Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hörður Sigurjónsson.
Hörður Sigurjónsson.
Líf og starf 21. janúar 2019

Þjónn í 53 ár

Höfundur: Vilmundur Hansen

Hörður Sigurjónsson, gæða- og sölustjóri veitingasviðs Hótel Sögu, hefur starfað í veitingabransanum í 53 ár, lengst af sem þjónn. Hörður, sem hætti störfum 17. janúar síðastliðinn, segir þjónsstarfið afskaplega skemmtilegt en á köflum hefði ekki sakað að hafa gráðu í sálfræði eða heimspeki til að grípa til samhliða barþjónustunni. 

„Ég byrjaði á Hótel Sögu sem nemi í framreiðslu 1. maí 1966 og útskrifaðist 1969. Fékk frí frá Hótel Sögu til að taka að mér hótelstjórastarf á Hótel Stykkishólmi og stjórnaði því fyrstu tvö árin og kom svo aftur á Hótel Sögu, og starfaði sem þjónn á Sögu til 1981, eða þar til ég söðlaði um og fór til Ólafs Laufdal sem var að opna Broadway í Mjódd. Var yfirþjónn á Broadway í Mjódd frá því að staðurinn var opnaður 6. nóvember 1981 og flutti síðan á Hótel Ísland í Ármúla 9, þegar sá staður var opnaður sem stærsti skemmtistaður Íslands og tók allt að 1.200 gesti í mat.“

Hörður starfaði sem þjónn á Naustinu í nokkur ár og sölustjóri á Restaurant Reykjavík og FoodCo sem rak á þeim tíma staði eins og Lækjarbrekku, Sjávarkjallarann, Greifann á Akureyri og nokkra skyndibitastaði, eins og til dæmis American Style.

Oft kvöld- og næturvinna

Hörður réði sig svo aftur á Hótel Sögu og hefur starfað þar síðan þá og hefur því alls starfað um þrjátíu ár á hótelinu.

„Samkvæmt kennitölunni átti ég að hætta að vinna fyrir nokkrum árum en hótelstjórinn, Ingibjörg Ólafsdóttir, sagði að ég mætti vinna eins lengi og ég vildi, en núna er kominn tími til að hægja á eftir 53 ár.

Þjónsstarfið felur oft í sér óreglulegan vinnutíma en fyrstu árin mín á Sögu vann ég mest á Grillinu og þá vorum við búnir á kristilegum tíma. Þetta voru morgun- og kvöldvaktir og vinnutíminn þá oftast undir miðnætti og maður var kominn heim fljótlega eftir það. Eftir að ég flutti mig á Broadway breyttist vinnutíminn mikið og alltaf opið til þrjú á nóttunni  um helgar og maður oft ekki kominn heim fyrr en undir fimm til sex á morgnana.“

Skemmtilegt á Astrabarnum

„Af minni reynslu er mjög skemmtilegt að vinna sem þjónn. Sérstaklega fannst mér gaman að starfa sem barþjónn á Astrabarnum á Sögu sem var opinn í hádeginu og á kvöldin þar sem ég var í mörg ár. Á þeim tíma var maður mikið í spjallinu meðfram því að skenkja í glös. Það voru minni læti á barnum á þeim tíma og menn komu til að fá sér drykk. Það var mikið um fastakúnna sem komu til að spjalla og þá hefði oft verið gott að hafa gráðu í sálfræði og jafnvel heimspeki meðfram þjónsreynslunni, sérstaklega þegar umræðurnar urðu þungar. Sama stemning var oft til staðar á Naustinu.

Stemningin var aftur á móti önnur á Broadway sem var stór skemmtistaður og satt best að segja urðu einhvers konar straumhvörf í veitingabransanum með tilkomu staðarins. Með opnun Brodway í Mjódd skapaðist stemning fyrir því að mæta klukkan sjö og fá sér að borða, síðan var sýning, oft með frægum erlendum skemmtikröftum, og ball á eftir. Oft skiptist kúnnahópurinn um það leyti sem böllin voru að hefjast. Fólk sem kom í mat og á sýninguna fór iðulega milli ellefu og hálf tólf eftir að hafa tekið nokkra snúninga og í þeirra stað kom balltraffíkin með yngra fólki og biðröð dauðans fyrir utan.

Oft kom það fyrir að ég þekkti svo marga sem voru að bíða eftir að komast inn að það þýddi ekkert fyrir mig að fara í anddyrið því þar voru svo margir sem maður þekkti að biðja mann um að taka sig inn fram fyrir röðina sem var alltaf fyrir utan. Staðurinn var með leyfi fyrir ákveðnum fjölda gesta og þegar var orðinn húsfyllir mátti bara hleypa inn jafnmörgum og fóru út.
Síðar breyttist þessi ballmenning  mikið þegar pöbbarnir opnuðu hver af öðrum í miðbænum.

Túr með Gullfossi

„Á meðan ég var lærlingur á Sögu, 1968, hafði Guðmundur bryti samband við mig og spyr hvort ég geti farið einn jólatúr með Gullfossi og reddað öðrum þjóni með mér. Ég fékk félaga minn sem var að læra með mér á Sögu  að koma með mér og við samþykktum túrinn með því skilyrði að konurnar okkar kæmu með og það var samþykkt, og var hann mjög skemmtilegur fyrir okkur.

