Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
COVID-19 á haustdögum
Mynd / smh
Skoðun 8. október 2020

COVID-19 á haustdögum

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands - gunnar@bondi.is

Nú gengur yfir okkur þriðja bylgja veirunnar með umtalsverðum áhrifum á allt atvinnulíf og mannlíf. Fyrirtæki verða að bregðast við með því að hólfaskipta starfsemi og vaktaskipta með þeim afleiðingum að það dregur úr afköstum og eykur kostnað. Þar eru fyrirtæki í landbúnaði ekki undanskilin né bændur sjálfir.

Ég vil hvetja bændur til að gæta vel að sóttvörnum heima fyrir svo komist verði hjá smitum heima á búum. Gætum að eigin hreinlæti, nýtum okkur leiðbeiningar sem finna má á heimasíðu Bændasamtakanna, á heimasíðu RML og eins má finna mjög ítarlegar reglur og leiðbeiningar á síðu Landlæknisembættisins. Þetta ástand hefur gert það að verkum að enn verðum við að slá því á frest að hitta bændur vegna útfærslu á félagskerfinu. En það koma tímar og koma ráð og við munum auglýsa það þegar þar að kemur.

Gáleysi og skammsýni

Undanfarinn mánuð hafa miklar verðlækkanir dunið á íslenskum nautakjötsframleiðendum. Hafa sláturleyfishafar borið fyrir sig harðnandi samkeppni við innflutning á lægri aðflutningsgjöldum á sama tíma og markaðurinn dregst saman sökum fækkunar ferðamanna.

Bændasamtök Íslands óskuðu eftir því við stjórnvöld í fyrri bylgju COVID-19 að ekki yrði úthlutað tollkvótum fyrir seinni hluta árs þar sem þá þegar var orðið ljóst að eftirspurn yrði mun minni en áður og úthlutun tollkvóta með óbreyttum hætti myndi grafa undan innlendri framleiðslu og mögulega veikja stoðir hennar verulega. Íslenskt atvinnulíf þyrfti ekki á því að halda í þeirri djúpu efnahagslægð sem landið var þá þegar komið í. Var erindinu hafnað með öllu en sagt að ríkisstjórnin hefði hins vegar ákveðið að ráðast í úttekt á samningnum og í framhaldi af því yrði tekin ákvörðun um hvort óskað yrði eftir viðræðum við ESB um endurskoðun tollasamningsins.

Nú er kominn október og lítið er að frétta af þeirri úttekt en stoðir íslenskrar nautakjötsframleiðslu hafa sannanlega veikst til muna. Þá hafa fundir okkar með ráðamönnum ekki gefið vonir um að samningurinn við ESB verði endurskoðaður í bráð, þrátt fyrir fullkominn forsendubrest hans og þá staðreynd að hið minnsta þrír ráðherrar sitjandi ríkisstjórnar hafa sagt opinberlega að endurskoða þurfi samninginn.

Tekjumissir um 150 milljónir króna

Það sem af er þessu ári hefur innlend framleiðsla dregist saman um 4,6% og innflutningur nautakjöts dregist saman um 16,4% frá árinu áður. Tollkvótar fyrir nautakjöt – sem og aðrar landbúnaðarvörur – hafa hins vegar aukist og verð á þeim fallið hratt, nú síðast um tæp 40% með nýrri úthlutunaraðferð sem var í fyrsta sinn beitt um mitt þetta ár. Tekjumissir greinarinnar vegna þeirra verðlækkana sem hafa dunið yfir kúabændur undanfarið ár nemur um 150 milljónum króna. Það hefði verið ráð hjá íslenskum stjórnvöldum að hið minnsta bíða með að taka upp nýja úthlutunaraðferð, sem ljóst var að hefði verðlækkandi áhrif á bændur, þar til fram yfir heimsfaraldurinn sem nú geisar.

