Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hengillinn.
Hengillinn.
Mynd / Landvernd
Lesendabásinn 10. ágúst 2020

Sauðfé, lausaganga og gróðurvernd

Höfundur: Tryggvi Felixson, formaður Landverndar.
Í 50 ára afmælisriti Landverndar er að finna grein Ingva Þorsteins­sonar náttúrufræðings, sem var einn stofnenda samtakanna. Þar segir hann frá því að trjá- og kjarrgróður hafi um aldir verið hlífiskjöldur lággróðurs og jarðvegs á Íslandi. En fljótlega eftir að landið tók að byggjast hófst eyðing hans með bruna, skógarhöggi, hrísrifi og búfjárbeit. Því hafi mikill hluti trjágróðursins horfið á fyrstu þremur öldunum eftir landnám. Í kjölfarið breyttust nærviðri og jarðvegsskilyrði mjög til hins verra; viðkvæmur lággróður og eldfjallajarðvegur stóð þá víða berskjaldaður fyrir eyðingaröflunum vatni, vindum og þyngdaraflinu (skriðum). Þarna höfðu skapast kjörnar aðstæður fyrir jarðvegseyðingu, enda lét hún ekki á sér standa. Í fyrstu var eyðingin hæg en jókst síðan stigvaxandi. Eyðingin færðist verulega í aukana á 18. og 19. öld og allt fram á 20. öld í takt við vaxandi sauðfjárbeit. 
 
Tryggvi Felixson.
Ingi segir að líkur hafi verið leiddar að því að við landnám hafi um 75 % Íslands verið þakin gróðri en vegna eyðingar þekur gróður og jarðvegur nú aðeins um 25–30%  af yfirborði landsins alls – og innan við 10% af hálendinu ofan 300–400 m hæðar. Náttúrulegur skógur þekur nú um 1,1% landsins í stað 25–30% áður. Þessi þróun hefur haft afar neikvæð áhrif á afkomu og lífsviðurværi Íslendinga. 
 
Sjálfbær beit og styrkir
 
Eftir 1200 ára búsetu má lýsa Íslandi sem landi í tötrum hvað gróðurþekju varðar. Undanfarnar tvær aldir hefur sauðfjárbeit átt ríkan þátt í gróður- og jarðvegseyðingu. Fækkun búfjár, betri stjórnun og mótvægisaðgerðir hafa þó talsvert dregið úr þeim neikvæðu áhrifum undanfarna áratugi. Mikið starf hefur verið unnið og fjármunum veitt til að bæta stöðuna og eiga bændur almennt drjúgan þátt í árangrinum. Þetta kemur vel fram í grein framkvæmdastjóra Landssamtaka sauðfjárbænda sem birtist í Bændablaðinu 4. júní sl. En meira þarf til; þó talsvert hafi áunnist á heildina litið, kemur sauðfjárbeit á vissum svæðum í veg fyrir að land í hnignun endurheimtist. Einkum á það við á gosbeltinu. Misbrestur hefur orðið á framkvæmd gæðastýringar eins og Ólafur Arnalds prófessor benti á í ítarlegri greinargerð fyrir um ári síðan.
 
Það er brýnt viðfangsefni að fylgja betur eftir reglum um gæðastýringu í sauðfjárrækt. Gæðastýringin þarf að vera fagleg, nútímaleg, gagnsæ og hafa almannahagsmuni að leiðarljósi. Í reglum um núverandi styrkjakerfi eru forsendur fyrir fullum styrkjum þær að beit sé sjálfbær, bæði á afréttum og heimalöndum. Rannsóknir Ólafs Arnalds benda til þess að allt að fimmtugur sauðfjárræktar uppfylli ekki þessar kröfur um gæðastýringu, en fái engu að síður fullan styrk.  Þetta er alvarlegur ágalli, en lágt hlutfall og því ættu umbætur að vera vel viðráðanlegar. Hingað til hafa því miður hvorki yfirvöld né samtök bænda sinnt vel rökstuddum ábendingum um ágallana. Úr því þarf að bæta. Það er því ánægjulegt að framkvæmdastjóri samtaka sauðfjárbænda skuli tilgreina að víða sé þörf á því að sinna landbótum og beitarstýringu af meiri krafti en nú er gert. Skortur á góðu beitarlandi hindrar almennt ekki matvælaframleiðslu. Íslenskir bændur hafa svigrúm til að bæta stjórn búfjárbeitar.
   
