Önundur bíldur og minnið sem mótar landið
Líf og starf 20. júní 2025

Önundur bíldur og minnið sem mótar landið

Höfundur: Birna Lárusdóttir

Í ágústmánuði árið 1880 kom Sigurður Vigfússon, gullsmiður og umsjónarmaður forngripasafns í Reykjavík, að Önundarholti í Flóa. Hann gerði um þessar mundir víðreist, aðallega til að rannsaka sögustaði úr Íslendingasögum og öðrum fornritum á vegum Hins íslenska fornleifafélags. Á ferð sinni um sveitina hafði hann frétt af dys landnámsmannsins Önundar bílds sem átti að vera skammt utan við túnið á bænum – en þar var hann veginn ásamt fjölda annarra samkvæmt frásögn Landnámabókar, í Orrustudal, sem er einmitt þekkt örnefni á þeim slóðum.

Sigurður (sem stundum var kallaður Sigurður forni) hugði gott til glóðarinnar að rannsaka dysina með því að grafa í hana en húsfreyjan í Önundarholti hélt nú ekki! Hann greinir frá þessari sneypuför neðanmáls í Árbók fornleifafélagsins:

„Þessu var þannig farið: þegar eg kom að Önundarholti var bóndi niðri á engjum; fór eg þangað og beiddi hann að vísa mér á þessa Onundardys, sem hann og gerði, og að ljá mér graftól og lofa mér að rannsaka dysina. Undir þetta tók hann nokkuð dræmt, en fór þó heim að sækja tólin; var nokkuð lengi inni; kom aftr verkfæralaus, og húsfreyja með honum; eg heilsaði henni vel, enn hún spurði, hvað eg væri hér að gera eg sagði henni það; þá fyrirbauð hún mér með mörgum orðum að snerta þar á nokkuru og ef eg gerði það, kvaðst hún mundu ganga burt af bœnum, »og það strax í kveld«; bóndi var ekki skörungr, og lét ekki til sín taka um málið; sá eg þá, að hér var ekkert við að gera, enn ekki mun húsfreyja hafa gert þetta af neinu illu, heldr af því, að hún hugði ilt mundu af því standa, ef Onundr gamli væri grafinn upp; sýnir þetta eftirleifarnar af hjátrúnni enn.“

Hjátrú eða ekki hjátrú: hér má hafa í huga að Sigurður var á ferð um hábjargræðistímann, truflaði bónda við mikilvæg bústörf og bað að auki um að fá verkfæri að láni – kannski engin furða þótt húsfreyja tæki dræmt í komu þessa sérfræðings að sunnan. Sigurður náði þó að skoða staðinn áður en hann hvarf á braut og lýsir sporöskjumynduðu mannvirki, 7 x 14 fet að stærð, ávölu að ofan en niðurgrafinn hringur var allt í kring. Hann getur þess líka að fleiri svipuð mannvirki séu þar í næsta nágrenni.

Önundarleiði virðist annars hafa verið þekkt lengi meðal fólksins í sveitinni. Það er eitt fjögurra fornmannaleiða í sókninni sem er getið í fornleifaskýrslu Illuga Hannessonar, prests í Villingaholti, árið 1820; hin voru leiði Kols í Kolsholti, Hróars í Hróarsholti og Arnar í Vælugerði. Séra Illugi virðist þó raunar ekki sérlega trúaður á að þau séu raunverulega grafir fornmanna, enda hafi þau ekki það sköpulag að í þeim hafi verið greftrað. Líklega hefur hann búist við að stærri haugur hefði verið orpinn yfir legstað heiðinna, en sú skoðun var algeng þótt seinni tíma rannsóknir hafi sýnt að þeir hafi verið fátíðir á Íslandi.

En aftur að rannsóknartilraunum. Þótt Sigurður forni hafi hrökklast burt undan húsfreyjunni þarna síðsumars 1880 gáfust menn ekki upp á Önundarleiði því upp úr aldamótunum, nánar tiltekið 1904, mætti annar fornfræðingur galvaskur til leiks, Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi. Hann kom með sín eigin verkfæri og þurfti því ekki að leita á náðir húsfreyju hvað það varðar. Brynjúlfur taldi „leiðin“ (sem hann hefur innan gæsalappa) vera 10 talsins. Með aðstoð bónda gróf hann í tvö þeirra og þar fannst í stuttu máli ekkert: skammt var niður á óhreyfða mold og engin bein eða annað gátu bent til greftrunar. Brynjúlfur taldi sig hafa séð fjölda svipaðra mannvirkja áður á Suðurlandi og setti fram þá kenningu (byggða á hugmynd Sveins búfræðings Sveinssonar) að hér væru komnar upphækkanir fyrir móhrauka eða heylanir og skurðurinn í kring hefði átt að taka við vatni. Brynjúlfur benti á að líklegra væri að maður á borð við Önund bíld hefði verið heygður nær bæ. Þrátt fyrir þessa tilgátu Brynjúlfs var hugmyndin um legstað greinilega ekki talin afsönnuð með öllu og Önundarleiði var friðlýst af þjóðminjaverði árið 1927. Engum sögum fer af því fyrr en löngu síðar en í millitíðinni var reyndar sléttað yfir öll sýnileg ummerki þústanna – þar er nú rennislétt tún.

