Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Samtök smáframleiðenda matvæla tveggja ára
Mynd / Aðsend
Lesendarýni 5. nóvember 2021

Samtök smáframleiðenda matvæla tveggja ára

Höfundur: Oddný Anna Björnsdóttir

Þann 5. nóvember verða Samtök smáframleiðenda mat­væla (SSFM) tveggja ára. Þetta annað starfsár hefur verið viðburðaríkt eins og hið fyrsta og margt áunnist.

Félagsmönnum með fulla aðild hélt áfram að fjölga og eru nú komnir yfir 150. Ríflega þriðjungur er á höfuðborgarsvæðinu, 40% á lögbýlum og fjórðungur í bæjarfélögum hringinn í kringum landið. Framleiðsluvörur félags­manna eru afar fjölbreyttar, úr ólíkum hráefnum í ólíkum myndum.

Á aðalfundi samtakanna í febrúar var stjórn endurkjörin og hélt Þórhildur M. Jónsdóttir áfram sem formaður. Aukaaðilar eru á sjötta tug og öflugir einstaklingar halda áfram að bætast í ráðgjafaráð sem gefa ómetanleg ráð og stuðning. Í gegnum samtökin eru félagsmenn með sjálfkrafa aðild að Samtökum iðnaðarins og hafa fjölmargir félagsmenn nýtt sér þeirra þjónustu í ár, en þau hafa einnig staðið dyggilega við bakið á samtökunum sjálfum.

Stefnumótandi markmið

Samtökin settu sér fjögur stefnu­mótandi markmið strax í upphafi, sem eru að tryggja rekstrargrundvöll, hámarka ávinning félagsmanna af aðild, hámarka skilvirkni í rekstri og tryggja nauðsynlega þekkingu innan þeirra.

Hámarka ávinning af aðild

Lykilverkefni samtakanna sem eiga að styðja við markmiðið um að hámarka ávinning af aðild eru að stunda öfluga hagsmunagæslu, þróa og benda á söluleiðir, semja um betri kjör, auka þekkingu og þróa verkfæri, veita ráðgjöf og stuðning, miðla gagnlegum upplýsingum, vera gátt inn til smáframleiðenda matvæla, kynningarmál og almannatengsl.

Eitt stærsta hagsmunamálið sem samtökin hafa beitt sér fyrir er að bændur geti fengið starfsleyfi til að slátra heima á bæ.
Sú reglugerð var gefin út í vor og hafa nú þrír bæir fengið slíkt leyfi sem er mikið fagnaðarefni.

Regluverk og landbúnaðarstefna

Eitt stærsta hagsmunamálið sem samtökin hafa beitt sér fyrir er að bændur geti fengið starfsleyfi til að slátra heima á bæ. Sú reglugerð var gefin út í vor og hafa nú þrír bæir fengið slíkt leyfi, sem er mikið fagnaðarefni.

Einföldun var gerð á regluverki um fiskeldi sem hefur áhrif á félagsmenn sem rækta fiska á sínu landi og beittum við okkur einnig fyrir því að breytingar verði gerðar á reglugerð fyrir skelfiskrækt og þörungarækt. Eins að eftirlitskerfi hins opinbera með matvælum, hollustuháttum og mengunarvörnum verði endurskoðað, en nýverið kom út greining sem staðfesti að þörf væri á því og hefur ráðuneytið gefið út að fyrirhugað sé að vinna tillögur að breytingum á núverandi eftirlitskerfi.

Við teljum okkur hafa fengið fullnægjandi tækifæri til að koma sjónarmiðum okkar á framfæri við verkefnastjórn um landbúnaðarstefnu, enda komu þau skýrt fram í umræðuskjalinu sem við skrifuðum umsögn um og stefnunni sjálfri.