Við útdeilingu tollkvóta frá ESB fyrir seinni hluta þessa árs var sóst eftir 545 tonnum af nautakjöti, tæplega tvöföldu magni á við tollkvótann sem í boði var. Það er því ljóst að ekki er neinn hugur í innflutningsaðilum að draga úr innflutningi þrátt fyrir minnkun markaðarins. Samkeppnin er því í hæstu hæðum og mun ekki minnka, þar sem ljóst er að innflutningsaðilar munu þurfa að koma þessu magni á markaðinn áður en nýir tollkvótar verða boðnir út fyrir fyrrihluta næsta árs.

Verndum íslenska frumframleiðslu

Þegar litið er til allra þeirra aðgerða sem ráðist hefur verið í til að vernda íslenskt atvinnulíf, ásamt hvatningarátökum til Íslendinga um að velja íslenskt og „láta það ganga er furðulegt andvaraleysi gagnvart því að vernda íslenska frumframleiðslu á borð við landbúnaðinn. Bændur geta fæstir nýtt sér COVID-19 úrræði stjórnvalda eins og hlutabætur, lokunarstyrki, sértæk lán, laun á uppsagnarfresti og fleira. Bændur reka margir hverjir starfsemi sína á eigin kennitölu. Heimilið og reksturinn er þá undir sama hatti og tapast hvort tveggja ef illa fer. Sú staðreynd hefur reyndar valdið ýmsum vandkvæðum því úrræðin gera yfirleitt ekki ráð fyrir einstaklingsfyrirtækjum. Besta leiðin til að styðja við íslenska framleiðslu á tímum sem þessum er að vernda samkeppnisstöðuna, hið minnsta að tryggja að samkeppnin sé á sanngirnisgrundvelli.

Aðeins 10% af landbúnaðarframleiðslu heimsins eru seld á milli ríkja. Hin 90% eru til neyslu og vinnslu á heimamarkaði. Allir þurfa að borða og allar ábyrgar ríkisstjórnir vita að það má ekki bregðast að íbúarnir hafi aðgang að nægum mat. Um allan heim tíðkast að ríki verndi og styðji innlenda matvælaframleiðslu og þar er Ísland engin undantekning. Rökin að baki eru einkum þau að almenningur og stjórnvöld, í umboði hans, meta það svo að mikilvægt sé að tryggja framleiðsluna í viðkomandi löndum. Menn vilja ekki standa frammi fyrir því að hafa fórnað matvælaframleiðslunni fyrir skammtímagróða, né stóla á innfluttar matvörur eingöngu. Til þess að ná þessum markmiðum nota ríki meðal annars tollvernd. Það er þó ekki nóg að tollvernd sé til staðar, hún þarf að virka.

Sanngjarna samkeppni

Fyrr í vikunni birtust fréttir af máli fyrirtækis sem grunað er um tollalagabrot þar sem innflutt kjöt var ranglega skráð í tollskráningu. Nemur mismunur vegna rangrar skráningar á tollnúmeri tæpum tuttugu milljónum króna í því tilfelli. Bændablaðið hefur undanfarið sagt frá því að misræmi er í magntölum sem sýna innflutningstölur Hagstofunnar til Íslands og útflutningstölur frá löndum Evrópusambandsins á ýmsum landbúnaðarvörum. Þá er ljóst að munurinn í magntölum sumra vöruflokka er gríðarlega mikill.  Ef hægt er að rekja það misræmi til rangra skráninga við tollskráningu þá kemur það augljóslega niður á möguleikum íslenskra bænda að koma vörum sínum á markað. Á meðan staðan er með þeim hætti er seint hægt að segja að samkeppnin sé sanngjörn.

Menn geta sagt að þessi grein eigi bara að þola samkeppnina. En hún þarf að vera sanngjörn. Aðstæður verða að vera þannig að vilji sé til framleiðslunnar hérlendis. Sé ekki gætt að því, bresta undirstöður hennar og hún hverfur á endanum að mestu. Þegar hún er einu sinni farin kemur hún ekki svo auðveldlega aftur. Þá verður ekkert val. Viljum við það?

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...