Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kolbeinn og Bjarni Finnssynir, stofnendur Blómavals. Mynd / Hörður Kristjánsson.
Kolbeinn og Bjarni Finnssynir, stofnendur Blómavals. Mynd / Hörður Kristjánsson.
Mynd / H,Kr. / Úr einkasafni
Líf og starf 28. september 2020

Mikið at en alltaf skemmtilegt

Höfundur: Vilmundur Hansen

Bræðurnir Bjarni og Kolbeinn Finns­synir voru rétt ríflega tvítugir þegar þeir stofnuðu Blómaval í Sigtúni árið 1970 ásamt eiginkonum sínum, Bryn­dísi Jóhannesdóttur og Hildi Baldurs­dóttur. Þau unnu öll að upp­byggingu fyrirtækisins í tæp 30 ár en þá keypti Húsasmiðjan reksturinn. Þeir segja að vinnan hafi verið mikil en skemmtileg og uppátækin mörg.

Á 15 ára afmæli Blómavals voru bílar fyrirtækisins skreyttir blómum og keyrðu þannig um Reykjavík til að vekja athygli á fyrirtækinu.

Sagan að baki því að þeir stofnuðu Blómaval er að Jón H. Björnsson, sem rak Alaska við Mikla­torg, tók gróðurhúsið við Sigtún á leigu af Stefáni Árnasyni og rak þar blómaverslun og störfuðu Bjarni og Kolbeinn hjá honum. „Reksturinn gekk ekki alveg sem skyldi og Stefán spurði hvort við vildum ekki taka við leigunni og við slógum til og stofnuðum Blómaval, eins og það væri ekkert mál. Við tókum gróðurhúsið á leigu, sem var 700 fermetrar, fyrstu þrjú árin en keyptum það svo og hófum uppbyggingu á svæðinu.“

Kolbeinn, sem er menntaður rafvirki, segir að einu kynni sín af garðyrkju fyrir þann tíma hafi verið þegar hann og Bjarni, sem er skrúðgarðyrkjumeistari, tók að sér að slá garða í eitt sumar.

Ódýrir aðventukransar upphafið að jólaversluninni

„Við lögðum frá upphafi mikla áherslu á markaðssetningu og að auglýsa það sem var í boði og fyrstu jólin kom fyrsta verðspengingin þegar við auglýstum aðventukransa á 195 krónur þegar þeir kostuðu 500 krónur hjá samkeppnisaðilunum. Það héldu allir að við værum gengnir af göflunum, en salan var gríðarleg og það var upphafið að allri jólaversluninni í Blómaval, sem jókst ár frá ári,“ segja Bjarni og Kolbeinn, „og önnur jólin fluttum við inn okkar eigin jólatré til sölu.“

Tuttugu metra löng kaka í tilefni af tuttugu ára afmæli Blómavals árið 1990.

Grunnhugmyndin að baki Blómavali er það sem erlendis kallast „garden center“ en samt ekki því að í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar var garðrækt hér á landi ekki það langt á veg komin að hún stæði undir slíkum rekstri og þurftu þeir bræður því að leita annarra leiða. „Til að byrja með var áherslan mikil á blóm, bæði pottaplöntur, afskorin blóm og skreytingar og mun meira en á garðinn og vörur tengdar honum. Smám saman varð garðrækt almennari og við fórum að leggja meiri áherslu á að þjónusta garðeigendur og allt sem tilheyrir honum.“

Sumarblómatíminn mun styttri en í dag

„Við seldum sumarblóm fyrsta sumarið en á þeim tíma var markaðurinn allur annar en hann er í dag. Sölutíminn var ekki nema nokkrar vikur og stóð frá mánaða­mótum maí og júní og fram undir 17. júní og eftir það seldust varla nokkur sumarblóm eða garðplöntur.“ Bjarni bætir við að áratugurinn milli sjötíu og áttatíu hafi verið frekar kaldur og að það hafi að hluta haft letjandi áhrif á sölu sumarblóma.

Nýjar leiðir í markaðssetningu

Rekstur Blómavals gekk vel frá upphafi og fljótlega var farið að stækka gróðurhúsið við Sigtún og bæta við byggingum. Ein jólin fór til dæmis starfsmannafjöldinn yfir eitt hundrað og það segir sína sögu um umfangið og aukninguna í veltu.