Við skrifuðum einnig umsagnir með Hampfélaginu um frumvarp og þingsályktunartillögu um iðnaðarhamp og aðgengi að vörum sem innihalda CBD og mættum á fund velferðarnefndar Alþingis. Lagabreytingin var samþykkt, sem var mikið framfaraskref og nú sést til lands varðandi stöðu CBD vara.

Samtökin mótmæltu harðlega, í umsögn og á fundi með ráðherra, breytingu sem stóð til að gera á reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda, en mikill samhljómur var á milli umsagna SSFM, NS, SI, BÍ og fleiri.

Umsókn okkar í Matvælasjóð um gerð greiningar með tillögum að einföldun regluverks á sviði matvæla var hafnað, en tekið verður samtal um slíkt verkefni við nýjan landbúnaðarráðherra.

Auka þekkingu og þróa verkfæri

Samstarfsverkefni Vöru­smiðjunnar BioPol, SSFM og Matarauðs Íslands um gerð skapalóns (e: template) fyrir gæðahandbók er nú tilbúið og aðgengilegt félagsmönnum.

Nokkur rafræn örnámskeið, meðal annars um hvernig hægt sé að rata í styrkjafrumskóginum, tryggingamál, vörumerkjaþróun, þjónustu og verkefni Íslandsstofu, lífræna framleiðslu og hvað við getum lært af hinum sænska Eldrimner, voru haldin á árinu á vegum SSFM.

Þar sem þörf er á sérhæfðu námsefni fyrir smáframleiðendur matvæla hefur framkvæmdastjóri samtakanna verið með nám­skeiðið Matarfrumkvöðullinn í Landbúnaðar­háskólanum og Hallorms­staðaskóla sem saman­stendur af sex fyrirlestrum og verkefnavinnu.

Umsókn í Matvælasjóð um gerð vefbókar um merkingar matvæla (næringargildi, innihaldslýsingu, aukefni og geymsluþol), ásamt hugbúnaðarlausn sem vinnur með ÍSGEM gagnagrunninum við útreikning næringargildis út frá uppskrift var samþykkt, en í því verkefni eru SSFM samstarfsaðilar Matís.

Jafnframt var umsókn SSFM í Matvælasjóð um styrk í verkefnið Matsjáin, þar sem lands­hlutasamtökin um land allt eru samstarfsaðilar og RATA sér um verkefnisstjórn, samþykkt. Matsjáin er 14 vikna námskeið ætlað smáframleiðendum matvæla sem vilja efla leiðtogafærni sína, öðlast aukna getu til að þróa vörur og þjónustu og efla tengslanetið sitt í greininni sem lýkur með veglegri uppskeruhátíð.

Viðskiptasamningar um bætt kjör

Félagsmenn eru nú með sérstök afsláttarkjör hjá á þriðja tug aðila og verður haldið áfram að vinna að því að fjölga þeim. Stærsti viðskiptasamningurinn sem samtökin gerðu á árinu var við Eimskip/Flytjanda en hann gjörbreytti kjörunum til hins betra og gaf félagsmönnum um land allt tækifæri til að nýta morgundreifinguna þeirra.

Fjölbreyttar söluleiðir

Að hafa aðgang að fjölbreyttum söluleiðum skiptir félagsmenn máli og því hélt samstarfið við Krónuna um Matarbúr, þar sem vörum félagsmanna er stillt upp á afmörkuðu svæði í stærstu verslunum Krónunnar og í þremur landsbyggðarverslunum í sumar, áfram á þessu starfsári og tóku hátt í hundrað félagsmenn þátt í því.

Samkaup (Nettó og Kjörbúðirnar) settu á tímabili upp sérstök svæði fyrir vörur smáframleiðenda í völdum verslunum undir heitinu Heimabyggð og tóku inn í sitt vöruval fjölda vara félagsmanna.

