Alma Sigurbjörnsdóttir er hér fyrir miðju með drengina sína tvo af þremur, Alexander Örn Arnarsson, stjúpson sinn á hægri hönd og Maron Fannar Aðalsteinsson til vinstri. Gæðapiltar hér á ferðinni sem vert er að tékka á.
Alma Sigurbjörnsdóttir er hér fyrir miðju með drengina sína tvo af þremur, Alexander Örn Arnarsson, stjúpson sinn á hægri hönd og Maron Fannar Aðalsteinsson til vinstri. Gæðapiltar hér á ferðinni sem vert er að tékka á.
Líf og starf 23. september 2024

Klár í slaginn

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Smáauglýsingar hafa birst í prentmiðlum svo lengi sem elstu menn muna en þar innan um má oftar en ekki finna ýmsa gullmola. Jafnan eru það einkamálaauglýsingarnar sem kitla og er sá dálkur Bændablaðsins síður en svo undanskilinn.

Glöggir lesendur muna ef til vill eftir hinum ýmsu einkamálaauglýsingum á borð við fertugu ungfrúna sem var heit fyrir „Dad-body“ og hvatti þannig vaxna menn til að láta í sér heyra. Einnig er minnisstæð auglýsingin um þá kampakátu sem óskaði eftir gerðarlegum manni (kampakatxxx@gmail.com) og svo var það vel ættaði, rauðbirkni drengurinn á fertugsaldri sem taldi sig einkar vænlegan til undaneldis.

Bænder Bændablaðsins vakti einnig sérstaka athygli og gladdi annan hvern landsmann ef marka má flesta fjölmiðla. En auðvitað fer þessi tegund auglýsinga fyrir brjóstið á sumum og þessir sumir láta vel í sér heyra. Nú í síðasta tölublaði Bændablaðsins auglýsti móðir syni sína gefins á góð heimili og þá með tilvonandi kvonfang í huga. Hampaði móðirin, Alma Sigurbjörnsdóttir sonum sínum enda greinilega um góð mannsefni að ræða, vel uppaldir, húsvanir, einstaklega umhyggjusamir, auk þess að kunna vel til verka í eldhúsinu. Henni að óvörum barst henni póstur frá aðila sem taldi þetta helberan vitleysisgang. Sá móðirin sér ekki annað fært en að svara kurteislega; ekki væri um skemmtiefni að ræða, hún væri orðin langeyg eftir tengdadætrum, auk þess sem synirnir væru með í ráðum, „... taldi þetta ágætis vettvang til að næla mér í a.m.k. 1–3 slíkar þar sem Bændablaðið er mest lesna ritið hér á landi“.

Affarasælar auglýsingar

Það borgar sig greinilega að auglýsa í Bændablaðinu, en allnokkrar athugasemdir hafa verið gerðar á öldum ljósvakans vegna auglýsingar Ölmu. Sjálf slær hún á létta strengi og segir á Facebook-síðu sinni að þó henni þyki jú synirnir heldur rólegir í kvennamálunum hafi grínið farið á mun meira flug en hún átti von á og viðbrögðin af öllum toga.

Aðspurð segir Alma fjölskylduna oft hafa skemmt sér við lestur slíkra auglýsinga og hún hafi nefnt það við Maron, son sinn, þann í miðið, að þar sem hún sæi ekki fyrir sér að hafa þá búandi heima fram eftir aldri væri réttast að auglýsa þá í Bændablaðinu.

Synirnir eru þeir Alex, 23 ára, Maron, 21 árs og Nóel, sem er að verða 18 ára, þeir tveir elstu langt komnir með bakaranám en sá yngsti leggur stund á nám í rafvirkjun í Verkmenntaskólanum á Akureyri. „Reyndar eigum við einn
tólf ára líka, en það er kannski ekki tímabært að
gefa hann strax. Strákarnir, þessir eldri, eru annars voða rólegir í tíðinni, hanga helst með félögum sínum í golfi eða frisbígolfi. Ég tók því af skarið, auglýsti og sagði þeim að fylgjast með næsta blaði. Þeir trúðu ekki að ég hefði látið til skarar skríða en höfðu rosalega gaman af þessu. Þetta eru í grunninn allt ofsalega ljúfir drengir og fjölskyldukallar, en þó afar ólíkir í hegðun og stundum spurning um hvaðan þeir koma eiginlega,“ segir Alma.

