Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Fordómar í garð lífræns landbúnaðar innan LBHÍ afhjúpaðir
Lesendarýni 10. júní 2021

Fordómar í garð lífræns landbúnaðar innan LBHÍ afhjúpaðir

Höfundur: Eygló Björk Ólafsdóttir

Í umsagnarferli um skýrsluna Ræktum Ísland!, samræðuskjal um landbúnaðarstefnu kennir ýmissa grasa, enda mikið skjal og fróðlegt. Í skýrslunni er réttilega komið auga á þau tækifæri sem falist geta í því fyrir bændur að tileinka sér lífrænan landbúnað, enda sé þar eftirspurn frá neytendum t.a.m. fyrir sérhæfðum vörum af góðum gæðum. Skýrsluhöfundar viðurkenna einnig mikilvægi þessara framleiðsluaðferða fyrir heilbrigði umhverfis.

Í umsagnarferli um skýrsluna hefur fjöldi félagasamtaka lagt inn vandaðar umsagnir í samráðsgátt. Það má segja að lífrænum bændum hafi svelgst svolítið á við lestur tveggja umsagna, þeirra Hrannars Smára Hilmarssonar, tilraunastjóra LBHÍ, og Guðna Þorvaldssonar, prófessors við LbhÍ. Báðir vara þeir sérstaklega við áherslum á lífræna ræktun í landbúnaðarstefnu. Það vekur athygli að eina umræðuefni þeirra í sínum umsögnum, um þetta yfirgripsmikla rit upp á 80 síður, er að vara sérstaklega við því að lífrænn landbúnaður verði hluti af landbúnaðarstefnu. Löngum hafa verið uppi kjaftasögur um að fordómar ríki gagnvart lífrænum landbúnaði innan LbhÍ en þarna afhjúpast þeir.

Hrannari er greinilega sérstaklega uppsigað við vottunarkerfið um lífrænan landbúnað og segir það byggjast á hjátrú. Auk þess krefst hann þess að landbúnaðarstefna byggist á vísindum eingöngu. Guðni telur að með vottuðum afurðum sé verið að blekkja neytendur. Efnislega benda skrif þeirra félaga til þess að þeir þekki ekki lífræna ræktun í framkvæmd, þótt að þeir velji að tjá sig um hana í einstaka efnisliðum. Slíkt lýsir a.m.k. vanþekkingu en rangfærslur þeirra sæta tíðindum, og hér er gerð tilraun til að leiðrétta nokkrar þeirra.

Er vottun góð eða slæm?

Það er út af fyrir sig rétt hjá Hrannari að skriffinnskan, vottunin út af fyrir sig, tryggir ekki góðar og heilnæmar afurðir, heldur eru það aðferðirnar. Tilgangur með vottuðum lífrænum matvælum er hins vegar að ná fram víðtækum áhrifum sem ná til áhrifa á umhverfi s.s. jarðveg og líffræðilega fjölbreytni, en einnig gæði matvæla, dýravelferðar og jafnvel til félagslegra þátta. Lífræna kerfið er heildstætt gæðastýringarkerfi sem tryggir að ákveðnum framleiðslustaðli sé fylgt og hefur sjálfbæra þróun sem markmið, staðallinn hefur verið að mótast í áratugi.  

Mörg lönd leggja nú áherslu á lífrænan landbúnað og slík stefnumótun er studd með vísindarannsóknum s.s. á sviði jarðvegsfræði, loftslagsmála og gæðum matvæla. Það er því ekki rétt að stilla lífrænum landbúnaði upp sem einhverri andstæðu vísindanna. Lífrænn landbúnaður á það skilið að um hann sé fjallað af þekkingu og fagmennsku  

Varnarefnin

Hrannar, tilraunastjóri í jarðrækt við LBHÍ, hlýtur að átta sig á því að þegar hann fjallar um lífræna ræktun í framkvæmd er hann að að tala inn í íslenskan raunveruleika og hér hittir hann fyrir rúmlega 30-40 bú sem sum hver hafa stundað lífræna ræktun í á 4. áratug. Á bak við þau eru bændur, þ.e. fólk sem er útskrifað úr LbhÍ. Fullyrðing hans um að lífrænir framleiðendur noti „úrelt varnarefni“ í landi þar sem varnarefna er almennt ekki þörf er furðuleg. Sérstaka athygli vekur tilraun hans til að gera heimatilbúin varnarefni tortryggileg, er hann virkilega á móti því að notaður sé efniviður úr umhverfinu, sem skilar góðum árangri, í stað þess að flytja inn tilbúin efni með flutningum, tilkostnaði og sótspori? Tækniþróun í lífræna geiranum er auk þess gríðarlega mikil, sniðugar lausnir og tæki gera mönnum kleift að stunda jarðvinnslu og losna við illgresi í stórum stíl, án nokkurrar efnanotkunar, þökk sé aukinni eftirspurn frá lífrænum bændum. Í hefðbundnum landbúnaði hefur hins vegar mistekist að ná niður efnanotkun. Kannanir í Evrópu sýna að menn virða ekki þau viðmið sem sett eru. Þar kann einmitt að vanta þá viðurkenningu sem fengin er með vottunarmerki, gæðastimpli um að ákveðnum aðferðum sé fylgt.  

Áburðarefnin 

Báðir virðast þeir félagar Hrannar og Guðni telja að lífrænir bændur á Íslandi þekki ekki að það þurfi að bera á tún og akra. Lífrænir bændur á Íslandi styðjast við þau áburðarfræði sem þeir lærðu í skóla en reynsla þeirra og hugmyndir samrýmast ekki línulegri tilfærslu næringarefna milli landa með miklum tilkostnaði og sótspori.  

