Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Samhengið
Leiðari 5. apríl 2023

Samhengið

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri Bændablaðsins

Hækkandi framfærslukostnaður plagar fólk bæði hér og erlendis. Alls staðar er matvælaverð að hækka.

Matvælaráðherra benti á það í ræðu á Alþingi um daginn að tilteknar matvörur hafi að meðaltali hækkað meira í Evrópu en hér á landi. Tók hún dæmi um verð á svínakjöti sem hafði hækkað um 18,4% í Evrópu en 12% hér. Verð á kjúklingi hefur hækkað um 23,5% í Evrópu en 14,6% á Íslandi. Drykkjarmjólkurverð hefur hækkað um 31% í Evrópu en eingöngu um 8% hér.

Þeir sem standa að innflutningi á landbúnaðarvörum tala fyrir niðurfellingu tollverndar og segja að hún hækki vöruverð og dragi þar með niður lífskjör íbúa. Að benda eingöngu á samanburð verðmiða í stórverslun án þess að líta til samhengis er misvísandi.

Tollvernd er ein af undirstöðum stuðnings við innlenda landbúnaðarframleiðslu. Á nýafstöðnu Búnaðarþingi var ályktað um að tollvernd þurfi að þjóna tilgangi sínum með skilvirkum hætti.

„Innflutningur landbúnaðarvara hefur aukist síðustu ár og þær forsendur sem lágu til grundvallar tollasamningi við ESB árið 2015 eru brostnar. Bændasamtökin telja að segja þurfi upp tollasamningnum við ESB og að magntollar á búvörur verði uppreiknaðir til verðlags dagsins í dag. Samningurinn vinnur gegn fyrirætlunum stjórnvalda um eflingu innlendrar matvælaframleiðslu. Ná þarf fram skýrari stefnu í tollamálum. Lækkun eða niðurfelling tolla kippir með öllu stoðum undan íslenskum landbúnaði og eru ótækar án jafngildra mótvægisaðgerða.“

Innflytjandi kjúklingakjöts lét hafa eftir sér í 4. tölublaði Bændablaðsins að innlend kjúklingaframleiðsla anni ekki eftirspurn. Tölur sýna hið gagnstæða. Árið 2022 nam innanlandsframleiðslan rúmum 9.500 tonnum en salan var 9.225 tonn. Birgðir í lok árs voru um 1.000 tonn af alifuglakjöti.

Það sem af er ári hafa tæp 390 tonn af alifuglakjöti verið flutt inn. Á meðan hafa verið framleidd rúm 1.530 tonn af slíku kjöti hér á landi. Innflutningurinn er því um 20% af því kjöti sem í boði er á markaði. Þetta er í takt við þróunina en markaðshlutdeild innflutts kjúklingakjöts er vaxandi, hefur farið úr 6% upp í 18% á áratug. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins seldust 1.464 tonn af innlendu alifuglakjöti. Birgðirnar aukast því samhliða meiri innflutningi.

Alifuglabóndi segir í viðtali í tölublaðinu að innlend framleiðsla geti hæglega annað allri innanlandsneyslu. Hann kallar eftir hvötum frá stjórnvöldum og telur að íslensk framleiðsla eigi að njóta forgangs. Það sé bæði pólitísk og samfélagsákvörðun sem brýnt sé að taka til að framtíð innlendrar framleiðslu sé tryggð. Ef tekin yrði ákvörðun um að auka framleiðslu hér á landi gæti það í reynd aukið hagkvæmni hennar, innviðirnir sem til staðar eru væru betur nýttir og það gæti haft jákvæð áhrif á verð.

Íslensk landbúnaðarframleiðsla er lítil í sniðum og fyrst og fremst ætluð sem örugg fæðuöflun fyrir landið. Í eðli sínu og umgjörð er hún ósamanburðarhæf við erlenda iðnaðarframleiðslu sem ætlað er að afkasta umfram þörf nærumhverfis. Íslenska framleiðslan lýtur strangri umgjörð og er framleidd í heilnæmu umhverfi undir eftirliti í velferðarsamfélagi, þar sem verðlag er hátt og framleiðslan dýr. Hún er auk þess ein af grundvallarþáttum atvinnulífs í hinum dreifðu byggðum og lífsviðurværi þúsunda einstaklinga. Hún leggur grunn að fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er samhengið sem rýna ætti í þegar bornar eru saman vörur og verð í verslun.

Græðlingar
Leiðari 8. september 2023

Græðlingar

Skrifað stendur í einu fræðsluriti Skógræktarfélags Íslands að sá plöntuhluti se...

Matvælastofnun
Leiðari 25. ágúst 2023

Matvælastofnun

Seglbúðir, litla sláturhúsið í Landbrotinu, hefur tilkynnt að ekki verði slátrað...

Slump
Leiðari 21. júlí 2023

Slump

Á dögunum sá ég mynd frá garðyrkjubónda sem sinnti kúrbítsplöntum í gróðurhúsi. ...

Upprunamerkingar á veitingastöðum
Leiðari 7. júlí 2023

Upprunamerkingar á veitingastöðum

Við aukna umfjöllun um upprunamerkingar matvæla á undanförnum mánuðum virðist ha...

Í orði og á borði
Leiðari 23. júní 2023

Í orði og á borði

Nýjar norrænar næringarráðleggingar (NNR23) voru kynntar í vikunni, en þær leggj...

Riða
Leiðari 9. júní 2023

Riða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins eru heimsóttir bændur á fjórum bæjum, sem urðu f...

Fjársvelt neytendavernd
Leiðari 26. maí 2023

Fjársvelt neytendavernd

Reglugerð nr. 618/2017 fjallar um notkun þjóðfánans við markaðssetningu á vöru o...

Hvað kostar tollvernd?
Leiðari 12. maí 2023

Hvað kostar tollvernd?

Tollvernd er margslungið og frekar óaðgengilegt fyrirbæri. Því er ekki skrítið a...