Jólatúrinn var árviss og farið til Leith í Skotlandi, Kaupmannahafnar og Hamborgar og sömu leið heim. Siglingin var vinsæl og merkisfólk í þjóðfélaginu sem fór með ár eftir ár. Í þessum ferðum voru kvöldvökur og dansleikir á kvöldin um borð á siglingunni og mjög langur vinnudagur hjá þjónustuliði og hljómsveitinni um borð, við félagarnir tókum flestar morgunvaktirnar og þess vegna urðu vinnudagarnir ansi langir, en skemmtilegar minningar eftir á.

Kynntist konunni á Sögu

Hörður kynntist Rannveigu Ingvarsdóttur, eiginkonu sinni, á Hótel Sögu þar sem hún var að læra hárgreiðslu.

„Rannveig hóf nám í hárgreiðslu sama dag og ég hóf þjónanámið. Það var ball í Sigtúni, gamla Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll, um kvöldið þar sem Dúmbó og Steini voru að spila. Þar dansaði ég við Rannveigu fyrsta dansinn og við höfum dansað saman í 53 ár síðan þá.

Margar skemmtilegar uppákomur

Að sögn Harðar man hann eftir mörgum skemmtilegum uppákomum í gegnum tíðina.

„Ég gæti eflaust skrifað eina eða tvær bækur með skemmtilegum sögum af viðskiptavinum á barnum en við framreiðslumenn erum bundnir þagnarskyldu, eins og læknar og prestar, enda kæmumst við ekki í gegnum starfið ef við værum alltaf að blaðra um kúnnana. Ég lít reyndar svo á að fólk verði að njóta ákveðinnar friðhelgi þegar það er komið inn á skemmtistaði.

Árið 1973, þegar Danadrottning kom í opinbera heimsókn til Kristjáns Eldjárn og Halldóru, var haldin veisla fyrir drottninguna í Súlnasalnum. Eins og margir vita reykir Margrét Þórhildur mikið og ég hafði það eina hlutverk um kvöldið að standa, ekki allt of nærri henni, með öskubakka og passa að hún dræpi í sígarettunum í honum. Þegar Margrét kom svo aftur í ár varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að vinna í móttöku fyrir hana í Veröld – Húsi Vigdísar Finnbogadóttur. Henni var sagt þá að ég hefði líka verið í veislunni 1973 og henni fannst það skemmtilegt og tók í höndina á mér og þakkaði mér fyrir.

Margir þekktir gestir komu á Sögu á árum áður og er mér sérstaklega minnisstæður leikarinn Alec Guinness, sem kom í nokkur skipti og borðaði alltaf morgunmat við sama borðið á Grillinu. Hann sagði mér að hann kæmi til Íslands til að slaka á og fá að vera í friði með konunni sinni og laus við allt áreiti.
Ég afgreiddi líka hér á Sögu meðal annarra Charlton Heston, Ellu Fitzgerald og Louis Armstrong,“ segir Hörður.

Dásamlegur tími á skemmtilegum vinnustað

„Seinni árin mín á Sögu hef ég lítið verði í beinni þjónustu við kúnnana en því meira í stjórnun og gæðamálunum. Mig langar í lokin að fá að þakka öllu því góða fólki sem ég hef unnið með og kynnst í húsinu fyrir gott samstarf og góð kynni og gildir það jafnt fyrir alla, hvaða starfi sem þeir starfa í húsinu. Þetta er búið að vera dásamlegur tími á skemmtilegum vinnustað og takk fyrir mig.“

Hvern myndir þú vilja sjá sem næsta matvælaráðherra og af hverju?
Líf og starf 6. desember 2024

Hvern myndir þú vilja sjá sem næsta matvælaráðherra og af hverju?

Hvern myndir þú vilja sjá sem næsta matvælaráðherra og af hverju?

Á döfinni í desember
Líf og starf 5. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Þjóðarréttur Íslendinga
Líf og starf 4. desember 2024

Þjóðarréttur Íslendinga

Það er með mikilli ánægju, jafnvel stolti sem við landsmenn höfum neytt brauðter...

Baldur Högni
Líf og starf 4. desember 2024

Baldur Högni

Nafn: Baldur Högni Benediktsson.

Tildra
Líf og starf 4. desember 2024

Tildra

Tildra er lítill vaðfugl eða fjörufugl sem stoppar hér á Íslandi á ferð sinni mi...

Útbreiðsla fegurðar og fjölbreytileika
Líf og starf 4. desember 2024

Útbreiðsla fegurðar og fjölbreytileika

Ragnars Þorsteinssonar, sauðfjárbóndi og ljósmyndari í Sýrnesi í Aðaldal, hefur ...

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni
Líf og starf 3. desember 2024

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni

Stefán Jónsson briddsspilari hefur reynst Bridgesambandi Íslands hvalreki með áh...

Augnlitir í sauðfé
Líf og starf 3. desember 2024

Augnlitir í sauðfé

Sjöunda útgáfa Hvammshlíðar­dagatals hefur litið dagsins ljós.