Það gerði Hagkaup einnig og héldu Hagar nýsköpunarviðburð sem félagsmenn tóku þátt í og fengu nokkrir styrk úr nýsköpunarsjóði þeirra. Heimkaup hefur sömuleiðis sýnt áhuga á að taka inn vörur smáframleiðenda og gera þeim hátt undir höfði á sínum vef og forsvarsmenn „kláru“ verslananna Nær sem stendur til að stofna á næsta ári, hafa gefið það út að matarfrumkvöðlum verði boðið upp á veglegt hillupláss og segja tilvalið fyrir þá að stíga sín fyrstu skref með þeim.

Sala í gegnum eigin og sameigin­lega vefi hefur stóraukist á árinu og má nefna sem dæmi vefverslun og Sælkerabíl smáframleiðenda á Norðurlandi vestra sem hefur vakið mikla athygli.

Nýjung sem mbl.is kallaði „það allra svalasta sem sést hefur hér á landi“ og vel á annan tug félagsmanna tók þátt í, er jóladagatal fyrir fullorðna sem „matarmarkaðsmamman“ Hlédís Sveinsdóttir stendur fyrir og inniheldur íslenskt matarhandverk frá smáframleiðendum.

Smáframleiðendur matvæla munu taka sig saman eins og í fyrra og bjóða einstaklingum og fyrirtækjum upp á jólagjafakörfur, en þær eru þegar í boði hjá Matarbúðinni Nándinni, sem selur plastlausar vörur aðallega frá smáframleiðendum og framleiðendur Eldstæðisins og Vörusmiðjunnar eru að leggja lokahönd á sínar.

Félagsmenn eru nú með sérstök afsláttarkjör hjá á þriðja tug aðila og verður haldið áfram að vinna að því að fjölga þeim.
Ráðgjöf, stuðningur, miðlun upplýsinga og kynningarmál

Samtökin halda áfram að veita sínum félagsmönnum ráðgjöf og stuðning, miðla gagnlegum upplýsingum til þeirra, kynna þá og vekja athygli á málefnum sem þá varða í fjölmiðlum. Almenn kynning á samtökunum er reglulega uppfærð, en hana má finna á vef samtakanna, ssfm.is/skyrslur.

Eftir því sem dregið hefur úr áhrifum Covid hafa fleiri viðburðir fyrir smáframleiðendur verið haldnir og settir á dagskrá. Samtökin voru samstarfsaðilar á styrkumsókn Austurbrúar vegna Matarmóts á Egilsstöðum sem var haldið með miklum glæsibrag þann 1. október sl. og voru þau þar með borð. Þau tóku einnig þátt í vinnustofum verkefnisins Nordic Food in Tourism og sátu vel heppnaða ráðstefnu á Egilsstöðum í lok september þar sem niðurstöðurnar voru kynntar ásamt fjölda fróðlegra erinda. Matarhátíð Vesturlands er á dagskrá nú í nóvember og Jólamatarmarkaður Íslands í Hörpu í desember, svo dæmi séu tekin. Mikill spenningur er fyrir Landbúnaðarsýningunni sem var frestað til næsta árs, en vel á þriðja tug félagsmanna sótti um að kynna sínar vörur á sameiginlegum bás samtakanna.

Bera höfuðið hátt

Eins og sjá má er engin lognmolla í kringum smáframleiðendur matvæla sem bera höfuðið hátt þessi misserin. Að minnsta kosti vikulega má finna jákvæðar umfjallanir um félagsmenn í fjölmiðlum, slíkur er áhuginn. Mikil gróska er jafnframt í vörusmiðjum og tilraunaeldhúsum um land allt þar sem nýir framleiðendur bætast stöðugt við.

Það er því ekki ofsögum sagt að við lítum björtum augum til framtíðar og munum halda áfram að vinna að hagsmunamálum smáframleiðenda matvæla á öllum sviðum, vera málsvari þeirra og stuðla að framförum í málefnum sem þá varða – sem er einmitt megintilgangur samtakanna.

Oddný Anna Björnsdóttir
framkvæmdastjóri
ssfm.is

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...