Mistök aldarinnar

„Ég verð að viðurkenna að ég gerði reyndar ein afdrifarík mistök sem ég biðst afsökunar á – en það var að setja inn netfang sem er í eigu einhvers annars. Eftir að hafa sent inn auglýsinguna ætlaði ég að stofna netfangið eftir á – en komst þá að því að það gekk ekki nógu vel. Þetta var agalegt, bæði urðu strákarnir svekktir, auk þess sem eigandi netfangsins hefur líklega fengið yfirdrifið af póstum sem hann átti ekki von á. Viðkomandi er greinilega jafnfyndinn og ég, en netfangið er tilituskið@gmail.com. Ég nældi reyndar strax í annað netfang sem er það rétta: klarislaginn@gmail. com og lét setja það inn á auglýsinguna sem fór á netið,“ segir Alma hlæjandi. „Vil koma þessu á framfæri hér með.“

Ölmu segist hafa verið skemmt yfir viðbrögðum fólks. „Sumir eru eins og snúið roð í hund á meðan aðrir hafa gaman af. Ég gat nú ekki stillt mig og setti á Facebook-síðuna hjá mér að ég hefði látið birta þessa auglýsingu í Bændablaðinu við hinar ýmsu undirtektir og gat heldur ekki stillt mig um að setja með þarna skjáskot af nokkrum vel völdum athugasemdum frá öðrum til skemmtunar. Einn benti til dæmis kurteislega á að fjölskyldan þyrfti mögulega á lyfjagjöf að halda. Sem er alveg „valid point“ ef það eru til lyf við makaleysi.“

Hún segir fjölskylduna þó afar heilbrigða og hressa, búsetta í blíðunni á Reyðarfirði þar sem elstu strákarnir tveir eru á samningi hjá handverksbakaríinu Sesam. „Alexander lýkur náminu í vor, Maron þarna mitt á milli og Nóel stefnir svo á að klára rafvirkjann með vorinu. Það er flott að klára svona iðngreinar,“ segir Alma sem sjálf lærði kokkinn á sínum tíma. „Ég sé fyrir mér að við getum stofnað svona Food and Fun – stefnumótaþjónustu með mat og drykk,“ segir hún hlæjandi og bætir svo við að hún starfi reyndar sem sálfræðingur í dag sem gæti komið sér vel.

Fyrir áhugasamar vilja strákarnir helst vera búsettir á Reyðarfirði í framtíðinni, og við endurtökum að rétt netfang er klarislaginn@gmail.com.

Fjögur þúsund Októberstjörnur
Líf og starf 10. október 2024

Fjögur þúsund Októberstjörnur

Bleikur er orðinn einn einkennislitur október, þökk sé Bleiku slaufunni, árlegu ...

Lómur
Líf og starf 9. október 2024

Lómur

Lómur er náskyldur himbrimanum. Þeir eru báðir af brúsaætt og eru þeir einu tvei...

Vettlingar með norrænu mynstri
Líf og starf 8. október 2024

Vettlingar með norrænu mynstri

Vettlingar koma alltaf að góðum notum. Hvort sem er í leik eða starfi, alltaf er...

Kínverskt veitingahús opnað á Flúðum
Líf og starf 8. október 2024

Kínverskt veitingahús opnað á Flúðum

Kínverskur veitingastaður mun bráðlega opna á Flúðum.

Mikil spenna í úrslitaleiknum
Líf og starf 8. október 2024

Mikil spenna í úrslitaleiknum

Undanúrslit og úrslit Bikarkeppni BSÍ árið 2024 fóru fram um síðustu helgi í höf...

Nýting náttúruauðlindanna
Líf og starf 7. október 2024

Nýting náttúruauðlindanna

Í aldanna rás hafa Íslendingar lært að nýta ríkar náttúruauðlindir landsins til ...

Lindifura út úr kú
Líf og starf 7. október 2024

Lindifura út úr kú

Skógarsúkkulaði með lindifuruolíu er nýlunda á íslenskum súkkulaðimarkaði.

Siggi Dan gegn Sævari
Líf og starf 4. október 2024

Siggi Dan gegn Sævari

Í þessum skákpistli hefur áður verið birt skák sem Sigurður heitinn Daníelsson t...