Hælaskór Valentino, svokölluð stuðningstaska Bottega og leikkonan Zendaya í hönnun Mugler.
Hælaskór Valentino, svokölluð stuðningstaska Bottega og leikkonan Zendaya í hönnun Mugler.
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að líða á mitt sumar er ekki seinna vænna en að taka stöðuna.

Hér eru nokkur dæmi sem gaman er að velta fyrir sér.

Fínlegt kögur

Hönnuðir á borð við Bottega Veneta, Burberry, Gucci, Mugler og Tom Ford eru meðal þeirra sem hafa leikið sér með kögur nýverið, þá helst með ofurfína þræði. Um ræðir óumdeilanlega fágaðra kögur en oft áður, sem leikur frjálst um línur fatnaðarins, bærist við fald eða fellur með klæðinu sjálfu. Er kögrið oft litað að einhverju leyti og í bland við fínleika sinn beinir það auganu að lykilþáttum hverrar flíkur fyrir sig.

Mjúk og ljósleit föt fyrir bissness

Hönnun svokallaðs skrifstofuklæðnaðar kom fólki á óvart á tískupöllunum, en má segja að þarna sé um nokkuð róttæka breytingu að ræða. Gerður úr mjúkum efnum, ljósleitur og stílhreinn fatnaður í formi íhaldssamra síðpilsa, blússa og dragta sem þættu viðeigandi á hverri skrifstofu, þó vanalega í dekkri litum. Með þetta í huga gæti verið áhugavert að endurskoða litapallettu skrifstofuklæðnaðar og leyfa ljósari litum að njóta sín – a.m.k. í sumar.

Fullskreytt minidress

Minidress af öllum mögulegum tegundum hafa skotið upp kollinum þetta árið og helst fullskreytt með öllu. Pallíettur, glitsteinar og semelíusteinar tröllríða þarna öllu í bland við lögulega smákjóla frá hinum ýmsu tímabilum. Sjöundi áratugurinn helst í hendur við þann fimmta og útkoman verður lítið annað en stórkostleg. Glitrandi jafnt sem gróf tíska sem hentar við hvert tækifæri og þarfnast lítilla fylgihluta.

Lag á lag ofan

Það hefur jafnan þótt klassísk skemmtun að blanda saman ýmiss konar fatnaði, helst í nokkrum lögum enda getur útkoman komið skemmtilega á óvart. Nú sáust á tískupöllunum peysur, pólóbolir og jakkar yfir minipils, þá tjullpils og jafnvel blöðrupils níunda áratugarins úr þunnu efni. Tilvalin blanda kven- og karllægra strauma ullar, bómullar og pilsaefna. Sumir völdu pallíettupils með múnderingunni en ekki er hægt að segja annað en að þarna geti allir fundið eitthvað úr fataskápunum heima sem má nýta.

Pönk-rókókó

Blúndur, slaufur og fínerí í bland við svarta grófa fylgihluti, skótau og jafnvel varalit. Viðkvæmni í bland við hörku, eða fagurfræðileg lína daðurs og ögrunar. Tilvalið til að brjóta upp óspennandi daga.

Brynjuklæddar kempur

Mörgum þykir miðaldatískan heillandi, þar sem hringabrynjur og brjóstplötur eru hafðar í hávegum, en bæði má finna fatnað í klassískum jarð- og málmlitum en einnig í skærari útgáfum. Þar má til dæmis nefna hönnun Tom Ford sem vakti mikla athygli á leikkonunni Zendaya fyrir stuttu. Virðist sem Zendaya sé allhrifin af slíkri hönnun en hún klæddist samfesting í sama stíl á kynningu kvikmyndarinnar Dune. Var sú flík úr ranni franska fatahönnuðarins Thierry Mugler sem gerði garðinn frægan um árið með ilmvatninu Angel.

Hælbandið góða

Tíska aldamótanna virðist nú skjóta upp kollinum þar sem varnarlausir eiga síst von á en nú þykir afar móðins að klæðast támjóum hælaskóm með bandi. Hönnuðurinn Valentino bætti um betur og bætti svokölluðum „kittenheel“ við samsetninguna og þykir mörgum, um miðjan aldur, nóg um. (Kittenheel er semsé hvorki eins hár og fágaður og pinnahællinn en þó stöðugri.)

Tilfinningalegir stuðningspokar

Fyrir þá sem þurfa tilfinningalegan stuðning er svokallaður „stuðnings- hlutur“ nokkuð sem fleiri nýta sér en ella. Ekki er víst hvort allir geri sér grein fyrir hvað um ræðir, enda er hann á ýmsa vegu. Sumir þurfa t.d. alltaf að hafa kaffibolla sér í hönd þegar farið er utan dyra, aðrir sérstaka tösku, bera á sig sérstakan ilm eða hafa dýr í taumi.

Með þetta í huga hafa hönnuðir ársins í ár lagt áherslu á töskur í yfirstærð sem helst er hægt að leggja yfir öxlina og geyma allt sem geyma þarf auk þess að veita eigandanum tilfinningalegt utanumhald.

Ískalt sumar

Svolítið í stíl við mjúku pastellitina sem áður hafa verið nefndir koma einnig við sögu pastellitir málmleitra efna, ný litapalletta sem kemur hér inn eins og ferskur blær í sumar.

Loftkenndur léttleiki pastelsins í bland við vetrarkulda sendir ískalda tóna út í kosmósið, jökulblár, silfurgrár og jafnvel kaldur en skærbleikur rósalitur eiga allir upp á pallborðið hér.

Gyllt, þykkt og áberandi

Eyrnalokkatískan heldur áfram að vera úr þykku og áberandi gulli, nú enn fremur en áður. Yves Saint Laurent og Schiaparelli kynna ýkta útgáfu eyrnalokka sem voru hvað vinsælastir í fyrra og má segja að þarna skipti stærðin öllu máli.

Telur árangurinn á EM viðunandi
Líf og starf 23. júlí 2024

Telur árangurinn á EM viðunandi

Evrópumótinu í bridds lauk í síðustu viku í Herning í Danmörku. Ísland sendi út ...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 22. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Kóngurinn í Skagafirði
Líf og starf 22. júlí 2024

Kóngurinn í Skagafirði

Jón Arnljótsson, sauðfjárbóndi á Ytri- Mælifellsá í Skagafirði, hefur lengi veri...

Safnar saman þekkingu um alþýðulækningar
Líf og starf 18. júlí 2024

Safnar saman þekkingu um alþýðulækningar

Skoða á hefðir og notkun óhefðbundinna lækninga á Íslandi í norrænni rannsókn. A...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 18. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...