Um aldamótin 2000 hafði bóndinn í Önundarholti samband við Þjóðminjasafnið og lýsti yfir áhyggjum af minjum sem gæti stafað hætta af framkvæmdum í landi jarðarinnar vegna malarnáms. Hann nefndi sérstaklega Önundarleiði þótt nú væri staðsetning þess ekki lengur þekkt en einnig fleiri minjastaði í mögulegri hættu. Árið eftir bar það svo við þegar verið var að grafa lagnaskurð heima á hlaði, milli bæjar og fjóss, að þar komu bein upp úr uppmokstri. Rannsókn fornleifafræðinga sem voru kallaðir á staðinn leiddi fljótlega í ljós að í skurðinum sást yfirborð nokkurra grafa og í þeim mannabein. Ekki gat þó landnámsmaðurinn verið þar á meðal, enda kom í ljós út frá afstöðu jarðlaga að leifarnar voru greinilega frá tímabilinu 13.–17. öld og tilheyrðu kristnum grafreit. Þar að auki reyndust beinin úr konu, líklega eldri en 30 ára. Engar heimildir virðast til um kirkju eða bænhús í Önundarholti á miðöldum, en það er raunar ekkert einsdæmi – ekki er óalgengt að grafir og kirkjugarðar finnist þar sem sú er raunin. En hvaða lærdóm má draga af þessari skrýtnu ævisögu Önundarleiðis?

Önundarleiði var kannski aldrei greftrunarstaður – en hafi svo verið er alveg óvíst hvort það var í raun hinsti hvílustaður Önundar bílds. Örnefnið gæti hafa orðið til sem vangavelta áhugasamra um tengsl þústa með gleymt hlutverk við frásögn Landnámabókar um orrustur og mannfall – og ekki síst sem tenging bæjarnafnsins við sjálfan landnámsmanninn sem þar með var hægt að staðsetja í landslaginu. Síðan gegnir „leiðið“ hlutverki, mögulega um aldir, sem tenging samtíðarfólks við landnámsöldina sem nær hámarki með heimsókn Sigurðar Vigfússonar. Halda má því fram að allt fram á 21. öld haldi hugmyndin um greftrunarstað Önundar áfram að hafa áhrif þótt með öðru móti sé – með áhyggjum bónda af fornleifaraski. Sú hliðarsaga endar svo með mannabeinafundi á óvæntum stað sem leiðir í ljós allt aðra, ótengda og óskráða sögu úr fortíðinni.

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 14. júlí 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn á von á ánægjulegum framgangi í málum ástarinnar þar sem vonbiðlarni...

Hátíðir í sumar
Líf og starf 11. júlí 2025

Hátíðir í sumar

Í sumar verður fjöldi hátíða víða um land og auðvitað fjölbreytt dagskrá um sjál...

80 þúsund gestir á síðasta ári
Líf og starf 8. júlí 2025

80 þúsund gestir á síðasta ári

Geosea, eða Sjóböðin á Húsavík, voru opnuð í lok sumars 2018. Í dag eru 12 ársve...

Lesið í fannir
Líf og starf 8. júlí 2025

Lesið í fannir

Kannski er ekkert sumarlegt að fjalla um fannir í júní. Og þó – þegar betur er a...

Greinandi og afhjúpandi rödd Ernaux
Líf og starf 7. júlí 2025

Greinandi og afhjúpandi rödd Ernaux

Enn af þýðingum og aftur kemur Þórhildur Ólafsdóttir við sögu hér í Hriflunni. F...

Kynning á íslenskum mat í Japan
Líf og starf 7. júlí 2025

Kynning á íslenskum mat í Japan

Íslandsstofa ásamt utanríkisþjónustunni og sendiráði Íslands í Japan skipulagði ...

17 impa slys
Líf og starf 7. júlí 2025

17 impa slys

Mikil umræða hefur orðið meðal íslenskra keppnisspilara síðustu vikur hvort drag...

Toga beint upp og mest fjórðung plöntunnar
Líf og starf 4. júlí 2025

Toga beint upp og mest fjórðung plöntunnar

Mikilvægt er að uppskera rabarbara á réttan hátt svo að rótin rotni ekki.