Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Bændur græða landið í 25 ár
Lesendabásinn 29. júlí 2015

Bændur græða landið í 25 ár

Höfundur: Þórarinn Ingi Pétursson
Árið 1990 hófst samvinnuverkefni bænda og Landgræðslunnar undir yfirskriftinni Bændur græða landið. Um sex hundruð bændur taka þátt í verkefninu og nánast allir halda þeir sauðfé. 
 
Verkefnið hefur gengið afskaplega vel og ætla má að bændur hafi grætt upp um tugi þúsunda hektara lands á þeim aldarfjórðungi sem liðinn er. Samvinnan felst í grófum dráttum í því að Landgræðslan veitir ráðgjöf, leggur til fræ og styrkir bændur til áburðarkaupa. Bændur leggja á móti til hluta áburðarverðsins, gamalt hey, vélar og tæki. Mikilvægasta framlag bænda er þó líklega falið í þekkingu þeirra á landinu og óeigingjörnu vinnuframlagi. 
 
Framlag bænda hleypur á hundruðum milljóna
 
Samkvæmt upplýsingum frá Landgræðslunni má ætla að hátt í 30.000 tonn af áburði og nærri 300 tonn af fræi hafi verið notuð í þetta verkefni. Að auki hefur óhemju mikið af moði, húsdýraáburði og heyrudda verið notað. Um allt land sá bændur í börð, bera á flagmóa, græða upp mela og sitthvað fleira. 
Vinnustundirnar að baki áburðar- og frædreifingunni teljast í tugum þúsunda. Þá er ótalin vinna við dreifingu á moði, heyi og húsdýraáburði eða olía og notkun á tækjum og tólum, sem auðvitað kostar líka peninga. Sé allt reiknað, má fullyrða að framlag bænda nemi hundruðum milljóna króna. En sauðfjárbændur sjá hvorki eftir tíma né peningum í uppgræðslu og landbætur. Síður en svo.
 
Nánast öll framleiðslan undir gæðastýringu 
 
Sjálfbær landnýting er sauðfjár­bændum afskaplega mikilvæg og við gerum okkur grein fyrir því að við verðum að sýna ást okkar á landinu í verki. Samvinnan við Landgræðsluna hefur lengi verið mikil og góð. 
 
Bændur græða landið er dæmi um farsælt samvinnuverkefni, en auk þess taka bændur þátt í fjölda annarra verkefna sem snúa að uppgræðslu, landnýtingu og beitarstýringu. 
 
Víða um land eru líka starfandi landgræðslufélög sem hafa lagt mikið af mörkum. Bændur bera hitann og þungann af starfinu í mörgum þeirra. 
 
Í rúman áratug hafa sauðfjárbændur líka unnið ötullega að því að bæta búskap sinn og tryggja markaðnum hágæða vöru með sérstöku gæðastýringarkerfi. Sjálfbærni er hér lykilhugtak. Nánast öll kindakjötsframleiðsla á Íslandi er nú undir merkjum gæðastýringar, eða rúm 90%. 
 
Samvinna um að bæta kerfið
 
Gæðastýring í sauðfjárrækt er valkvætt kerfi þar sem bændur taka af fúsum og frjálsum vilja á sig skuldbindingar af ýmsu tagi, m.a. um landnýtingu og landbætur. Gengið var frá samningi við ríkið fyrir fimmtán árum og síðan hafa bændur átt í náinni samvinnu við ýmsar stofnanir þess. 
 
Gæðastýringin tekur m.a. til skýrsluhalds, hirðingar, aðbúnaðar, lyfjanotkunar og fóðuröflunar. Auðvitað koma upp hnökrar hér og hvar í kerfinu, en reynt er að bæta úr þeim jafnóðum. Það var gert síðast með breytingu á reglugerð um landbótahluta gæðastýringar í vor. Sauðfjárbændur komu að undirbúningi þeirrar breytingar ásamt Bændasamtökunum, Matvæla­­stofnun, atvinnuvega­ráðuneytinu og Landgræðslunni. 
 
