Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Skyldu þessar vera líklegar til stórra verka?
Skyldu þessar vera líklegar til stórra verka?
Mynd / Úr einkasafni
Lesendarýni 5. ágúst 2020

Af girðingarollum

Höfundur: Hjalti Þórðarson
Morgunninn var fagur og sól skein í heiði þegar ég gáði til veðurs þennan vordag. Gaf um leið auga fjallshólfinu og sá fljótlega að Leiðinda-Blökk var mætt í hólfið með lömbum sínum tveimur og úðaði í sig eins og enginn væri morgundagurinn. Ég þaut á stað og silakeppaðist á eftir rollunni, hnjótandi um aðra hverja þúfu eins og báðar lappir væru í krummafót en náði þó að reka hana úr hólfinu ...
 
Hjalti Þórðarson.
Þessar línur gætu verið úr bók með heitið Afrek girðingarollunnar eða Líf og störf Smugu-Móru og hennar afkomenda. Sumar af þessum girðingarollum öðlast nefnilega nokkra frægð og umtal og eru þekktar á mörgum bæjum en yfirleitt ekki af góðu.
 
Þekkir þú gripinn?
 
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum eru til nokkrar tegundir af girðingarollum.
 
Stökkvarinn. Yfirleitt háfættari og léttari á sér en aðrar kindur með nokkuð yfirlætisfullan svip, sperra oft höfuð og dindil og eru almennt sakleysið uppmálað. Þær taka oft tilhlaup að girðingunni og stökkva svo yfir ýmist með að snerta varla eða lenda á efsta strengnum og slengjast þannig yfir. Ummerki sjást varla og oftast engin. 
 
Smugan. Óskaplega leiðinleg skepna. Þrjóskusvipurinn áberandi, halla oft undir flatt og gera sig yfirmáta heimskulega á svipinn. Nokkrar undirgerðir eru af smugunni en flestar þeirra reyna við marga staði á girðingunni, uppi, í miðju og niðri. Ummerki eru greinileg, færa til strengi í neti, gera allt slakt og ull á neti og gaddavír. Smugu-Móra var vel þekkt og virtist hafa sérstaklega gaman að reyna sig við sæmilega góðar girðingar. Nokkrum sinnum var hún búin að fara í gegn á svipuðum stað á girðingu þrátt fyrir sífelldar betrumbætur og þéttingu staura svo hægt var að teygja sig á milli þeirra. En ekki lét Smugu-Móra sig og hélt áfram uppteknum hætti. Að lokum var sett annað net utan á það sem fyrir var og girt hálft í hálft svo þröngir voru nú möskvarnir. Smugu-Móra lét sig ekki, stökk í girð­inguna og ætlaði í gegn. En að þessu sinni hafði hún ofmetið eigin getu og lét lífið með því að hengja sig í girðingu sem varla var hægt að stinga lúku gegnum. Eitt var þó jákvætt, vesalings rollan lét lífið við það sem henni þótti skemmtilegast. Að sjálfsögðu voru lömbin sett á um haustið því þau voru af því kyni sem er „oho, svo duglegar að bjarga sér“.
 
Brotvélin. Oft stærri og þyngri en aðrar en sneggri í hreyfingum en þær líta út fyrir að vera. Þessar rollur gera beinlínis árás á girðingar, reyna ekki að troðast í gegn eða stökkva yfir heldur hlaupa á fullri ferð á girðingar. Ef girðing er ný eða nýleg tekst það sjaldnast í fyrstu tilraun en þá er bara hlaupið aftur og aftur. Hef horft á rollu hlaupa meira en fimm ferðir í sæmilega girðingu þar til þrír staurar lágu í valnum og viðkomandi komst í gegn. Ummerki eftir þessar rollur eru því greinileg.
 
Moldvarpan. Þessar rollur eru alltaf á hnjánum, lymskulegar á svipinn og sennilega býsna drjúgar með sig. Tilheyra þessum hópi mjög fáar kindur og var ég ekki viss um tilvist þeirra fyrr en ég stóð eina að verki. Hún stóð við girðinguna og hagaði sér eins og hundur og gróf sig undir neðsta vírinn. Gengu moldarflygsur í allar áttir frá henni þar til glufa myndast og þá var reynt.
 
Að mörgu að hyggja
 
Að ala upp góða girðingarollu getur verið ærinn starfi. Eftir að kindur fara út úr húsi eftir burð verður að vera tryggt að fyrstu tvær vikurnar kynnist lömbin alls ekki fjár- eða lambheldum girðingum heldur einhverjum girðingardruslum sem þau læra að hlaupa í gegnum með mæðrum sínum. Lömbin læra nefnilega það sem fyrir þeim er haft. Þá er björninn unninn og girðingarollan verður trúlega til. 
Gleðilegt sumar.
 
Hjalti Þórðarson
Skagafirði,
áhugamaður um íslensku sauðkindina
Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...