Skrifstofur Síldarverksmiðju ríkisins mega muna sinn fífil fegurri en þar er hlýtt og hreint og
gott að hvíla lúin bein.
Skrifstofur Síldarverksmiðju ríkisins mega muna sinn fífil fegurri en þar er hlýtt og hreint og gott að hvíla lúin bein.
Líf og starf 8. júlí 2024

Útlitið er ekki allt

Höfundur: Bryndís Sigurðardóttir

„Sko, þetta hús byggði Síldarverksmiðja ríkisins árið 1943 og hér voru skrifstofur,“ segir Angela Agnarsdóttir, nýr eigandi Hreiðursins, eða The Nest Guesthouse, eins og það kallast upp á algenga ferðamannaútlensku.

„Fyrst voru bara tvær hæðir en svo var þriðju hæðinni bætt við svo þétting byggðar er svo sannarlega ekki fundin upp af Degi og félögum í henni Reykjavík,“ segir hún skellihlæjandi og það er greinilega stutt í gleðina hjá hótelstjóranum.

Við erum stödd á Raufarhöfn, einum afskekktasta þéttbýliskjarna landsins þar sem miðnæturbirtan er stórfengleg, náttúran einstök og mannlífið gott. „Við höfum íhugað að nýta okkur afar bágborið útlit hússins í markaðssetningu, eins og t.d. „Útlitið er ekki allt“ eða „Ljótt hús, hrein rúm“ en auðvitað er á dagskránni að laga húsið og gera það fallegt,“ segir Gísli Briem, hinn helmingur hjónanna sem nú hafa sest aftur að á Raufarhöfn. Fyrst og fremst þarf að tryggja að hús haldi vatni og vindum og gamalt hús eins og hér um ræðir þarf mikla umhyggju og vinnu og svo auðvitað helling af peningum bætir hann við.

AngelablaðaríbókhaldiSíldarverksmiðjunnarsemfannst í kjallara hússins og fyrir aftan hana má sjá vinnugalla sem ef að líkum lætur, var brúkaður um miðja síðustu öld.

Festa ekki rætur fyrir sunnan

Angela og Gísli fluttu árið 2020 suður eftir þá þriggja ára búsetu á Raufarhöfn en tókst ekki að festa rætur fyrir sunnan, hugurinn var fyrir norðan eða austan og augun voru alltaf opin fyrir nýjum tækifærum á réttum stað á landinu. Angela er borinn og barnfæddur Raufsari. „Ég reyndar svo sem fæddist á fæðingardeildinni á Akranesi, en það var bara af því mamma er frá Akranesi og vildi fæða þar.“ Faðir Angelu er Agnar Víðir Indriðason sem fæddur er á Raufarhöfn og hefur alltaf búið þar, en móðir Angelu, Jóhanna Helga Sigursteinsdóttir er frá Akranesi eins og fyrr segir. Aðspurð segir Angela að það hafi verið frábært að alast upp á Raufarhöfn, líf og fjör og mikið að gera. „Við til dæmis kveiktum í verksmiðjunni, fundum eldspýtur og kveiktum í einhverju plasti og það bara varð allt vitlaust, stórbruni,“ segir Angela skömmustuleg og gýtur augum á upptökutækið. „Ég er búin að margreyna að flytja í burtu héðan, en dregst alltaf til baka heim aftur.“

Gísli er aftur á móti frá Reyðarfirði, næstelstur fjögurra systkina og eins og Angela, afar sáttur við sinn uppvöxt í litlu sjávarþorpi og finnur á Raufarhöfn þessa sönnu „heima“-tilfinningu sem heppnir þekkja.

Þau hjón eiga samtals þrjú uppkomin börn og fimm barnabörn, sem búsett eru víða um land. „Alltaf þegar við keyrðum frá Raufarhöfn var alltaf þögn í bílnum hjá okkur, svona eins og sorgarþungi,“ segir Angela og gerir tilraun til að lýsa þessari undarlegu þrá sem sumir upplifa til heimahaganna. Þau eru samt sammála um að ákvörðun um að leggja í þessa ferð hafi verið flókin, hótelrekstur á stað sem margir myndu lýsa sem hjara veraldar er erfiður og alls ekki augljóst að allt muni ganga upp. „En alveg eins og við þurfum á Raufarhöfn að halda þá finnst mér að Raufarhöfn þurfi líka á okkur að halda, það er svo margt sem er hægt að gera, þarf að gera og okkur langar að taka þátt í því,“ segir Gísli. „Náttúran hérna er svo stórkostleg, að fara upp í heiði að veiða eða bara í göngutúr eru ómetanleg lífsgæði og svo er svo mikil nánd í samfélaginu.“

Fimmtán herbergi og tjaldstæði

Hreiðrið hefur verið rekið á Raufarhöfn um árabil, þar eru 15 herbergi af ýmsum stærðum og gerðum og gistipláss fyrir um 30 manns. Á annarri og þriðju hæð eru vel búin eldhús og setustofur og sameiginlegar snyrtingar en á jarðhæð er rúmgóð móttaka og gistirými. Kjallarinn, sem er hálfniðurgrafinn, er svo til ónothæfur eins og er en ýmsar hugmyndir eru um breytingar þar á, lagfæra þarf þvottahúsið og geymslur sem þar eru og hugsanlega mætti útbúa litla íbúð í hluta rýmisins. „Þetta er kannski ekki spánýtt hús en ég get sagt þér það að það er hreint,“ segir frú Angela og veifar dulu, enda er hún þekkt hamhleypa með tuskuna.

„Okkur dreymir um að ræsa alls konar afþreyingu á staðnum og vonum að einhverjir séu í startholunum líka,“ segir Gísli og bendir á marga möguleika og segir að ferðamenn þurfi „action“, annars stoppa þeir bara eina nótt eða koma bara alls ekki. Það er þó ekki þannig að á Raufarhöfn finnist ekki „seglar“ fyrir ferðamenn, sagan er alltumlykjandi enda þorpið nyrsta byggða ból landsins og hér á árum áður var gríðarmikil síldarútgerð. Bæjarstæðið er ákaflega fallegt, Raufarhafnarhöfði skýlir höfninni og nálægðin við Melrakkasléttu er dýrmæt og gjöful. Á Melrakkaási við Raufarhöfn stendur svo Heimskautagerðið, stórfengleg framkvæmd þar sem leikið er með miðnætursólina og sögur af dvergum og öðrum kynjaverum.

Kaffibrauð á borðum eins og vera ber á gestrisnu heimili hjá Angelu og Gísla í Hreiðrinu.

Bjartsýn á framhaldið

Bókanir fyrir sumarið eru ágætar og júlí er orðinn fullbókaður, það er bullandi bjartsýni í nýju eigendunum og mikill eldmóður. Það þarf svo sannarlega að taka til hendinni og ekki annað að sjá en þessar fjórar séu til í tuskið.

Telur árangurinn á EM viðunandi
Líf og starf 23. júlí 2024

Telur árangurinn á EM viðunandi

Evrópumótinu í bridds lauk í síðustu viku í Herning í Danmörku. Ísland sendi út ...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 22. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Kóngurinn í Skagafirði
Líf og starf 22. júlí 2024

Kóngurinn í Skagafirði

Jón Arnljótsson, sauðfjárbóndi á Ytri- Mælifellsá í Skagafirði, hefur lengi veri...

Safnar saman þekkingu um alþýðulækningar
Líf og starf 18. júlí 2024

Safnar saman þekkingu um alþýðulækningar

Skoða á hefðir og notkun óhefðbundinna lækninga á Íslandi í norrænni rannsókn. A...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 18. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...