Líf og fjör hjá fjölskyldunni á Espiflöt. Axel Sæland og Heiða Pálrún Leifsdóttir ásamt börnum sínum fjórum.
Líf og fjör hjá fjölskyldunni á Espiflöt. Axel Sæland og Heiða Pálrún Leifsdóttir ásamt börnum sínum fjórum.
Mynd / Aðsendar
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesendur fylgst með lífi og starfi blómabænda á Instagram-reikningi Bændablaðsins á næstu dögum.

Grunnur að garðyrkjustöðinni Espiflöt var lagður þann 1. maí 1948, þegar hjónin Eiríkur og Hulda Sæland fluttust búferlum úr Hafnarfirði og settust að í Reykholti með það fyrir augum að stofna þar garðyrkjubýli. Eiríkur hafði útskrifast úr öðrum árgangi Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi vorið 1943.

Nafn garðyrkjubýlisins var raunar Sjónarhóll allt fram til 1958, þegar því var breytt í Espiflöt.

Fram undir 1965 var eingöngu ræktað grænmeti á Espiflöt en á árunum 1965–1977 var blönduð ræktun blóma og grænmetis. Á þessum árum var garðyrkjustöðin um 1.300 fm að flatarmáli. Árið 1977 hófst nýr kafli í rekstrinum þegar synir þeirra, Stígur og Sveinn, ásamt eiginkonum þeirra, Aðalbjörgu og Áslaugu, stofnuðu með þeim félagsbúið Espiflöt sf. Einnig byggðu Sveinn og Áslaug sér íbúðarhús á jörðinni og því tvö íbúðarhús á eigninni.

Ákveðið var að sérhæfa sig í ræktun afskorinna blóma þar sem blandaða ræktunin gafst ekki vel m.a. með tilliti til notkunar varnarefna. Garðyrkjustöðin var stækkuð og endurnýjuð á næstu árum. Árið 1987 urðu enn þáttaskil í starfseminni þegar Stígur og Aðalbjörg stofnuðu sína eigin garðyrkjustöð á lóð Espiflatar og hurfu úr rekstrinum.

Þann 1. maí 1998, eða nákvæmlega eftir 50 ára búsetu, hættu Eiríkur og Hulda þátttöku í rekstrinum og fluttu á Selfoss eftir langt og farsælt starf. Frá 1998 ráku hjónin Sveinn A. Sæland og Áslaug Sveinbjarnardóttir Espiflöt ehf. Þau eru bæði garðyrkjufræðingar frá Garðyrkjuskóla ríkisins, útskrifuð 1974 og 1976. Sveinn að auki með nám í rekstrarfræðum frá garðyrkjuskólanum Söhus í Danmörku.

Árið 2013 urðu enn kynslóðaskipti á Espiflöt þegar sonur hjónanna, Axel Sæland garðyrkju- og íþróttafræðingur og eiginkona hans, Heiða Pálrún Leifsdóttir hjúkrunarfræðingur, komu inn í reksturinn, eftir að hafa verið viðloðandi hann um nokkurra ára skeið. Axel og Heiða eignuðust svo Espiflöt að fullu árið 2020, en foreldrar Axels starfa enn við býlið. Garðyrkjustöðin er 8.000 fm í dag og skiptist í 7.000 fm ræktunarrými og 1.000 fm tækni- og vinnslurými. Um 2.000.000 blóma eru ræktuð á hverju ári.

Hundurinn Kjáni að sóla sig.

Ábúendur, fjölskyldustærð (og gæludýr)? Við hjónin eigum 4 börn, elsta er 20 ára og yngsta 9 ára. Einnig er hundur á hlaðinu sem heitir Kjáni, blendingur af border collie og labrador (borador).

Hvers vegna velur þú þessa búgrein? Þegar maður er alinn upp í heilbrigðu, góðu og metnaðarfullu umhverfi þá togar það ósjálfrátt fast í mann þegar maður vex úr grasi. Eins hefur ræktun alltaf höfðað mikið til mín.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Á Espfilöt starfa 17 manns að meðaltali, dagurinn hefst kl. 7 á morgnana. Byrjað er á því að tína, skera, klippa þau blóm sem eru tilbúin, farið er með þau í vinnslusal þar sem þau eru snyrt og flokkuð. Eftir það hefst blómvandagerð hjá 6–8 starfsmönnum, hinir starfsmennirnir halda áfram vinnu í gróðurhúsunum við að viðhalda gæðum ræktunar.

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Það má segja að það sé sami hluturinn, þ.e. að maður er alltaf í vinnunni. Það gefur manni mjög mikið að geta verið að allan daginn og með hugann við það. En á móti koma tímar þar sem maður væri alveg til í að geta slökkt ljósin og lokað í 2 vikur.

Allt í blóma

Hvað er það jákvæða við að vera bóndi? Vera sinn eigin herra.

Hverjar eru áskoranirnar? Áskoranir koma og fara, maður er að ná þeim þroska að láta ekki nýjar áskoranir buga sig. Þetta eru bara verkefni sem þarf að vinna, þegar eitt klárast þá taka önnur við. Lífið væri frekar dapurt ef ekki væru áskoranir.

Hvernig væri hægt að gera búskapinn þinn hagkvæmari? Laun og orka eru stærstu kostnaðarliðirnir í okkar rekstri, við spörum ekki í vinnuafli, það kemur strax niður á ræktuninni. Því höfum við verið að horfa á orkukostnaðinn og höfum verið að fjárfesta í betri lýsingarbúnaði fyrir ræktunina og stefnum á að gera enn betur þar næstu árin.

Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? Við teljum að garðyrkjubýlum muni halda áfram að fækka (því miður) en um leið munu þau sem eftir eru halda áfram að stækka. Krafa markaðarins eru gæði og verð. Gæðum er hægt að ná fram óháð stærð býlis, en stærðarhægkvæmnin mun alltaf vinna í verði.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þegar ný gróðurhús eru byggð og tekin í notkun. Þá er verið að færa garðyrkjustöðina nær nútímanum í hvert skipti og það gefur manni alltaf aukinn kraft í að gera betur.

Á döfinni í desember
Líf og starf 5. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Þjóðarréttur Íslendinga
Líf og starf 4. desember 2024

Þjóðarréttur Íslendinga

Það er með mikilli ánægju, jafnvel stolti sem við landsmenn höfum neytt brauðter...

Baldur Högni
Líf og starf 4. desember 2024

Baldur Högni

Nafn: Baldur Högni Benediktsson.

Tildra
Líf og starf 4. desember 2024

Tildra

Tildra er lítill vaðfugl eða fjörufugl sem stoppar hér á Íslandi á ferð sinni mi...

Útbreiðsla fegurðar og fjölbreytileika
Líf og starf 4. desember 2024

Útbreiðsla fegurðar og fjölbreytileika

Ragnars Þorsteinssonar, sauðfjárbóndi og ljósmyndari í Sýrnesi í Aðaldal, hefur ...

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni
Líf og starf 3. desember 2024

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni

Stefán Jónsson briddsspilari hefur reynst Bridgesambandi Íslands hvalreki með áh...

Augnlitir í sauðfé
Líf og starf 3. desember 2024

Augnlitir í sauðfé

Sjöunda útgáfa Hvammshlíðar­dagatals hefur litið dagsins ljós.

Norðurljós í nóvember
Líf og starf 2. desember 2024

Norðurljós í nóvember

Tími tunglsins og norðurljósanna hefur nú gengið í garð, en óvenjubjart hefur ve...