Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Verkaskiptingin í bústörfunum var í nokkuð föstum skorðum en allir hjálpuðust að við að fóðra nautgripina.
Verkaskiptingin í bústörfunum var í nokkuð föstum skorðum en allir hjálpuðust að við að fóðra nautgripina.
Lesendarýni 6. apríl 2016

Borgarbúar fá sitt „Dalalíf“ meðan bændur eru í fríi

Höfundur: Hallgrímur Arnarson
Hvað gerist þegar dæmigerð reykvísk fjölskylda ákveður að fara í sumarfrí og leggja land undir fót? Jú, þá kveður fólk vinnufélagana að sinni, pakkar fötum og viðlegubúnaði, nesti og nauðsynjum, skutlar dótinu í bílinn, krökkunum í aftursætið, skellir heimilinu í lás og rennir sér af stað eftir malbikinu til móts við landsbyggðina. Eða brunar kannski út á Keflavíkurflugvöll og svífur á vit ævintýranna.
 
Með svolitlum fyrirvara og skipulagi er þetta harla einfalt. Krefst kannski einhverra tilfæringa varðandi vinnuna. Menn keppast við að klára það sem mestu máli skiptir, sumum verkefnum er slegið á frest og önnur færast yfir á hendur annarra. Og hvað heimilið varðar þá er ekki vitlaust að biðja nágranna eða ættingja að kíkja við og vökva blómin og henda Fréttablaðshrúgunni af og til. 
 
En hvað gerist þegar bændur landsins fá svona flugu í höfuðið? Þá geta málin vandast því sumt er einfaldlega ekki hægt að vinna fram í tímann og öðru verður ekki slegið á frest. Búsmalinn krefst sinnar daglegu umönnunar. Heimili og vinna eru ein heild, aleigan og lífsviðurværið eru á einni þúfu og það er kannski ekki svo einfalt mál að setja slíkt í hendurnar á öðrum.
 
Komast bændur þá aldrei í frí?
 
Hvað gera bændur þá? Fara þeir aldrei í frí? Jú, ætla má að flestir bændur taki sér eitthvert frí nú til dags. Bústörfin koma gjarnan í skorpum eins og þekkt er og þegar um hægist fá menn ættingja eða nágranna á næstu bæjum til að sinna reglubundum skyldustörfum við búið á meðan þeir sleikja sólina eða gera sér annað til skemmtunar og endurnæringar.
 
Einnig ráða bændur verktaka til að sjá um búið til lengri eða skemmri tíma eins og Gunnar bóndi í hinni skemmtilegu mynd Dalalíf eftir Þráin Bertelsson frá árinu 1984. Þar taka félagarnir Þór og Daníel að sér bústörfin og ferst það svona misvel úr hendi svo ekki sé meira sagt.
 
Til að flétta nú saman þessa þræði í eina heild þá fylgir hér frásögn af því þegar reykvísk kjarnafjölskylda á leið í sumarfrí brá sér í hlutverk Þórs og Danna og lenti í svolitlu Dalalífs-ævintýri á Mýrunum snemma sumars árið 2014. Nánar tiltekið á fyrirmyndarbýlinu Þverá á Mýrum.
 
Reykvísk fjölskylda gerist sjálfstæðir bændur – um stundarsakir
 
Svo vildi til þessa júnídaga að Þveræingar allir voru á leið til Litháen þar sem einn úr fjölskyldunni hafði fastnað sér brúður og bauð til veislu og því var enginn til að hlaupa í skarðið. Vegna kunningjatengsla við aðra úr Þverárfjölskyldunni hafði Reykjavíkurfjölskyldan komið í heimsókn nokkrum vikum áður og fengið að sjá og upplifa einn dag í sauðburðinum í sveitinni. Bundust menn þá fastmælum um að Reykjavíkurfjölskyldan tæki að sér hlutverk óðalsbænda og bústólpa í vikutíma á meðan Þveræingar innsigluðu ný fjölskyldutengsl við austanvert Eystrasaltið.
 
Reykjavíkurfjölskyldan var eins og áður segir nokkuð dæmigerð kjarnafjölskylda, samansett úr hjónum á fertugsaldri og þremur börnum (tveimur drengjum, 11 og 15 ára og einni stúlku, 6 ára). Öll alin upp á mölinni og ekki beinlínis hámenntaðir búfræðingar en þó nægilega vel að sér og lífsreynd að munurinn á ær og kú, haus og hala var þeim fullkunnur. Verkefni þeirra voru líka einfaldari en hjá félögum í Dalalífi Þráins því sauðfé var komið á fjall og engar voru mjólkurkýr á bænum.
 
