Skákfélag Vestfjarða stofnað
Þann 30. maí síðastliðinn var Skákfélag Vestfjarða formlega stofnað. Áður hafði verið starfandi Taflfélag í Bolungarvík og enn áður einnig á Ísafirði. Hið nýja félag tengir nafn sitt ekki við neina ákveðna byggð, er þess í stað fyrir Vestfirði alla. Höfuðstöðvar þess verða þó á Ísafirði.
Halldór Pálmi Bjarkason er formaður hins nýstofnaða félags en Halldór kom líka við sögu í síðasta pistli um Landsmótið í skólaskák. Félagið fer af stað með krafti, heldur hraðskákmót öll þriðjudagssíðdegi sem hafa verið vel sótt. Stundum mæta fleiri á þriðjudagsmótin fyrir vestan en samnefnd mót í Reykjavík! Flestir þátttakendur eru af yngstu kynslóðinni.
Guðmundur Gíslason er Fide-meistari í skák og sterkasti skákmaður Vestfjarða. Fyrir upphaf þriðjudagsmótanna er hann með létta kennslu fyrir þá sem hafa áhuga á því. Ég man sjálfur eftir því hversu mikill ástríðuskákmaður Guðmundur var (og er enn!) þegar hann keyrði eða flaug milli Ísafjarðar og Reykjavíkur til að tefla á kappskákmótum í Taflfélagi Reykjavíkur. Geri aðrir betur! Einhvern tímann áttum við að tefla kappskák en hann komst ekki vegna slæms veðurs. Ég samþykkti að tefla frestaða skák og Guðmundur þakkaði mér kærlega fyrir að samþykkja það, áður en hann vann mig sannfærandi. Eftir þá skák lærði ég að yfirleitt væri best að drepa til baka í átt að miðborðinu. Þegar ég leik …hxg3 eða aðra svipaða leiki hugsa ég til Guðmundar.
Afmælismót Guðmundar fer fram 12.–13. júlí næstkomandi á Ísafirði. Tefld verður bæði hrað- og atskák og verðlaun í ýmsum flokkum. Nánari upplýsingar um mótið má sjá á skak. is sem er fréttavefur skákhreyfingarinnar á Íslandi.