Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Undir merkjum Félags harmonikuunnenda í Reykjavík starfar 20 manna hljómsveit sem æfir vikulega yfir veturinn.
Undir merkjum Félags harmonikuunnenda í Reykjavík starfar 20 manna hljómsveit sem æfir vikulega yfir veturinn.
Mynd / Sigurður Harðarson
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sama hvort þeir spila eða ekki, ásamt því sem stór hljómsveit starfar undir merkjum félagsins.

Gylfi Björgvinsson tók við formennsku í Félagi harmonikuunnenda í Reykjavík (FHUR) í vor. Hann segist ekki spila mikið á harmoniku sjálfur, en sé flinkur á önnur hljóðfæri eins og munnhörpu. Það komi ekki að sök, enda hlutverk formannsins svo miklu meira en hljóðfæraleikur og mikið starf sem þarf að sinna.

Stærsti viðburðurinn í starfi FHUR er harmonikuhátíð sem er haldin árlega að Borg í Grímsnesi. Félagið stendur jafnframt fyrir harmonikuböllum einu sinni í mánuði í samkomusal eldri borgara í Stangarhyl 4. „Þessi böll hafa verið þung í rekstri og það er nokkuð ljóst að það verður einhver breyting á,“ segir Gylfi. Mætingin hefur verið dræm og verður fyrsta ballið eftir áramót, þann 10. janúar, prófsteinn á framhaldið. „Félagið berst í bökkum. Við erum í vandræðum af því fólkið er að eldast svo mikið og margir að falla frá og ekki nógu mikil endurnýjun.“

Gylfi Björgvinsson, formaður Félags harmonikuunnenda í Reykjavík, spilar sjálfur lítið á harmoniku en berst fyrir að halda úti félagsstarfi fyrir þá sem hafa áhuga á hljóðfærinu. Mynd / ál

Hljómsveitin æfir vikulega

Gylfi segir stöðu harmonikunar sterka en vandamálið sé að harmonikuleikurunum er að fækka og þeir eru að verða fullorðnari. „Ég á mína ósk um að harmonikan haldi velli og þessi starfsemi verði áfram og við berum þroska til þess að aðlaga þetta að færra fólki. Auðvitað vonar maður að áhugi ungs fólks á nikkunni aukist, en þetta stefnir óneitanlega ekki í þá átt,“ segir Gylfi.

Stofnað af Karli Jónatanssyni

Fjöldi félaga í FHUR er í kringum 180. Þar af eru 20 einstaklingar sem taka þátt í vikulegum æfingum með hljómsveitinni. Gylfi hvetur harmonikuleikara til að ganga til liðs við hljómsveitina og byrja að æfa, en hann segir alla geta tekið þátt. „Fólki er raðað upp eftir kunnáttu og fær aðstoð frá kunnáttufólki.“

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík var stofnað af Karli Jónatanssyni árið 1977. Hann var fær harmonikuleikari og tónlistarkennari og frumkvöðull í félagstarfi í kringum hljóðfærið. Gylfi segir að FHUR sé elsta og stærsta harmonikufélag landsins.

FHUR er eitt af tveimur sambærilegum félögum á höfuðborgarsvæðinu, en hitt heitir Harmonikufélag Reykjavíkur, sem var einnig stofnað af Karli Jónatanssyni árið 1986. Gylfi segir að í gegnum tíðina hafi ekki verið mikið samstarf á milli þessara félaga, þó það hafi aukist í seinni tíð. Harmonikufélög má finna víða um land sem standa saman að Sambandi íslenskra harmonikuunnenda.

Hipparnir spiluðu ekki á nikku

Gylfi er alinn upp í Fljótunum í Skagafirði og segir að á flestum bæjum hafi tíðkast harmonikuspil í einhverri mynd. „Harmonikan var í áratugi eina hljóðfærið sem var spilað á um sveitir landsins,“ segir hann.

Vinsældir harmonikunnar voru mjög miklar þangað til að þær döluðu eftir miðja síðustu öld. „68 kynslóðin spilaði ekki á nikku og hipparnir gerðu það ekki heldur,“ segir Gylfi. Hann segir áhugann á hljóðfærinu hins vegar hafa tekið kipp þegar harmonikuleikarinn Reynir Jónasson spilaði með Bubba Morthens á níunda áratugnum.

Hoppar þú um berrassaður?
Líf og starf 12. febrúar 2025

Hoppar þú um berrassaður?

Þorrablót, sólarkaffi, bónda- og konudagar eru sitthvað sem landinn hefur glatt ...

Unglingaafgangahrísgrjónasteikarhræra
Líf og starf 12. febrúar 2025

Unglingaafgangahrísgrjónasteikarhræra

Hvað á að gera við alla litlu afgangana? Þessa sem duga varla upp í nös á ketti ...

Eru neyðarbirgðir á þínu heimili?
Líf og starf 10. febrúar 2025

Eru neyðarbirgðir á þínu heimili?

Stjórnvöld hafa tilkynnt að gefnar verði út leiðbeiningar innan tíðar um hvaða n...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 10. febrúar 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn þarf að hafa eitt í huga ofar öllu og það er að vera skýr í hugsun. ...

Kraftur í nýnorrænni matargerð
Líf og starf 5. febrúar 2025

Kraftur í nýnorrænni matargerð

Blásið hefur verið nýju lífi í nýnorræna matargerðarhreyfingu í takt við nýja tí...

Heydreifikerfi
Líf og starf 5. febrúar 2025

Heydreifikerfi

Heydreifikerfi á bænum Hæli í Torfalækjarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Heydrei...

Skálholtsdómkirkja í sýndarveruleika
Líf og starf 4. febrúar 2025

Skálholtsdómkirkja í sýndarveruleika

Nú er hægt að ganga um Skálholtsdómkirkju í Bláskógabyggð í sýndarveruleika.

Lífrænn lífsstíll hjartans mál
Líf og starf 3. febrúar 2025

Lífrænn lífsstíll hjartans mál

Anna María Björnsdóttir, fulltrúi Lífræns Íslands, ásamt Tuma Bjarti Valdimarssy...