Þann 8. júlí á liðnu sumri hóf bóndinn í Efri Vík í Landbroti ólögmætar vatnaveitingar úr Skaftá út á Eldhraunið. Síðar fylgdu leyfisveitingar Orkustofnunar fyrir meiri vatnaveitingum út á Eldhraunið en nokkru sinni fyrr. 
 
Vatnsflaumurinn í Eldhrauni að undanförnu er jafnvel meiri en í stórum Skaftárhlaupum.
 
Áveitur úr Skaftá
 
Áveituframkvæmdir nokkurra bænda í Landbroti úr Skaftá út á Eldhraunið hófust fyrir rúmlega 60 árum og hafa staðið yfir æ síðan. Allar þær framkvæmdir eru ólögmætar að mati Orkustofnunar sem fer með framkvæmd vatnalaga nr. 15/1923. Tvær undantekningar voru þó gerðar í sumar og haust þegar Orkustofnun veitti Lindarfiski ehf. og landeigenda  Botna í Meðallandi umbeðna heimild til að stýra vatnaveitingum í stíflumannvirkjum í eigu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Heimildin var tímabundin til 15. október 2017 og var veitt með ákveðnum skilyrðum um framkvæmd áveitunnar. Vikið verður hér síðar í greininni að annarri undantekningu frá reglunni um ólögmætar áveituframkvæmdir í Eldhrauni.
 
Hvers vegna er fiskeldisfyrirtæki falin framkvæmd vatnaveitinga?
 
Það er með öllu óskiljanlegt að Orkustofnun skuli fela fiskeldisfyrirtæki heimild til að standa fyrir vatnaveitingum til 15 mánaða, sem vitað er að munu leiða til stórfelldra gróðurskemmda og náttúruspjalla. Þetta var gert án nokkurs samráðs við stofnanir umhverfismála og þrátt fyrir að Orkustofnun hefði margítrekað í bréfaskiptum sínum til Skaftárhrepps að fara yrði í mat á umhverfisáhrifum áður en til slíkra vatnaveitinga kæmi.  Það er sama niðurstaða og Skipulagsstofnun hefur áður kynnt.
 
Orkustofnun lét loka fyrir rennsli um tvö rör í júní í sumar í samræmi við þá gömlu og sígildu meginreglu vatnalaganna að: „Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið“. Hér er átt við það rennsli sem staðfest er með mælingum Vatnamælinga að rann þar fyrir 20 árum í Árkvíslarnar á þessum stað. 
 
En hvers vegna var þá Orkustofnun að fela Lindarfiski ehf. að reka áveituframkvæmdir á þessum stað næstu 15 mánuðina, þvert gegn fyrri ákvörðun stofnunarinnar? Leyfisveiting Orkustofnunar frá 14. júlí sl. er einnig svolítið sérstök en fyrirsögn leyfisins er svohljóðandi: „Efni: Leyfi til að veita vatni við útfall Árkvíslar (við Skaftá) í þeim tilgangi að færa rennsli Árkvíslar í sama horf og var fyrir hlaup í Skaftá haustið 2016“. Þarna gerist Orkustofnun forspá því að lítið Skaftárhlaup hófst 7. september 2016. En væntanlega er ekki átt við ókomin Skaftárhlaup, heldur hlaupið er varð 2015.
 
Ekkert samráð við umhverfisstofnanir um leyfisveitingar
 
Þann sama dag, eða þann 14. júlí veitti Orkustofnun einnig Herði Davíðssyni, bónda í Efri Vík, tímabundið leyfi til áveituframkvæmda á sama stað, m.a. að rjúfa fyrrnefndan varnargarð í eigu stjórnvalda með ákveðnum skilyrðum. Þá opnaði hann tvær rennslisleiðir úr Skaftá í áveituna og rauf stórt skarð í varnagarðinn til að auka vatnsmagn í áveituna. Þessi leyfisveiting fór fram án nokkurs samráðs við verndarstofnanir umhverfismála og Vegagerðina. Leyfisveitingin gilti til 15. ágúst og var háð svipuðum skilyrðum og stofnunin hafði áður sett Lindarfiski ehf. auk viðbótarskilyrða, m.a. um að Hörður ábyrgðist að stíflumannvirki yrðu færð í upprunalegt horf. Skaftárhreppur veitti ekki framkvæmdaleyfi fyrir þessum framkvæmdum Harðar. 
 
Spurt er: Hvernig stendur á því að stjórnvald veitir tveimur einkaaðilum leyfi til gríðarlegra umdeildra vatnaveitinga og rekstri þeirra sama daginn? Hörður notaði tækifærið þegar hann var með gröfuna í Eldhrauni og fór í ýmsar aðrar áveituframkvæmdir. Nefna má Skálarál og Litla Brest í þessu sambandi. Þessar framkvæmdir voru með öllu ólögmætar. 
 
Öllum sem til þekkja í Eldhrauni er ljóst að þessar miklu vatnaveitingar jökulvatns út á Eldhraunið juku enn á eyðingu gróðurs í hrauninu og var eyðingin þó ærin fyrir. Þetta jökulvatn þéttir hraunið fjær meginfarvegi Skaftár og því mun næsta Skaftárhlaup fara enn lengra og eyða enn meiri gróðri en áður. 
 
