Tónlistardagskrá í allt sumar
Það mun allt iða af lífi og fjöri á Sólheimum í Grímsnes- og Grafningshreppi í sumar í tilefni af 95 ára afmæli staðarins en Sólheimar voru stofnaðir af Sesselju Hreindísi Sigmundsdóttur 5. júlí 1928, sem var þá 28 ára gömul.
Glæsileg tónlistardagskrá hefur verið sett upp á staðnum alla laugardaga í sumar en þeir eru hluti af menningarveislu Sólheima. Tónleikarnir munu alltaf fara fram klukkan 14:00 og verða haldnir í Sólheimakirkju en ef aðstæður leyfa gætu þeir verið færðir á Péturstorg en það er útisvæði á staðnum.
Dæmi um tónlistarmenn, sem koma fram eru Örn Árnason og Jónas Þórir, undirleikari hans, 26. júlí, Friðrik Dór kemur fram 12. júlí, Sigga Beinteins og Grétar Örvars í Stjórninni 16. ágúst og KK mætir með gítarinn 23. ágúst.
Alla miðvikudaga og laugardaga í sumar er fólki svo boðið að mæta í tómatatínslu með fjölskylduna í gróðurhúsin á Sólheimum og þá er Græna kannan, kaffihús staðarins, opið alla daga frá klukkan 11:00 til 17:00 og verslunin Vala á sama tíma.
Þá má geta þess að á sunnudaginn 3. ágúst klukkan 14:00 verður hátíðarmessa í Sólheimakirkju þar sem sr. Pálmi Matthíasson messar og Anna Sigga og félagar úr Kammerkór Bústaðakirkju syngja við undirleik Jónasar Þóris.