Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Ullarvika á Suðurlandi
Líf og starf 11. september 2024

Ullarvika á Suðurlandi

Höfundur: Hulda Brynjólfsdóttir, eigandi Uppspuna, sem er einn af þeim aðilum sem hefur staðið að Ullarvikunni.

Ullarvika á Suðurlandi er nú haldin í þriðja sinn. Að Ullarvikunni standa Feldfjárbændur, Spunasystur, Uppspuni, Þingborgarkonur og fjölmargir fleiri aðilar sem lifa og hrærast í ull og kindum. Þetta er vikulöng hátíð sem hefst 29. september og lýkur 5. október.

Hulda Brynjólfsdóttir.

Dagskráin er fjölbreytt en öll árin sem vikan hefur verið haldin hefur sauðfjárlitasýning, markaðstorg, fjöldi fjölbreyttra námskeiða og fyrirlestrar verið hluti af því sem þar er að finna. Fólk hefur komið frá mörgum löndum á þessa hátíð sem hverfist um íslenskar sauðkindur og ullina sem hún gefur og öllum þeim fjölbreyttu nýtingarmöguleikum hennar.

Ull er svo sannarlega gull og er þessi vika fyrst og fremst hugsuð til að gera henni hátt undir höfði og leyfa fólki að njóta ullar og læra meira um hana og hvernig má nýta hana í hvers konar handverk, en auk þess í allt mögulegt annað en handverk á skapandi og uppbyggilegan hátt.

Kennarar og fyrirlesarar koma víða að en í hópi þeirra sem að ullarvikunni standa má finna aðila sem eru býsna fróðir um ull og hvernig má vinna hana og eru heimamenn því einnig kennarar á námskeiðunum sem í boði eru. Meðal námskeiða má til dæmis nefna spuna, prjón, litun, þæfingu, sauðfjárrækt með áherslu á ull og fjöldamargt annað.

Við sem stöndum að Ullarvikunni vinnum alla vinnu í sjálfboðavinnu og undirbúningur fyrir hana er heilmikill til að skipulag gangi upp og er hún haldin annað hvert ár. Síðast var hún haldin haustið 2022. 

Spunasystur eru hópur kvenna sem er búsettar víðs vegar í Rangárvallasýslu. Flestar þeirra eru bændur sem eiga sauðfé og snýst félagsskapurinn fyrst og fremst um að handspinna úr eigin ull, þæfa, prjóna, vefa, lita, fræðast og fræða aðra, hittast og hafa gaman og efla áhuga og auka virðingu fyrir íslensku sauðkindinni. Margar þeirra hafa opnað vinnustofu heima á bæ sínum og á ullarvikunni eru þessar vinnustofur opnar og hægt að keyra á milli og sjá hvað hver og ein er að gera. Óhætt er að fullyrða að það sé vel þess virði að kíkja í heimsókn til þeirra, en kort með staðsetningu þeirra er gefið út fyrir ullarvikuna. Ein Spunasystir býr austur í Álftaveri og verður hennar vinnustofa einnig opin og þá hafa fleiri aðilar bæst í hópinn til að opna vinnustofuna sína og bjóða fólki að kíkja til þeirra.

Þingborgarkonur er annar hópur kvenna sem hefur í tugi ára hist reglulega, prjónað og spunnið og selja þær vörur sínar í Gömlu Þingborg. Ullarvikan byrjaði árið sem þær áttu þrjátíu ára starfsafmæli og fer stærstur hluti viðburðanna fram í Félagsheimilinu Þingborg sem er örstutt frá Ullarversluninni í Gömlu Þingborg.

Í félagsheimilinu verður einnig kaffihús opið í lok vikunnar og laugardaginn 5. október fer markaðstorgið þar fram, ásamt tískusýningu og spunakeppni. Þar er opið fyrir alla að koma með prjónana sína og sitja með öðru prjónafólki, fá sér kaffi og bakkelsi og njóta þess að vera til. Á heimasíðunni má finna hvenær prjónakaffið er opið.

Uppspuni er smáspunaverksmiðja sem er starfrækt af fjölskyldu rétt austan við Þjórsárbrú. Á ullarvikunni verða ýmsir viðburðir sem eru opnir gestum og verður opið inn í vinnsluna og búðina alla dagana, auk þess sem þar fara fram námskeið og fleiri viðburðir sem auglýstir eru á heimasíðu ullarvikunnar; www. ullarvikan.is Meðal viðburða þar má nefna opið fjárhús þar sem féð verður rúið og víkingadag þar sem víkingar koma og sýna gamalt handverk og fleira tengt víkingatíma landsins.

Þá er opið og námskeið að finna í Hespuhúsinu á Selfossi og hægt að kíkja þar í litunarpottana sem malla með jurtum og umbreyta garni í litadýrð sem er göldrum líkast. Má nefna námskeið þar sem tengist skapandi prjóni ásamt fjölmörgum öðrum. Það er sömuleiðis auglýst á heimasíðunni.

Þetta er aðeins brot af því sem verður í boði á ullarviku á Suðurlandi 2024 og vel hægt að mæla með því að fólk taki sér tíma til að kíkja í sveitina og taka þátt í því sem þar fer fram.

Skylt efni: Ullarvika

Fjögur þúsund Októberstjörnur
Líf og starf 10. október 2024

Fjögur þúsund Októberstjörnur

Bleikur er orðinn einn einkennislitur október, þökk sé Bleiku slaufunni, árlegu ...

Lómur
Líf og starf 9. október 2024

Lómur

Lómur er náskyldur himbrimanum. Þeir eru báðir af brúsaætt og eru þeir einu tvei...

Vettlingar með norrænu mynstri
Líf og starf 8. október 2024

Vettlingar með norrænu mynstri

Vettlingar koma alltaf að góðum notum. Hvort sem er í leik eða starfi, alltaf er...

Kínverskt veitingahús opnað á Flúðum
Líf og starf 8. október 2024

Kínverskt veitingahús opnað á Flúðum

Kínverskur veitingastaður mun bráðlega opna á Flúðum.

Mikil spenna í úrslitaleiknum
Líf og starf 8. október 2024

Mikil spenna í úrslitaleiknum

Undanúrslit og úrslit Bikarkeppni BSÍ árið 2024 fóru fram um síðustu helgi í höf...

Nýting náttúruauðlindanna
Líf og starf 7. október 2024

Nýting náttúruauðlindanna

Í aldanna rás hafa Íslendingar lært að nýta ríkar náttúruauðlindir landsins til ...

Lindifura út úr kú
Líf og starf 7. október 2024

Lindifura út úr kú

Skógarsúkkulaði með lindifuruolíu er nýlunda á íslenskum súkkulaðimarkaði.

Siggi Dan gegn Sævari
Líf og starf 4. október 2024

Siggi Dan gegn Sævari

Í þessum skákpistli hefur áður verið birt skák sem Sigurður heitinn Daníelsson t...