Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Stöðnun í heyöflun og afleiðingar
Lesendarýni 16. október 2014

Stöðnun í heyöflun og afleiðingar

Höfundur: Þórarinn Lárusson

Segja má að heyöflun í rúllubagga á síðustu áratugum liðinnar aldar, hafi nánast valdið byltingu í heyöflunarmálum hér á landi.

Bæði hvað heymagn og gæði snertir, samfara auknum afköstum, verulegum vinnusparnaði og vinnulétti vegna rúllubagga­tækninnar. Hún hefur þróast mjög síðan og meðal annars stuðlað í vaxandi mæli að verktöku á þessu sviði samfara viðameiri og kostnaðarsamari tækjakosti á markaði.

Þetta er auðvitað allt gott og blessað, en hvar skyldi stöðnun koma inn í þessa glæsilegu mynd?
Hún á sér rætur í því að örar tækniframfarir almennt bera gjarna ýmsa hefðbundna og jafnvel nýlega þekkingu ofurliði, eins og ýmsa aðra þætti  heyskaparins en að ofan greinir.

Tekið skal fram að með heyskap eða heyöflun hér er ekki einungis átt við hve mikilla eða góðra heyja tekst að afla yfir heyskapartímann, heldur einnig hvernig til tekst að varðveita magn og gæði frá ári til árs og þar með nauðsynlegar fyrningar til lengri tíma með fóðuröryggi og hagkvæmni  í huga.

Hér á eftir verður einkum fjallað um slíka þætti heyskaparins, sem flestir bændur og leið­beiningaþjónustan hefði gjarna mátt hafa betur í huga í framhaldi af rúllubaggabyltingunni og eru oft mjög samtvinnaðir, en orðið útundan í tækjadansinum í mörgum tilfellum.

Er þerrir að verða vannýtt auðlind?

Í grundvallaratriðum byggjast þessir þættir á þeim náttúrulegu frumhlunnindum, sem sólskin, hiti og vindur skapa sameiginlega og kallast því eina og ágæta hugtaki, þerrir. Því miður virðist hafa gripið um sig ákveðin vannýtingarárátta varðandi þerrishugtakið í rúllu­baggaheyskapnum. Þegar fylgst er með þessum heyskap er stundum eins og margir bændur séu búnir að gleyma þessari auðlind og glata tilfinningunni fyrir þurrkstigi heysins og rjúka, eins og í blindni til að pakka því meira og minna blautu, þó svo að spáð sé brakandi þerri næstu daga þar á eftir.

Þó svo að meðalþurrefni í heysýnum bænda beri þess vott að bændur þurrki hey sín að einhverju leyti meira í rúllurnar, en fyrst eftir byltinguna, eru þeir fáir, sem þurrka hey viljandi svo rækilega að það megi kallast fullþurrt (þ.e. með um eða yfir 84% þurrefni). Til eru hins vegar þeir bændur, sem viljandi ná þessu þurrkstigi heys þegar rúllað er, sleppa bindingu en plasta rúllubelginn (endarnir berir) ca fjórfalt til að verja þær veðrum og halda þeim saman.

Þetta ættu samt þeir bændur að fara varlega í að ástunda, sem misst hafa hæfileikann til að meta þurrkstigið eða hafa litla reynslu af þurrheyskap, nema þá því aðeins að hann þjálfi sig upp í því og/eða hafi gjarna útvegað sér og lært að nota fljótvirkan heyrakamæli.

Erlendis hafa ýmsar þurrkaðferðir,  mis tæknivæddar eða stórtækar, fyrir rúllur og/eða sexkanta stórbagga, rutt sér nokkuð til rúms víðs vegar um heim. Hér verður ekki gerð tilraun til að lýsa þessum aðferðum, en fyrirtæki, sem að þessari þurrktækni standa, fullyrða að aukið fóðrunarvirði og sparnaður vegna lítillar eða engrar plastnotkunar standi undir þurrkunarkostnaði og jafnvel vel það við bestu aðstæður.

Geymsluþol og fyrningarþörf

Í þessu dæmi er ótalið verulega aukið geymsluþol við að fullþurrka hey í rúllubagga, sem má líkja við þurran heystabba í góðri hlöðu eða vothey í gryfju. Benda má í þessu sambandi m.a. á innlendar rannsóknir, sem sýna fram á slakt geymsluþol votheys í rúlluböggum, t.d. eins og í tilraunum þeirra Þórodds Sveinssonar og Bjarna E. Guðleifssonar  í ritum Fræðaþings landbúnaðarins 1994 og 1996 og Bjarna Guðmundssonar í  Riti Búvísindadeildar á Hvanneyri  1995. Greinilegt er að plastfilman sjálf veitir einfaldlega ekki nema takmarkaða vörn gegn skemmdum af ýmsu tagi, sem ekki verður farið út í hér en vitnað m.a. í áðurnefndar heimildir.

Trúlega hafa bændur svipaða reynslu af því að fyrna votheysrúllur eins og fram kemur í téðum rannsóknum, þótt þar geti verið stigsmunur á, gjarna háð geymslustað,  aðbúnaði o.fl. Það er svo kapítuli út af fyrir sig, þegar rúllun, pökkun, geymslustaður og varnir gegn utanaðkomandi skemmdarvörgum úr dýraríkinu (s.s. hross, hrafnar og mýs) og veðrum er ábótavant, sem því miður má sjá allt of víða úti um sveitir í og við fyrningarstæður í kjölfar góðra heyskaparára.