Dæmi um góðan árangur af beitarfriðun eru mörg. Flestir þekkja Þórsmörk þar sem friðun hefur borið ótrúlegan árangur við endurheimt vistkerfa. Þó að friðun sé tímafrek er hún bæði náttúruvæn og hagkvæm leið til að endurreisa vistkerfi.
 
Hagkvæm friðun afrétta
 
Nýlega fundust tugir dauðra kinda á Lónsöræfum. Kindurnar drápust í vetrahörkum.  Ef marka má fréttir höfðu eigendur fjárins ekki tök á að sinna þeirri skyldu að sækja fé á fjall að hausti. Á stórum afréttum getur verið afar vinnuaflsfrekt að sinna smalamennsku og eftir því sem fólki fækkar í sveitum landsins má reikna með því að það verði sífellt erfiðara að ná öllu sauðfé í hús að hausti. Í vissum tilfellum gætu því farið saman hagkvæmnissjónarmið og gróðurverndarsjónarmið. Sveitir sem hafa næga heimahaga hljóta að hugleiða hvort rekstur á fjall sé skynsamlegur. Þetta á sérstaklega við um gosbeltið þar sem jarðvegur er afar viðkvæmur.  
 
Grannþjóðir bönnuðu lausagöngu fyrir 150 árum
 
Landgræðslustjóri benti nýlega á, að til að endurheimta gróður og jarðveg þurfi að bæta stjórnun búfjárbeitar enn frekar en gert hefur verið. Hann vísar til þess að þær reglur sem hér á landi gilda um lauagöngu búfjár hafi verið afnumdar hjá grannþjóðum okkar fyrir um 150 árum síðan. 
 
Ísland er einn af fáum stöðum í heiminum þar samfélagið þarf að verja sig gegn ágangi búfjár. Þannig þurfa þeir sem stunda ræktun, sem ekki þolir ágang búfjár, að eyða verulegu fé í að verja land sitt. Í þeim löndum sem við berum okkur saman við telst það eðlilegt fyrirkomulag að bændur haldi sínu búfé á eigin landi. Breyta þarf núgildandi lögum um búfjárhald þannig að vörsluskylda búfjár sé regla sem öllum búfjáreigendum ber að fylgja. Að sjálfsögðu þarf að gæta meðalhófs í slíkum breytingum og samfélagið ber ábyrgð á vörslu búfjár við vissar aðstæður, eins og við lagningu vega.  
 
Landvernd tók málið til umfjöllunar á aðalfundi sínum 6. júní sl. Fundurinn samþykkti að taka undir hugmyndir  um að setja lausagöngu búfjár enn strangari skorður og banna hana í áföngum. Þá var þess krafist að beit á illa förnu landi verði stöðvuð nú þegar. 
 
Tryggvi Felixson,
formaður Landverndar 
Hlutverk stoðkerfis landbúnaðarins
Lesendabásinn 5. júlí 2022

Hlutverk stoðkerfis landbúnaðarins

Á vordögum skipaði þá nýkjörin stjórn Bændasamtaka Íslands nýja stjórn ...

Sprett úr spori
Lesendabásinn 4. júlí 2022

Sprett úr spori

Í síðustu viku skilaði spretthópur af sér tillögum til að mæta hækkunum á ...

Lög um fiskeldi og heilbrigðis- og skipulagsmál
Lesendabásinn 30. júní 2022

Lög um fiskeldi og heilbrigðis- og skipulagsmál

Fyrir nokkrum árum síðan bentu erlendir sérfræðingar á að Íslendingar væru ...

Loftslagsmál: Umræða á villigötum
Lesendabásinn 29. júní 2022

Loftslagsmál: Umræða á villigötum

Ýmislegt vantar upp á til að Ísland uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til o...

Íslenskt timbur í Svansvottaðar byggingar
Lesendabásinn 27. júní 2022

Íslenskt timbur í Svansvottaðar byggingar

Það var gleðistund fyrir skógræktarmenn í lok maí þegar samþykkt var að ísle...

Kosningar nálgast
Lesendabásinn 24. júní 2022

Kosningar nálgast

Hver kannast ekki við þá unaðstilfinningu þegar póst­ kassinn er opnaður og mi...

Að sveifla haka
Lesendabásinn 21. júní 2022

Að sveifla haka

Nú er vorið liðið og næsta árstíð tekin við. Fræ komið í jörð þar sem það a...

Raunávöxtun 9,4% 2021
Lesendabásinn 20. júní 2022

Raunávöxtun 9,4% 2021

Á ársfundi Lífeyrissjóðs bænda 3. júní 2022 var lögð fram árs­ skýrsla ...