Landsmótið 2025 og Bændablaðsleikurinn
Landsmótið í skólaskák fór fram helgina 3.–4. maí. Mótið á um 50 ára sögu og er einn af föstu liðunum í íslensku skáklífi. Mótið fer þannig fram að þau grunnskólabörn sem standa sig best á ákveðnum landsvæðum (áður kjördæmum) vinna sér inn rétt til að keppa á móti þar sem fulltrúar hvers landshluta keppa saman. Greinarhöfundur getur staðfest að þetta eru eftirminnilegustu og skemmtilegustu mót sem maður tók þátt í og samt tel ég með mót erlendis. Nú eru tíu ár liðin frá því ég tók sjálfur þátt síðast og á þeim tímamótum bauðst mér að vera landsmótsstjórinn 2025. Með mér í mótshaldinu voru þeir Halldór Pálmi Bjarkason og Björn Ívar Karlsson, en Gunnar Björnsson stóð líka vaktina á hliðarlínunni. Mótið fór fram við frábærar aðstæður í Grunnskólanum á Ísafirði. Veðrið lék við hópinn á Ísafirði og þá var ekkert betra en að draga fyrir gluggatjöldin og tefla innanhúss. En eftir skákir var farið beint í fótbolta að sjálfsögðu. Bæjarstæði Ísafjarðar er hreint út sagt magnað og furðulegt að fólk komi nokkru í verk í þessari náttúruparadís.
Mótinu var skipt í þrjá aldursflokka, 1.–4. bekk, 5.–7. bekk og 8.–10. bekk. Leikar fóru þannig: Pétur Úlfar Ernisson, Langholtsskóla, vann yngsta flokkinn, Birkir Hallmundarson, Lindaskóla, vann miðjuflokkinn, og Mikael Bjarki Heiðarsson, Vatnsendaskóla, vann elsta flokkinn. Þeir Pétur Úlfar og Mikael Bjarki unnu báðir yfirburðasigra, með 11 vinninga af 11 mögulegum. Birkir Hallmundarson vann sinn flokk með 10 vinningum. Áður en ég birti einu tapskák Birkis í mótinu, vil ég taka sérstaklega fram að þessi 12 ára meistari vann mig um daginn á Reykjavíkurskákmótinu. Ég vona núna að hann fyrirgefi mér þetta val á sýniskákum.
Heimamaðurinn Karma Halldórsson var sá eini í miðjuflokknum sem náði að vinna sigurvegarann í flokknum. Vinningurinn var ansi skemmtilegur, og ýmis þemu komu saman og niðurstaðan var mát. Það má kannski segja að hér sé alvöru Bændablaðsleikur á ferð!