Íslenskur landbúnaður til fyrirmyndar
 
Íslenskir bændur eru svo sannarlega gæslumenn landsins, enda fáir sem lifa og starfa í jafn nánum tengslum við náttúruna. Bændur hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir því að ekki er hægt að beita á land sem ekki ber það. Því hafa menn um árabil tamið sér að taka út afrétti í samvinnu við Landgræðsluna áður en fé er hleypt á þá. 
 
Þetta var gert í vor eins og önnur vor. Ábyrgir sauðfjárbændur hleypa ekki fé á fjall fyrr en gefið hefur verið grænt ljós. Af því að gróður var seinna á ferðinni en venjulega í ár – fer fé seinna á fjall. Víða um heim horfa bændur til Íslands sem fyrirmyndar um heilbrigðan og sjálfbæran búskap sem rekinn er í sátt við land og náttúru. 
 
Sjálfbær sauðfjárrækt
 
Eiturefnanotkun er hverfandi í íslenskum landbúnaði og hvergi er notað minna af lyfjum eða áburði. Reglur um dýravelferð eru líka þær ströngustu sem fyrirfinnast og svo mætti áfram telja. 
Til marks um heilbrigði sjálfbærrar, íslenskrar sauðfjárræktar má meðal annars hafa þá staðreynd að bandaríska Whole Foods verslunarkeðjan hefur selt íslenskt lambakjöt um árabil og líkur eru á því að viðskiptin aukist enn frekar á komandi hausti. 
 
Neytendur vestra eru tilbúnir að greiða hátt verð fyrir þjóðarrétt Íslendinga – hreint hágæða kjöt af íslensku sauðfé. Gæðastýring, sem innifelur skipulegar landbætur, er hluti af sjálfbærri sauðfjárframleiðslu á Íslandi. 
 
Hið sama gildir um nána samvinnu við Landgræðsluna í aldarfjórðung undir merkjum verkefnisins Bændur græða landið. Megi sú samvinna haldast náin og heiðarleg í önnur 25 ár – og miklu lengur. 
Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.
Frjótæknar komnir á nýjan stað
Lesendabásinn 8. desember 2022

Frjótæknar komnir á nýjan stað

Dagana 1.-4. nóvember sl. tóku fjórtán íslenskir frjótæknar þátt í endurmenntuna...

Samtök smáframleiðenda matvæla þriggja ára
Lesendabásinn 7. desember 2022

Samtök smáframleiðenda matvæla þriggja ára

Þann 5. nóvember urðu Samtök smáframleiðenda matvæla (SSFM) þriggja ára. Þetta þ...

Hugleiðingar um verndun íslenska forystufjárins
Lesendabásinn 6. desember 2022

Hugleiðingar um verndun íslenska forystufjárins

Íslenska forystuféð er einstök erfðaauðlind. Hliðstæðu þess er hvergi að finna í...

Sameining áþekkra landsstofnana
Lesendabásinn 30. nóvember 2022

Sameining áþekkra landsstofnana

Í bígerð er sam­eining tveggja gamalgróinna stofnana.

Að virkja stjörnurnar
Lesendabásinn 29. nóvember 2022

Að virkja stjörnurnar

Sólkerfið okkar er hluti vetrar­brautarinnar með milljörðum stjarna.

Votlendissjóður í alþjóðlegu samhengi
Lesendabásinn 28. nóvember 2022

Votlendissjóður í alþjóðlegu samhengi

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í Helsinki við hátíðlega athöfn í b...

Staðreyndirnar tala sínu máli
Lesendabásinn 25. nóvember 2022

Staðreyndirnar tala sínu máli

Ísteka hefur sent frá sér yfirlit yfir blóðtöku­starfsemi ársins.

Smáframleiðendur slá í gegn á Landbúnaðarsýningunni
Lesendabásinn 23. nóvember 2022

Smáframleiðendur slá í gegn á Landbúnaðarsýningunni

Á Landbúnaðar­sýningunni í Laugar­dalshöll þann 14.–16. október sl., sem áætlað ...