Lífsins þráður
Að snúa í band svo úr verði tvinni eða garn er meðal elsta handverks sem menn hafa þróað yfir árin og skemmtilegt að rekja rætur þeirra langt aftur í tímann.
Flest könnumst við við söguna um nýju föt keisarans þar sem fíngerðustu þræðir sem fundust voru ofnir saman – en reyndust svo vera vefur lyga. Næstfíngerðustu þræðir veraldar sem hægt er að vefa eru silkiþræðir en samkvæmt kínverskri goðsögn var það Lei Zu, eiginkona keisarans Huang Di, eða „Gula keisarans“, sem uppgötvaði hvernig væri hægt að vinna silki.
Sagan segir að um það bil 5000 árum f.Kr. hafi LeiZu setið undir tré í garðinum sínum með tebolla, þegar púpa silkiorms féll í teið hennar og hóf að skiljast í langa, fína þræði. LeiZu fór þá að rannsaka samsetningu þráðanna og hvort hægt væri á einhvern hátt að spinna þá í mjótt band. Sagan er nú örlítið lengri, en í dag er LeiZu í guðatölu og tilbeðin sem móðir silkiorma.

Silkivinnsla í sjö þúsund ár
Silkiormar voru og eru enn þann dag í dag ræktaðir sérstaklega fyrir framleiðslu silkis, en hver púpa getur innihaldið allt að eins kílómetra löngum samfelldum þræði. Ormarnir sem lifa eingöngu í mórberjatrjám éta af mikilli áfergju, bæði nótt og dag – og hafa hamskipti þess á milli. Eftir fjórðu hamskiptin verða þeir gulleitir sem þýðir að þeir séu í þann mund að hjúpa sig með silki og þá tilvalið að dýfa þeim í heitt vatn og leysa þá úr fjötrum púpunnar. Sú aðferð hefur sem sé ekki breyst sl. sjö þúsund ár. Þetta er þó tímafrekt starf því þráðurinn er svo léttur að 10.000 til 12.500 púpur þarf í eitt kíló af silki.
Vinnsla silkis þróaðist með tímanum þó hún sé í grunninn hin sama. Þróun framleiðslunnar sem slíkrar hófst þó ekki fyrr en á 4. öld eftir Krist þegar silkið komst í hendur annarra þjóða, en Kínverjar héldu þessari uppgötvun sinni leyndri í árþúsundir og höfðu á þann hátt einkarétt á silkiframleiðslunni. Áttu bíræfnir kínverskir munkar að hafa smyglað eggjum silkiorma auk fræjum mórberjatrés með sér á ferðalagi sínu um „Silkileiðina“, mörg þúsund km verslunarleið sem tengdi Asíu við Evrópu.

Silki, í dag líkt og áður, er tákn um lúxus og saga þess sýnir hvernig menn geta með athugun og þrautseigju umbreytt náttúrulegum hráefnum í eitthvað stórfenglegt.
Þráðagerðin mikilvæg í heimssögunni
Vefnaður almennt byrjaði með einföldum aðferðum á borð við fléttun, þar sem fólk notaði efni sem það fann í náttúrunni, til dæmis reyr, vínvið eða gras og gerði úr þeim körfur, mottur eða einföld skjól. Ein elstu ummerki um snúnar plöntutrefjar og hör eru frá steinöld, sem benda til þess að fólk hafi þá þróað grunnatriði þráðagerðar, með það fyrir augum að sauma eða vefa. Þegar fólk tók upp landbúnað og hóf að rækta plöntur eins og hör eða bómull, auk þess að halda dýr – m.a. fyrir ull, urðu ýmis spunaverkfæri til. Þessi þróun leiddi til skilvirkari vinnslu á þráðum auk þess að marka upphafið að flóknari textílvinnu. Á Íslandi hófst vefnaður strax við landnám á 9. öld úr ull sauðfénaðar og þróuðust fljótlega ýmsar vefnaðaraðferðir sem voru nauðsynlegar daglegu lífi.
Eitt af lykilverkefnunum var að spinna ull og vefa vaðmál, sem var ekki aðeins notað fyrir fatnað heldur einnig sem gjaldmiðill í viðskiptum. Þróun vefnaðar á Íslandi var því mikilvægur hluti af sjálfbærni og efnahag þjóðarinnar.

Textílaðferðin Rögg
Röggvar, sem nafnið er dregið af, er gamalt orð notað yfir flóka sem var ofinn í vaðmál eins og þétt kögur þannig að yfir- borðið líkist feldi.
Þessir ofnu feldir kölluðust röggvarfeldur eða varafeldur, líklegt þykir að íslenskir landnámsmenn hafi lært þessa aðferð af írskum, skoskum eða enskum þrælum. Gólfteppi sjötta áratugarins sem margir kannast við sem rýjateppi, voru upphaflega kallað röggvateppi.
Auglýsingin hér til hliðar kemur frá ullarverslunninni Gefjun árið 1969 og segir í textanum: „Loksins getið þér fengið keypt efni í íslenzkt röggvateppi (ryateppi). 100% íslenzkt ullargarn, (Grettisgarn) botn, nálar og trélisti allt í einum poka.“