Lífræn ræktun er að virkja hringrás næringarefnanna og nýta sér náttúrulega ferla sem eru til staðar, t.d. nýta staðbundin lífræn áburðarefni sem til falla. En þeir félagar eru greinilega dyggir stuðningsaðilar olíufélaganna og innflutnings á tilbúnum áburði sem nemur 4 milljörðum að innflutningsverðmætum á ári. Það er auk þess röng fullyrðing að uppskera á Íslandi sé minni í lífrænni ræktun svona þvert yfir, fjölmörg dæmi eru um hið gagnstæða s.s. í kornrækt sem og í heyfeng.  

Hrannar fullyrðir að lífrænt ræktaðar afurðir séu lágar að gæðum. Erlendar rannsóknir benda einmitt til hins gagnstæða. Lífrænt Ísland verkefnið (lifraentisland.is) fjallaði í vetur um niðurstöður erlendra rannsókna sem sýna fram á aukið magn þurrefna, meiri næringu, vítamín og steinefni í lífrænt vottuðum matvörum. Á Íslandi segjast neytendur velja vottaðar íslenskar vörur vegna gæða, sbr. nýlega skoðanakönnun sem Zenter rannsóknir gerði fyrir VOR.

Kynbætur/erfðatækni

Það er ljóst að innan LbhÍ eru áhugamenn um erfðabreytingar og Hrannar telur það galla að erfðabreyttar lífverur séu óheimilar í vottuðum lífrænum landbúnaði. Hér hefur lífræna kerfið farið í gegnum mikla umræðu sem enn er yfirstandandi þar sem líftæknifyrirtækin eru að reyna að koma eignarrétti sínum yfir á matvælaframleiðslu heimsins. Erfðaverkfræðilegar breytingar á fræi eða öðru erfðaefni miðast fyrst og fremst við efna- og lyfjavæddan landbúnað sem ekki samræmist sjálfbærri þróun í heiminum.

Búfénaður

Skrif Guðna um meðhöndlun búfjár þegar veikindi koma upp bera með sér vanþekkingu eða vísvitandi misskilning. Í umsögn hans stendur:  

„Hið sama má segja um dýralyf. Er það veikum dýrum fyrir bestu að gefa þeim annaðhvort engin lyf eða lífrænt vottuð efni sem ekki eru þróuð sérstaklega gegn viðkomandi sjúkdómi“, tilvitnun lýkur. Lífrænir bændur starfa líkt og aðrir skv. matvælalöggjöf undir sama eftirliti og aðrir. Það er alltaf á valdi dýralæknis hvaða lyf og hversu mikið er notað af lyfjum gegn sjúkdómum í búfé. Lífrænar reglur hafa það fram yfir hefðbundna notkun að útskolunartími lyfja er hafður helmingi lengri en það hefur sýnt sig að vera skynsamlegt. Almennt er lyfjanotkun minni í lífrænni framleiðslu þar sem ekki er fóðrað til hámarksafurða og því minna álag á búpeningi. Þetta á sérstaklega við í mjólkurframleiðslu.

Ætti að banna hugmyndir í landbúnaði?

Guðni nefnir Rudolf Steiner og virðist hafa sínar efasemdir um gildi hugmyndafræði almennt. Hér skal undirstrika að landbúnaður má alveg byggjast á hugmyndum um dýravernd, mannrækt, gang himintunglanna og sjálfbæra þróun í víðum skilningi. Gott landbúnaðarkerfi leggur fólk ekki í einelti fyrir að stunda hugleiðslu eða fara í kalt bað. Taka skal fram að í Evrópu er til staðall um lífefldan landbúnað, Demeter, sem nýtur mikilla vinsælda hjá neytendum, en hingað til hefur enginn hér á landi tekið þann staðal upp svo vitað sé. Ef bændur geta tryggt sínum búum vinsældir með því að halda á lofti góðum hugmyndum og framleitt góðar vörur fyrir neytendur í sátt við umhverfi sitt þá er það hið besta mál og landbúnaðarstefna á að styðja slíkt fordómalaust.

Tækifæri fyrir íslenska bændur

Íslendingar standa frammi fyrir praktísku vandamáli sem er aukin framleiðsla vottaðra lífrænna afurða í löndum hér í kring, innan vottunarkerfis sem er vel þróað og mikið samtal er í m.a. við háskólasamfélög erlendis. Vottaðar afurðir njóta trausts neytenda og eru fluttar hér inn í stórum stíl. Ýmsar erlendar rannsóknir undirstrika gildi þessara framleiðsluaðferða fyrir framtíðina, ekki síst í samhengi við loftslagsmál.

Tvær leiðir eru í stöðunni. Að berja höfðinu við steininn og reyna að kæfa allar tilraunir til að auka útbreiðslu lífrænnar framleiðslu hér á landi, eða að skapa þær aðstæður sem gerir það hagfellt fyrir bændur að tileinka sér hana.

Háskólamönnum ber, eins og öðru fagfólki, að miðla réttum upplýsingum fordómalaust. Um­sagnir þær sem hér er fjallað um lýsa atvinnurógi af hálfu manna sem gegna veigamiklum stöðum innan LbhÍ. VOR fer því fram á yfirlýsingu frá rektor LbhÍ sem lýsi afstöðu skólans í þessu máli.

Eygló Björk Ólafsdóttir,

formaður Verndun og ræktun – VOR, félag framleiðenda í lífrænum búskap

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...