Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Kjarnafyrirbæri
Leiðari 8. júlí 2022

Kjarnafyrirbæri

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri Bændablaðsins

Hross og hestamennska eru áberandi í þessu tölublaði Bændablaðsins. Tilefnið er Landsmót hestamanna sem nú fer fram við Rangárbakka á Hellu.

Í rúm sjötíu ár hafa mætt til keppni og sýninga bestu hross hvers tíma á Landsmótum. Saga Landsmóta endurspeglar ræktun hins íslenska reiðhests sem hefur verið kynbættur með tilliti til opinberra ræktunarmarkmiða frá árinu 1951.

Ræktunarsaga íslenska reiðhestsins er vel skrásett. Upplýsingum um ættir og árangur hrossa, sem safnað hefur verið í Worldfeng, upprunaættbók íslenska hestsins, er til eftirbreytni. Í reynd er fáheyrt að nokkurt búfjárkyn búi að svo víðtæku gagnasafni. Þó brúkleg sé er brýnt að ættbókin fái viðhald og uppfærslu í takt við tækniframfarir.

Hestamennska hefur mótað mig. Í reynd er það að miklu leyti fyrir tilstuðlan hesta sem ég starfa hjá Bændablaðinu. Ferillinn að landbúnaðarblaðamennsku fór í gegnum fjölmiðlun á hestamennsku sem á sér upphaf við samtal í hesthúsinu. Skemmtilegt nokk.

Hesturinn hefur fylgt mér í minni mestu gleði og erfiðustu sorg. Sem orkumikið og þrálynt örverpi foreldra minna dró ég þau með mér í alls kyns vitleysu. Sú allra gjöfulasta var hestamennskan.

Eftir að leita mig allt of oft uppi inni í tilviljunarkenndum hesthúsum eða í misskrautlegum senum inni í hestagerðum í Víðidal ákváðu foreldrar mínir að finna áhuga mínum heilbrigðari farveg. Þau áttu æskuminningar í tengslum við hross svo þau löðuðust líka að hestamennsku. Keyptir voru reiðhestar og í mörg herrans ár vorum við þetta hefðbundna útreiðarfólk, sem meirihluti úr hinni 14.000 manna tölu yfir fjölda hestamanna ber uppi.

Við undum okkur vel við þessa fjölskylduiðju. Í reynd tel ég að þetta sameiginlega áhugamál okkar hafi komið í veg fyrir hið algenga rof sem oft verður milli barns og foreldra á unglingsárum. Í kringum hrossin vorum við alltaf samherjar með okkar samstarfsverkefni.

Á síðari árum, þegar Alzheimersjúkdómur var farinn að þjaka pabba, birtist mikilvægi hestamennskunnar í sinni allra bestu mynd.

Eins og flestum er kunnugt stelur þessi ömurlegi sjúkdómur minni fólks og rænir því verklegri getu. En í gegnum fjölmörg ár með sjúkdómnum hef ég séð, að hvað sem hann reynir, þá nær hrörnunin seint að tærasta kjarna fólks. Í tilfelli pabba er það ljúfmennskan, þrjóskan, skilyrðislaus ást hans til mömmu heitinnar og kærleikstenging við dýr.

Þar kemur hesturinn inn í söguna. Því þótt pabbi hafi verið farinn að tapa færni til að lifa daglegu lífi án aðstoðar, þá glataðist ekki reiðmaðurinn. Eingöngu þurfti að gera hest hans ferðbúinn; um leið og pabbi var kominn á bak spretti hann úr spori og gaf ekkert eftir, með breitt bros og fullur af sjálfstrausti.

Að vera kóngur um stund er nefnilega ekki eingöngu háfleyg orð eftir Einar Ben. Þetta er tær tilfinning þeirra sem þekkja það að tengjast hesti sínum og verða með honum eitt.

Þetta er einhvers konar kjarnafyrirbæri. Þetta er ástæða þess að þúsundir manna stunda hestamennsku, orsök þess að Íslendingar hafa verið samofnir honum í lífi og starfi frá landnámi.

Hesturinn er í reynd eitt mikilvægasta menningarverðmæti Íslands og ansi magnaður hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar.

Verklag og forgangsröðun
Leiðari 13. janúar 2023

Verklag og forgangsröðun

Í þessu fyrsta tölublaði Bændablaðsins árið 2023 má finna sögu bænda á Suðurland...

Fimm fréttir
Leiðari 16. desember 2022

Fimm fréttir

Í árslok eru uppgjör alls ráðandi. Hér er því jákvæður pistill um fimm markverð ...

Heiðarleg tilraun
Leiðari 2. desember 2022

Heiðarleg tilraun

Ég sat Matvælaþing í Hörpu í síðustu viku. Með viðburðinum sköpuðu forsvarsmenn ...

Hugað að andlegri heilsu
Leiðari 18. nóvember 2022

Hugað að andlegri heilsu

Ég skráði mig af yfirborði daglegs lífs síðustu helgi. Sat í tvo daga og gerði n...

Allir upp á dekk ... eða út á akurinn
Leiðari 17. nóvember 2022

Allir upp á dekk ... eða út á akurinn

Í gegnum aldir höfum við sem þjóð alist upp við að landbúnaður snúist um kýr og ...

Tækniframfarir
Leiðari 4. nóvember 2022

Tækniframfarir

Í ritinu Ræktum Ísland! sem grundvallar landbúnaðarstefnu Íslands, kemur fram að...

Af viðbrögðum og málefnum
Leiðari 3. nóvember 2022

Af viðbrögðum og málefnum

Nú á haustdögum eftir uppskerutíma sumarsins þurfum við að horfa á hvar sóknarfæ...

Áfram veginn
Leiðari 20. október 2022

Áfram veginn

Í upphafi vil ég nota tækifærið og þakka þeim sem sóttu Landbúnaðarsýningun...