Helstu verkefni voru umhirða húsdýranna og fóðurgjöf. Strax á fyrsta degi komst á verkaskipting og skipulag sem hélst allan tímann. Yngri drengurinn tók að sér að gefa hundum, hleypa þeim út á morgnana og loka þá inni á kvöldin eða þegar farið var af bæ. Sú 6 ára komst fljótt upp á lagið með að gefa hænunum og hirða eggin. Sá 15 ára gekk undanvilltum bolakálfi í móðurstað og gaf honum pelann sinn kvölds og morgna og svo hjálpuðust allir að við að bera fóður í holdanaut í fjósi. Einnig var á bænum köttur sem þurfti sinn matarskammt. 
 
Húsdýr með hegðunarvandamál
 
Kötturinn var reyndar með eindæmum feiminn og ómannblendinn og höfðu sumir, sérstaklega þeir yngstu í fjölskyldunni, miklar áhyggjur af þessu. Fljótt kom þó í ljós að full ástæða var fyrir hlédrægni kisa því litlir kærleikar voru milli hans og annars hundsins á bænum. Eitt sinn upphófst æsilegur eltingaleikur þar sem kisi rétt náði að forða sér og fela og í annað skipti þurfti beinlínis að ganga á milli og aðskilja þá félaga og forða frá tönnum og klóm hvor annars.
 
Svo tókst stálpuðum kálfi, meira af klaufaskap en illkvittni, að koma sér í vandræði. Þegar komið var í fjós einn morguninn sást að hann hafði smeygt afturfæti í rauf á gólfgrindinni og sat þar fastur. Boli var frekar styggur og ófélagslyndur og ef tvífætlingar nálguðust hans persónulega rými um of barðist hann um á hæl og hnakka. Þetta olli afleysingabændum nokkrum heilabrotum og áhyggjum. Þeir óttuðust jafnvel að hann myndi fótbrjóta sig ef hamagangurinn yrði of mikill þ.e.a.s. ef hann væri þá ekki þegar búinn að því.
 
En Þveræingar eiga góða granna og bændur af næsta bæ brugðu við skjótt þegar hringt var og óskað eftir aðstoð. Gárungar vilja reyndar meina að forvitni þeirra í garð borgarbarnanna hafi rekið þá með hraði á staðinn. Hvað sem því líður þá hjálpuðust menn að við að hafa hemil á gripnum og losuðu hann hratt og örugglega og það án þess að hann styngi við eða haltraði á eftir. Eftir þetta var skepnan leidd yfir í næsta hólf og gengið þannig frá að slíkt óhapp henti ekki aftur.
 
Vistaskipti sem nýtast öllum
 
Sú rúma vika sem Reykjavíkur­fjölskyldan dvaldi á Þverá gekk að öðru leyti fyrir sig eins og best verður á kosið. Ekki var blásið til útihátíðar líkt og í Dalalífi heldur farið í bíltúra og göngu­túra um svæðið. Sopið var úr Rauðsmelsölkeldu og farið í fótabað í Landbrotalaug svo eitthvað sé nefnt. Og svo var tímanum líka varið í að gera ekki neitt eins og sæmir hjá fólki í sumarfríi. 
 
Þegar sá fyrir endann á Bjarmalandsför Þveræinga og von var á þeim aftur í heimahagana pökkuðu Reykvíkingar sínu hafurtaski í bílinn og héldu á vit frekari ævintýra í öðrum landshlutum. Bændur á Þverá komu að búi sínu og bústofni í svipuðu horfi og skilið hafði verið við. Gengið hafði aðeins á heyforðann sem eðlilegt var, lækkað hafði svolítið í frystikistunni enda til þess ætlast og stíurnar í fjárhúsinu voru hreinni en áður, sem kom sér ekki svo illa.
 
Hér fengu allir eitthvað fyrir sinn snúð. Bændur komust af bæ og fengu ákveðið frelsi til að njóta lífsins á meðan borgarbörnin komust í snertingu við sveitalífið og urðu sjálfstæðir bændur um stundarsakir. Hver veit nema fleiri myndu vilja nýta sér tímabundin vistaskipti sem þessi í meira mæli. Nú á tímum samfélagsmiðla ætti að reynast tiltölulega einfalt að finna vettvang fyrir slíkt. Í öllu falli er ekki útilokað að þeir sem hér komu við sögu endurtaki leikinn síðar.
 
Hallgrímur Arnarson,
sérfræðingur hjá KPMG
í Reykjavík

5 myndir:

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?
Lesendarýni 20. mars 2024

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?

Mikill fjöldi ótímabærra dauðsfalla á síðustu misserum hefur ekki farið fram hjá...

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker
Lesendarýni 14. mars 2024

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker

Óbyggðanefnd tók til meðferðarsvæði 12, með því að fjármálaráðuneytinu var tilky...

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?
Lesendarýni 13. mars 2024

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?

Í Samráðsgátt stjórnvalda lágu fyrir skemmstu til umsagnar drög að reglugerð um ...