Leyfi til vatnaveitinga framlengd
 
Sem betur fór tók að rigna í Skaftárhreppi þegar leið á síðastliðið sumar. Aukið vatnsmagn í Skaftá leiddi til þess að vatn kom á ný í læki í Skaftáhreppi eins og vænta mátti.  Samt sem áður veitti Orkustofnun Herði umbeðið leyfi um að halda áfram vatnaveitingum af fullum þunga, m.a. vegna þess að Hafrannsóknastofnun hafði fallist á að sinna eftirliti með áhrifum og árangri af þeim aðgerðum sem óskað var leyfi fyrir. Það verður afar fróðlegt að fá að sjá skýrslu þeirrar stofnunar um afleiðingar vatnaveitinganna. 
 
Að þessu sinni voru skilyrði Orkustofnunar m.a. þau að leyfishafi ábyrgðist að stíflumannvirki yrðu færð í upprunalegt horf eigi síðar en 15. september. Fyrir þann tíma kom þó lítið Skaftárhlaup úr vestari katlinum í Vatnajökli er byrjaði 7. september og hróflaði Hörður þá upp sandi og möl í hluta úrrennslis Skaftár og göngubraut við skarðið í varnargarðinum, en því fór víðs fjarri að hann færði varnargarðinn í upprunalegt horf, eins og leyfisveitingin kvað á um. 
 
Í vatnavöxtum í Skaftá í kjölfar úrhellisrigninga fyrstu vikuna í október sl. braust áin í gegn um ófullburða frágang Harðar á varnagarðinum og flæddi þá úr ánni um skarðið og þrjú rör í garðinum. Þetta er miklu meira rennsli en hefur nokkru sinni runnið þar, svo vitað sé.
 
Enn eitt leyfið til vatnaveitinga
 
Þann 26. október veitti Orkustofnun Herði enn eitt umbeðið skammtímaleyfið til vatnsveitu úr Skaftá í landi Ár og skal það gilda með sömu skilmálum og áður til 15. júní 2017. Þegar það leyfi var veitt var stór hluti Eldhraunsins undir vatni og allt nærumhverfi upptaka Tungulækjar og Grenlækjar umflotið flóðvatni. 
 
Það var því fullkomlega fráleit ákvörðun Orkustofnunar, án samráðs við hlutaðeigandi verndarstofnanir umhverfismála og Vegagerðina, að vega enn einu sinni í sama knérunn vatnaveitinga og tryggja þar með áframhald náttúruhamfara í Eldhrauni. 
 
Leyfishafi hlítir ekki skilmálum leyfisveitanda
 
Reynslan af þessum leyfis­veitingum Orkustofnunar sýnir svo ekki verður um villst að leyfishafi í Landbroti hefur skilyrði Orkustofnunar fyrir vatnaveitingum að engu. Nákvæmlega það sama gerðist þegar Náttúruvernd ríkisins var beitt pólitísku valdi til vatnaveitinga úr Skaftá í Skálarál vorið 1998. Stofnunin setti mjög skýr fyrirmæli um að Veiðifélag Grenlækjar skyldi færa áveituframkvæmdir þar til fyrra horfs um haustið. Formaður félagsins, Hörður Davíðsson, kaus að hafa fyrirmæli Náttúruverndar ríkisins að engu og komst upp með það. 
 
Aftur er það sama upp á teningn­um. Ber að skilja þetta þannig að yfirgangur opni öll hlið? 
Hvernig stendur á því að Orkustofnun veitir einstaklingi leyfi til að ráðast á og skerða mannvirki í eigu ríkisins á landi sveitarfélagsins, án formlegs framkvæmdaleyfis? 
 
Er í lagi að eyða gróðri og einstakri náttúru á landi sem er í almannaeign og á náttúru­minjaskrá? 
Á að halda áfram til næsta sumars mestu vatnaveitingum sem þarna hafa þekkst, þegar allt Eldhraunið er meira og minna á kafi í vatni? 
 
Vatnaveitingar við þessar aðstæður eru augljóslega tilgangslausar og úr hófi fram skaðlegar gróðri og einstakri náttúru.
 
Hvers á Eldhraunið að gjalda?
 
Nú fara fram, í skjóli leyfisveitinga Orkustofnunar, gríðarlegar áveituframkvæmdir úr Skaftá út á Eldhraunið. Þessar framkvæmdir eru án tilefnis og þjóna engum tilgangi. Hins vegar munu þær valda miklum gróðurskemmdum. 
 
Viðhorf náttúruverndar, gróður­­verndar, landgræðslu- og skipulags­mála eru enn einu sinni fyrir borð borin.
 
Sveinn Runólfsson 
fyrrverandi landgræðslustjóri.

Skylt efni: Eldhraun

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?
Lesendarýni 20. mars 2024

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?

Mikill fjöldi ótímabærra dauðsfalla á síðustu misserum hefur ekki farið fram hjá...

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker
Lesendarýni 14. mars 2024

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker

Óbyggðanefnd tók til meðferðarsvæði 12, með því að fjármálaráðuneytinu var tilky...

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?
Lesendarýni 13. mars 2024

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?

Í Samráðsgátt stjórnvalda lágu fyrir skemmstu til umsagnar drög að reglugerð um ...