Í þessu sambandi má nefna að eftir nokkur góð heyskaparár um og upp úr síðustu aldamótum hlóðst óhjákvæmilega víða upp óhemju samsafn af misálitlegum fyrningarrúllum. Varð þá til, m.a. á prenti, nýyrðin ,,ofheyjun“ og ,,ofheyjunarvandi“. Víst má telja að dýpra hefði orðið á þessum nýyrðum, ef rúllubagga- eða innpökkunarbyltingin hefði ekki komið til, þrátt fyrir viðlíka fyrningarþörf, en betra geymsluþol.  Þó svo að ætíð þurfi að gæta eðlilegs hófs í umfangi fyrninga, er það greinilega hrein nauðsyn, þegar heyskapur byggist eingöngu á  innpökkunarheyskap. Ætli hafi nokkurn tíma verið gerð könnun á því hve mikið af fyrntu rúlluheyi hafi farið forgörðum (mætti kannski fá þær upplýsingar hjá landgræðslufélögunum..!)?

Varað er við að reyna fullþurrkun í rúllur nema þegar eindreginn þurrkur er eða aðrar þurrkunaraðstæður (sbr. t.d. áðurnefndar erlendar þurrkunaraðferðir)  leyfa. Þegar til lengdar lætur, með því að kappkosta  að fyrna þurrheysrúllur að jafnaði frekar en votheysrúllur, yrði hlutfall þurrheysrúlla hverfandi sum ár, en allstór hluti í bestu árum, mundi geymsluþol fyrninganna fara vaxandi. Áhersla á fullþurrkun er sérlega mikilvæg í góðum heyskaparárum, eins og mjög víða var á liðnu sumri, þótt þurrksældinni hafi verið nokkuð misskipt á milli svæða. Eins og áður er getið er votheysverkun í stæður eða gryfjur að sjálfsögðu einnig valkostur þegar geymsluþol er annars vegar.

Af fleiri kostum fullþurrkunar, má m.a. nefna, meiri fjölbreytni  fóðurs, sem er viðurkenndur kostur í fóðrun, verðmætara próteininnihald (hærra AAT-gildi) og betri varðveisla ýmissa vítamína og snefilefna. Þetta á í ýmsu við um hefðbundið vothey, en þó rétt að nefna að AAT-gildi votheys er yfirleitt lakara en í sams konar heyi fullþurrkuðu og þeim mun minna, sem rakainnihald er meira.

Rúsínan í pylsuendanum

Þótt af nógu sé að taka, skal nú brátt látið staðar numið í upptalningu um kosti og galla í heyskap fyrir og eftir byltingu. Síðast en ekki síst er þó ekki nema sjálfsagt að víkja að atriði, sem kalla má rúsínuna í pylsuendanum og er fólgið í því að auka kjarnfóðurígildi þurrheysins svo um munar með því að köggla heyið, sem tekist hefur að fullþurrka, í einhverju skynsamlegu magni.

Eins og mörgum úr land­búnaðargeiranum er kunnugt, hefur undirritaður áður ritað nokkuð um kosti þess að köggla hey, en frekari umræða um það verður að bíða betri tíma. Vil þó að síðustu nefna eftirfarandi vegna vaxandi eftirspurnar eftir innlendu nautakjöti.  – Samkvæmt sex bandarískum tilraunum með holdanaut jók kögglun át um að meðaltali 25%, þyngdaraukningu um 98% og fóðurnýtingu um 36%, miðað við fóðrun á sama heyi óköggluðu (sjá slóðina:

http://www.journalofanimalscience.org/content/23/1/239.full.pdf+html).

Góð aukning á kjarnfóðurígildi heysins það!

Rétt er að nefna að hin færanlega heykögglunarsamtæða Stefáns í Teigi er enn við lýði og gæti auðveldlega kögglað um eða yfir 2000 tonn á ári, hvort sem um er að ræða óblandað hey eða með íblöndun, auk bygghálms og viðarkurls til undirburðar eða eldsneytis.

Fullyrða má, byggt á reynslu og rannsóknum, að heykögglar eru t.d. mjög öflugt fóður fyrir mjólkurkýr, lömb og kálfa í vexti, ær á síðasta hluta meðgöngu og fyrst eftir burð og hross, t.d. folöld og keppnishross.

Nú er að duga eða drepast

Sannleikurinn er sá að fóðurvinnsla af þessu tagi á sér tæpast nokkra framtíð án þess að gott framboð sé af fullþurru hráefni (a.m.k. 84% þurrefnisinnihald) til vinnslunnar á hverjum tíma. Til að svo geti orðið þarf t.d. heyþurrkun í nægilegu magni að verða árviss í búskap þeirra, sem telja sig geta haft hag af fyrirbærinu, auk þess, sem hálmur og viðarkurl geta einnig verið inni í myndinni.

Fullyrða má að skortur á nægilega þurru hráefni hefur hamlað mjög eftirspurn eftir þessari vinnslu og þar með framleiðslunni, jafnvel í einstöku heyskaparári eins og í sumar. Er illt til þess að vita að sökum þessa, sem að verulegu leyti má rekja til skorts á heildarsýn yfir möguleika þessarar sérstæðu innlendu fóðurvinnslu, heyri heykögglun jafnvel sögunni til áður en langt um líður að óbreyttu.

Búast má við framhaldsgrein um þetta efni síðar, eftir atvikum, enda af nógu að taka.

 

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?
Lesendarýni 20. mars 2024

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?

Mikill fjöldi ótímabærra dauðsfalla á síðustu misserum hefur ekki farið fram hjá...

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker
Lesendarýni 14. mars 2024

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker

Óbyggðanefnd tók til meðferðarsvæði 12, með því að fjármálaráðuneytinu var tilky...

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?
Lesendarýni 13. mars 2024

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?

Í Samráðsgátt stjórnvalda lágu fyrir skemmstu til umsagnar drög að reglugerð um ...