Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Skatturinn og jörðin
Lesendabásinn 24. júní 2020

Skatturinn og jörðin

Höfundur: Teitur Björn Einarsson, höfundur er lögfræðingur og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Er það sanngjarnt að einstaklingur geti átt heilu og hálfu dalina og heiðarnar með, nýtt öll þau hlunnindi sem fylgja og treyst á íslenska stofnanaumgjörð án þess að leggja nokkuð til samfélagsins? Sitt sýnist hverjum en jarða­uppkaup erlendra auðmanna á Íslandi hafa á undanförnum árum vakið upp sterk viðbrögð.

Umræðan snýst ekki eingöngu um hvort og hversu stórar jarðir erlendir aðilar, utan sem innan EES, mega eiga á Íslandi heldur hversu víðtækar takmarkanir ríkivaldið getur sett eignarrétti landeigenda, sér í lagi landi utan þéttbýlis sem er skipulagt sem landbúnaðarsvæði. Rætt er opinberlega um nauðsyn þess að setja þessum kaupum ýmsar skorður og takmarkanir og fyrir liggur á Alþingi frumvarp forsætisráðherra sem ætlað er að fanga ákveðin sjónarmið í þeim efnum.

Leiðin sem forsætisráðherra leggur til er í meginatriðum sú að takmarka rétt jarðeigenda á því að ráðstafa eign sinni, óháð ríkisfangi, ef kaup og sala jarða fellur undir ákveðin viðmið sem setja á í lög. Fela á ráðherra landbúnaðarmála vald til að ákveða hvort viðskipti með jarðir fái að eiga sér stað. Í greinargerðinni með frumvarpinu segir að markmiðið sé meðal annars að bæta möguleika stjórnvalda á yfirsýn og stýringu á þessu sviði! En frumvarpið breytir ekki í grundvallaratriðum þeim ströngu lögum og reglum sem gilda um kaup erlendra aðila utan ESS á jörðum á Íslandi heldur setur þess í stað ýmsar nýjar skorður við eignarrétt landeigenda, Íslendinga sem einstaklinga innan EES.  

Skerðing á eignarrétti röng nálgun

Umfangsmiklar kvaðir á eignarrétti eða þjóðnýting eignarlanda verða seint uppskrift að hagsæld og hamingju í nokkru samfélagi. Sé gengið of langt, meðalhófs ekki gætt né rökstutt hvernig slíkar ráðstafanir séu í þágu almannahagsmuna er brotið gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Takmarkanir á eignarrétti landeigenda rýra enn fremur verðgildi og veðhæfni jarða og torveldar þannig bændum og öðrum landeigendum að sækja sér fjármagn til uppbyggingar og framkvæmda.

Nú sem fyrr er hættan sú að inngrip ríkisvaldsins með boðum og bönnum valdi meiri skaða en vandamálið sem til stóð að leysa og engin hrópandi samstaða er heldur um hvert vandamálið sé.

Það er sennilega ekki ríkisfangið sem slíkt sem veldur ólgu heldur frekar að einstaklingur getur notið hér á landi gríðarlegra eignarréttinda að jörðum og aðgengi að samfélagslegum gæðum og innviðum - án þess að leggja nokkuð til samfélagsins af tekjum sínum eða vera þátttakandi í samfélaginu með neinum hætti umfram það sem kveðið er á um í gildandi lögum. Ef það er raunverulega ásteytingarsteinninn eru aðrar leiðir heppilegri en of víðtækar skerðingar á eignarréttindum allra landeigenda.

Aðalatriðið er að samstaða náist um inntak eignarréttarins sem grundvallarmannréttindi án þess að alið sé á tortryggni og óvild um að samfélagsumgjörðin sé ósanngjörn og óréttlát eftir því hver nýtur réttindanna eða hvernig eigandinn kýs að ráðstafa henni. Meðalhóf og sanngirni í þessu sem og öðru er farsælasti vegvísirinn.