Aparnir í Blómavali við Sigtúni höfðu mikið aðdráttarafl og sér­staklega fyrir yngri kynslóðina. Tvisvar kom það fyrir að ap­arnir sluppu úr búri sínu og í bæði skiptin þurfti að elta þá uppi utandyra. Húsmóður í Teiga­hverfinu mun ekki hafa staðið á sama þegar hún leit út um eldhús­gluggann og sá apa í trénu fyrir utan.

Bjarni segir að á öðrum árstímum hafi þeir meðal annars flutt inn blómaskreytingameistara og haldið alls konar sýningar og námskeið til að vekja athygli á versluninni. Það voru alltaf í gangi tilboð og Blómaval bauð yfirleitt mun lægra verð en samkeppnisaðilarnir, það skilaði ekki allt beinum hagnaði en myndin sem varð til af Blómavali var mjög jákvæð til lengri tíma litið.

„Það breyttist mikið hjá okkur þegar við fórum í viðskipti með blóm við Ártanga, sem er í eigu Gunnars Þorgeirssonar, núverandi formanns Bændasamtaka Íslands, sem seldi mest af sínum blómum í Blómavali fyrstu tuttugu árin sem hann rak garðyrkjustöðina. Þetta tryggði okkur góð blóm og skipti okkur gríðarlegu máli.

Okkur hélst vel á starfsfólki og sumt af kjarnastarfsfólki Blómavals í dag byrjaði á meðan við vorum með reksturinn.“

Heildsalan Brum

Árið 1983 stofna þeir Blómavals­bræður heildsöluna Brum og sá Kolbeinn að mestu um rekstur hennar. „Brum flutti inn mikið af afskornum blómum og pottaplöntur, potta og aðrar gróðurtengdar vörur. Auk þess að selja vörurnar voru þær seldar í blómabúðum um allt land og við því í viðskiptum við samkeppnisaðila okkar. Heildsalan gekk vel en hún varð aldrei eins stór og Blómaval en með fimm eða sex manns í vinnu,“ segir Kolbeinn.

Ofsaveðrið 1981

Í febrúar 1981 gekk ofsaveður yfir landið. „Þá nótt fór gróðurhúsið nánast í rúst og 600 rúður sem brotnuðu og ekkert hægt að gera annað en að koma sér í skjól.“ Bjarni segir að þá nótt hafi hann hringt í Sölufélag garðyrkjumanna og keypt allt gler sem þeir áttu á lager. „Það skemmdist líka mikið innanhúss og mikil vinna að taka til og koma öllu í stand. Einhverra hluta vegna fylgdi tjóninu svo mikill kraftur til að rífa reksturinn upp aftur að árið var okkar besta í rekstrinum.“

Á 15 ára afmæli Blómavals voru bílar fyrirtækisins skreyttir blómum og keyrðu þannig um Reykjavík til að vekja athygli á fyrirtækinu.

Kolbeinn segir að það hafi ekki tekið nema sólarhring að opna húsið aftur og að búðin hafi einungis verið lokuð í einn dag. „Enda margir sem komu til að hjálpa okkur. Bjarni fór til Hollands fimm dögum seinna til að kaupa inn vörur og við vorum því fljótir að koma rekstrinum í samt lag aftur.“

Húsasmiðjan kaupir Blómaval

Eftir þrjátíu ára rekstur, mikið at og fá frí þótti bræðrunum komið nóg og ákváðu að söðla um og selja reksturinn. „Okkur fannst nóg komið. Við voru rétt tvítugir þegar við stofnuðum fyrirtækið með eiginkonum okkar og unnið mikið við uppbyggingu þess og þótti einfaldlega tímabært að selja þegar við fengum tilboð frá Húsamiðjunni. Á þessum árum tókst okkur að gera Blómaval að heilsársverslun þar sem hvert sölutímabilið tók við af öðru og í raun aldrei dauður tími og stanslaust at og keyrsla. Það var því ekki eins erfitt og ætla mætti að hætta rekstrinum og snúa sér að öðru,“ segja þeir Bjarni og Kolbeinn að lokum.

Kolbeinn og Bjarni árið 1979.

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...