Sögusetur íslenska fjárhundsins opnað
Eftir tveggja og hálfs árs undirbúning er búið að opna Sögusetur íslenska fjárhundsins á Lýtingsstöðum í Skagafirði. Setrið er vettvangur til að varðveita sögu þjóðarhundsins, gera hana aðgengilega og sýnilega.
Fjölmenni var við opnunarhátíðina, sem fór fram 24. maí, en eigendur setursins vilja með því vekja áhuga heimamanna, sem og ferðamanna, á íslenska fjárhundinum, sem mikilvægum hluta menningararfs okkar. Evelyn Ýr á Lýtingsstöðum svaraði nokkrum spurningum blaðsins í tilefni af opnuninni.
Hver er sagan og hugmyndin á bak við stofnun setursins?
„Þetta verkefni hefur verið mér einstaklega hugleikið og að baki liggur tveggja og hálfs árs vinna, bæði rannsóknir og verklegur undirbúningur. Ég safnaði öllu sem ég komst í um íslenska fjárhundinn; bókum, greinum, myndum, listaverkum, póstkortum og frímerkjum. Ég setti líka upp vefsíðuna www.fjarhundur.is og skrifaði bloggfærslur um allt sem ég las mér til um. Þetta var mikilvægur þáttur í undirbúningi fyrir upplýsingaspjöldin, sem ég setti síðan saman. Þar getur fólk lesið sér til um sögu hunda á Íslandi, allt frá landnámi til nútímans, um þjóðtrú og einnig sögur um fræga hunda eins og Leo hans Fjalla-Bensa eða Glóa Grænlandsfara,“ segir Evelyn.
Vilja vekja áhuga og dýpka skilning
Hvað er helst að sjá og skoða hjá ykkur á setrinu? „Þar er hægt að lesa sér til á upplýsingaspjöldunum en einnig horfa á alls kyns myndbönd og heimildamyndir, skoða hundinn í nærmynd, skoða gamlar myndir, fletta í gegnum bækur, lesa gömul skjöl og bréf. Það er góð blanda af öllu. Svo eru hundarnir þrír á bænum sérstaklega skemmtileg móttökunefnd,“ segir Evelyn hlæjandi.
Hver er tilgangur og markmið setursins og hversu nauðsynlegt er að hafa svona setur að ykkar mati?
„Markmiðið með setrinu er að varðveita og miðla sögu íslenska fjárhundsins – þjóðarhunds Íslendinga – og gera hana sýnilega og aðgengilega fyrir alla. Við viljum vekja áhuga og dýpka skilning, bæði hjá heimamönnum og gestum hvaðanæva að úr heiminum, það er að segja á mikilvægi þessa einstaka hundakyns í menningararfi þjóðarinnar,“ segir Evelyn.
Síbrosandi félagi
Hver eru viðbrögð gesta sem koma til ykkar?
„Við rekum ferðaþjónustu á bænum samhliða hefðbundnum búskap. Bjóðum upp á hestaferðir, gistingu og móttöku gesta til að kynna íslenska menningararfleifð; íslenska hestinn, íslenskan byggingararf (torfhús) og svo líka íslenska hundinn. Starfsemi setursins fellur þannig mjög vel að okkar starfsemi á bænum þar sem sjálfbær ferðaþjónusta er í fókus. Gestir sem hafa nú þegar skoðað sýninguna hafa verið mjög ánægðir. Útlendingar eru flestir mjög hissa að hafa aldrei heyrt um íslenska fjárhundinn, hafa bara heyrt um íslenska hestinn, en eru mjög hrifnir af hundinum og merkilegri sögu hans. Við finnum mjög mikinn áhuga hjá Íslendingum að skoða setrið og höfum fengið mikið hrós fyrir þetta framtak,“ kemur fram hjá Evelyn.
Íslenski fjárhundurinn, þetta er merkilegur hundur. Hvernig finnst þér best að lýsa honum?
„Já, hann er skemmtilegur og síbrosandi félagi, sem vill alltaf vera með manni. Þú ert aldrei einn ef þú átt Íslending. Hann er góður vinnuhundur og ég persónulega vildi sjá hann víðar en hann sést núna í sveitum landsins. Hann er góður að reka hross og fé og einnig nautgripi. Hundurinn hefur mikið úthald, er duglegur og áhugasamur og finnst gaman að hreyfa sig. En hann er líka sáttur að liggja hjá fólkinu sínu, og ef ég er að vinna inni við tölvu þá liggja hundarnir allir einhvers staðar nálægt mér og sofa. Svo er íslenski fjárhundurinn einstaklega barngóður og grimmd þekkist ekki í tegundinni,“ segir Evelyn.
Mark Watson-dagur
Hvað með erlenda ferðamenn, eru þeir duglegir að heimsækja ykkur?
„Já, já, erlendir ferðamenn hafa komið til okkar síðustu 25 ár til að fara á hestbak, gista og komast í nánd við íslenska sveit og menningu. Þeir eru nær allir mjög hrifnir af íslenska fjárhundinum og finnst gaman að uppgötva að hann skuli vera til. Íslendingar hafa líka verið duglegir að heimsækja okkur og skoða torfhúsin, en setrið hefur vakið mikla athygli síðan fréttir um opnun þess bárust. Tveimur dögum eftir opnunina tókum við á móti 50 manna hóp frá Kópavogi og eigum við von á nokkrum hópum eldri borgara, kvenfélögum, vinnufélögum og þess háttar á næstunni. Við erum mjög ánægð að hafa skapað nýja afþreyingu eða áfangastað sem höfðar einnig til Íslendinga,“ segir Evelyn.
Verður eitthvað sérstakt í gangi hjá ykkur í sumar, sem vert væri að nefna?
„Já, 18. júlí er dagur íslenska fjárhundsins og við stefnum á að gera eitthvað skemmtilegt þann dag. Það er alltaf viðburður í gangi í Glaumbæ, sem kallast „Mark Watson“-dagur, en Mark Watson tengist bæði sögu og björgun gamla bæjarins í Glaumbæ og íslenska fjárhundsins þegar hann var næstum því útdauður um 1950. Eigendur íslenskra fjárhunda á Norðurlandi koma gjarnan saman í Glaumbæ og það væri gaman að skipuleggja eitthvað hér á Lýtingsstöðum í samvinnu við Glaumbæ. Svo gæti ég hugsað mér að vera með frítt inn á setrið þann dag,“ segir Evelyn að lokum hress og kát og ánægð með viðtökurnar sem nýja setrið hefur fengið á bænum.
Og þetta í blálokin frá henni; „Ég er enn að safna sögum og frásögnum um íslenska fjárhunda. Þannig ef einhver sem les þetta getur sent mér sögur um íslenska fjárhunda, sem gaman er að varðveita, þá yrði ég mjög þakklát. Netfangið mitt er evelyn@lythorse.is.“
Safnið er opið alla daga fram í september frá klukkan 09:00 til 18:00.