Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Stöndum vörð um þau verðmæti sem í fólkinu og landinu búa
Lesendarýni 23. júní 2016

Stöndum vörð um þau verðmæti sem í fólkinu og landinu búa

Höfundur: Halla Tómasdóttir
Við Íslendingar erum rík þjóð. Ekki aðeins í efnislegu tilliti. Verðmæti okkar felast að mínu mati fyrst og fremst í náttúrunni og fólkinu í landinu. Við erum fámenn þjóð í stórbrotnu landi sem að mörgu leyti gerir okkur einstök. Það er afar mikilvægt að við stöndum vörð um þau verðmæti sem í fólkinu og landinu búa. Tækifærin eru óþrjótandi en þau þarf að nota skynsamlega.
 
Landið okkar er gjöfult og það hefur verið gaman að fylgjast með ýmsum nýjungum sem litið hafa dagsins ljós í matvælaframleiðslu. Aukinn áhugi á hollustu, hreinleika og uppruna matar skapa tækifæri sem við erum þegar byrjuð að nýta og þarna eru vaxtarmöguleikar. Samspil matar­framleiðslu og ferða­mennsku er afar áhugavert og aðdáunar­vert hversu hröð uppbygging á matartengdri þjónustu við ferðamenn hefur verið. Hvarvetna hitti ég fólk sem lætur vel af þjónustunni, þar er þáttur bænda, bæði í matarframleiðslunni sjálfri og í móttöku ferðamanna, geysimikilvægur.
 
Í ferðaþjónustunni felast mikilvæg tækifæri en ég finn það á fólkinu sem ég hef rætt við á ferðum mínum um landið að þörf er á að hraða og bæta uppbyggingu innviða auk þess sem mörkun stefnu í ferðaþjónustu er brýn. Við þurfum að ræða saman og sammælast um framtíðarsýn. Viðfangsefnið er hvernig við getum aukið ávinning af ferðamannastraumnum en jafnframt tryggt að ekki sé gengið of hart að landsins gæðum eða þeirri sérstöðu sem kyrrð og náttúrufegurð fela í sér. Ef við finnum svarið við þessum spurningum getum við aukið líkurnar á að sú sérstaða sem ferðamenn sækjast eftir haldi sér og notið ábatans til lengri tíma. Sem forseti myndi ég gjarnan vilja standa fyrir samtali um framtíðarsýn og áherslur í ferða­þjónustu. Þar þurfa fjölbreyttar raddir að heyrast, ekki síst þeirra sem hafa atvinnu af greininni. Við eigum einnig að læra af reynslu annarra þjóða.
 
Þrátt fyrir batnandi efnahags­ástand á Íslandi er ég hugsi yfir misskiptingu í landinu, milli þeirra sem eiga mikla fjármuni og litla, milli ólíkra landshluta og misskiptingu tengda uppruna. Ég trúi á jafnrétti fyrir alla. Það Ísland sem ég ólst upp í einkenndist af meira jafnræði. Almennt séð hafði fólk minna af efnislegum gæðum, en tækifærin til að komast til mennta eða sanna sig með vinnusemi voru til staðar. Að sama skapi greip samfélagið þá sem á stuðningi þurftu að halda. Ég heyri því miður allt of oft sögur af því að óvænt veikindi leiði til fjárhagsörðugleika vegna þess kostnaðar sem heilbrigðisþjónusta hefur í för með sér. Ég heyri því miður allt of oft um skort á búsetuúrræðum fyrir aldraða og að þessi hópur, sem skilað hefur sínu ævistarfi, hafi lítið milli handanna. Ég horfi með aðdáun til starfsmanna í heilbrigðiskerfinu sem vinna afar gott starf þrátt fyrir þröngan stakk, en það er ekki endalaust hægt að treysta á bjartsýnina þegar kemur að því að reka vandaða heilbrigðisþjónustu. Við þurfum að standa vörð um þá samfélagsþjónustu sem sjálfsagt er að íbúar landsins njóti. Ég vil bjóða þjóðinni til samtals um hvernig heilbrigðis- og velferðarkerfi við ætlum að byggja upp til framtíðar. Við þurfum að hafa framsýni til að horfa á heildarmyndina og hugsa til lengri tíma. Við getum lært margt af reynslu annarra sem og af okkar eigin.
 
Ísland er ákaflega gjöfult og gott land. Ég hef búið og starfað í Bandaríkjunum, Bretlandi og á Norðurlöndum. Þrátt fyrir gefandi tíma og mörg tækifæri í þessum löndum hef ég alltaf valið að koma aftur heim. Hreina loftið, vatnið, bæði heitt og kalt, maturinn og umfram allt samfélagið, náungakærleikur og samheldni er á meðal þess sem gerir Ísland að ákjósanlegum stað til að búa á. Okkur ber skylda til að standa vörð um þessi gæði, því þau eru ekki sjálfgefin. Ungt fólk í dag hefur tækifæri til að búa og starfa um allan heim og ég heyri á mörgu ungu fólki að hugurinn stefnir út. Ég á mér þann draum að unga fólkið okkar velji Ísland sem sitt framtíðarheimili, að þau ferðist víða, láti á sig reyna fjarri heimahögum en velji alltaf að koma aftur heim. Við megum ekki við því að missa þau verðmæti sem búa í unga fólkinu okkar, í þeim eru verðmæti framtíðar fólgin.  
 
Halla Tómasdóttir, forsetaframbjóðandi.
 
Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...