Eignarhald leiði til skattskyldu

Ein slík leið væri að kveða á um það í skattalögum að við kaup og eignarhald á landi yfir ákveðinni stærð verði erlendur eigandi, sem ekki er heimilisfastur á Íslandi, skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra væri aflað. Rökin eru þau að með kaupum á landi yfir ákveðinni stærð er ljóst að einstaklingur hefur ákveðið að eiga hér á landi svo ríka persónulega hagsmuni að eðlilegt þykir að hann leggi til samfélagsins af öllum sínum tekjum eins og aðrir.

Landeigandi er aldrei sér á báti þótt hann kjósi að vera einn á sinni jörð. Hann notar samgöngukerfið og fjarskiptakerfið, leitar til lögreglu og dómstóla til að gæta sinna réttinda, hefur aðgang að heilbrigðiskerfi og nýtir sér hvers konar þjónustu sem sveitarfélög veita. Það er því ekki ósanngjörn krafa að hann leggi til opinberra sjóða eins og aðrir. 

Regla af sama meiði er þegar í skattalögum sem kveður á um að ef einstaklingur dvelur á Íslandi meira en 183 daga á sérhverju 12 mánaða tímabili telst hann bera ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi. Reglur um fasta starfstöð lögaðila byggja á sama grunni. Við nánari útfærslu þyrfti eðlilega að huga að alþjóðlegum skuldbindingum í tvísköttunarsamningum sem og atriðum er lúta að raunverulegum eiganda þegar lögaðili á í hlut. 

Engin ein tillaga sættir öll sjónarmið í þessum efnum en ráðstafanir í átt að eðlilegum og sanngjörnum leikreglum og traustri lagaumgjörð þar sem mannréttindi eru tryggð og stjórnarskráin virt er mun skynsamlegri leið en ómarkviss og íþyngjandi inngrip af hálfu ríkisvaldsins.

Teitur Björn Einarsson,
höfundur er lögfræðingur og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Skylt efni: Jarðakaup | eignarréttur

900 milljónir greiddar út til bænda
Lesendabásinn 23. september 2022

900 milljónir greiddar út til bænda

Fyrstu sprettgreiðslurnar til bænda voru greiddar út síðastliðinn föstudag, t...

Íslendingar hafa selt syndaaflausnir vegna losunar á 68 milljónum tonna af CO2
Lesendabásinn 20. september 2022

Íslendingar hafa selt syndaaflausnir vegna losunar á 68 milljónum tonna af CO2

Í rúman áratug, eða frá árinu 2011, hafa íslensk orkufyrirtæki selt hreinl...

Nú er lag að lenda strandveiðum
Lesendabásinn 20. september 2022

Nú er lag að lenda strandveiðum

Kæra Svandís. Lengi hefur staðið til að skrifa þér en núna held ég að það se...

Ærin ástæða til bjartsýni hjá sauðfjárbændum
Lesendabásinn 16. september 2022

Ærin ástæða til bjartsýni hjá sauðfjárbændum

Eftir erfiða tíma undanfarin ár eru jákvæð teikn á lofti fyrir sauðfjárbænd...

NØK (Nordisk Økonomisk Kvægavl) 2022 - Seinni hluti
Lesendabásinn 14. september 2022

NØK (Nordisk Økonomisk Kvægavl) 2022 - Seinni hluti

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins (15. tölublað) birtist fyrri hluti umfjöl...

Blóðtakan eykur nytjar af hrossum og styrkir afkomuna
Lesendabásinn 13. september 2022

Blóðtakan eykur nytjar af hrossum og styrkir afkomuna

Með annars ágætri umfjöllun um blóðtökur úr hryssum í Bændablaðinu þann 25...

Ný verðlagsnefnd og uppfærður verðlagsgrundvöllur
Lesendabásinn 8. september 2022

Ný verðlagsnefnd og uppfærður verðlagsgrundvöllur

Ný verðlagsnefnd hittist á sínum fyrsta fundi í síðustu viku á nýrri skri...

Landbúnaðarháskóli Íslands verður hluti af evrópsku háskólaneti
Lesendabásinn 7. september 2022

Landbúnaðarháskóli Íslands verður hluti af evrópsku háskólaneti

Landbúnaðarháskóli Íslands og sjö aðrir samstarfsháskólar í Evrópu hlut...