Hrærður, ekki hristur
Líf og starf 23. júní 2025

Hrærður, ekki hristur

Höfundur: Haraldur Jónasson

Það eru tvær og nákvæmlega tvær útgáfur af íslensku sumri; sú ákjósanlega er að þurfa ís til að kæla sig í sólinni en hin, og því miður líklegri, er að þurfa að hugga sig og fjölskylduna með ís á rigningardögum. Enginn ís er svo betri til að halla sér að en miðlungsþykkur mjólkurhristingur.

Til þess að gera hann góðan þarf tvennt; ís og mjólk. En þar byrjar vandinn. Ís er ekki lengur bara rjómi, mjólk og sykur. Það eru fleiri íblöndunarefni í ísnum sem okkur stendur til boða en tárum tekur. Mjög gjarnan þarf að lesa lengi á boxið til að finna mjólkurvörur og þá birtist undanrennuduftið oft fyrst. Það dugir ekki einu sinni lengur að fara í ísbúðina til að fá alvöru ís. Þar er rjómaísinn oftast búinn til úr jurtaolíu og sá gamli úr smjörblöndu.

Sjeik

Það dásamlega við að gera heimasjeik er að ráða öllu hráefninu. Fyrst þarf að finna góðan ís. Lesa á miðann og finna svo til íblöndunarefnin. Þar vegur mjólkin þyngst. Auðvitað nýmjólk, og til að bæta fyrir mögulegan mjólkurskort í ísnum sjálfum er gott að næst á listann komi mjólkurduft. Það er töfraefni í eldhúsinu og nýtist í alls konar sem þarf smá aukaprótein. Ekki endilega auðfundið í súpermörkuðum en til í pólsku búðunum og sumar þeirra miðausturlensku eru oft með duftið líka. Fjölmenningin til bjargar í eldhúsinu. Eitt leynitrikk er að baka mjólkurduftið í bakaraofni í smástund við miðlungsháan hita. Við það karmelíserast það og bætir örlitlu „ég veit ekki hvað“-bragði við sjeikinn. Passa að brenna ekki duftið. Verður gult þegar það er tilbúið. Ef það verður brúnt þarf að byrja aftur.

Annað ágætt íblöndunarefni er niðursoðin og sæt mjólk í dós. Líka hægt að baka hana. Þá í lokaðri dósinni yfir vatnsbaði. Úr verður náttúruleg karamella sem hægt er að nota í sjeik eða sem sósu. Svakalegt dæmi. Finnst á sömu stöðum og duftið. Sjeikinn getur þó orðið fullsætur ef mikið af sætmjólk er notað. Klípa af ósætu smjöri getur hjálpað enda bara mjólkurfita. Rjómi hentar ekki alveg jafn vel sem íblöndunarefni. Getur verið erfið áferð á honum en svínvirkar þeyttur ofan á – með kirsuberi fyrir „Grammið“.

Góð vanilla setur svo punktinn yfir i-ið. Dropi eða tveir lyfta sjeiknum upp um borð. Ofantalið er grunnurinn. Líka grunnurinn að öllu sjeiktengdu, vanillusjeikinn, og hann er vanmetinn hér á fróni.

Auðvitað er hægt að bæta við súkkulaðisírópi, jarðarberjajukki eða hverju sem þurfa þykir, til að auka fjölbreytnina. Annað sem hægt er að gera heima en erfitt að fá úti í sjoppu, er að bæta dufti út í. Heimamulið Orio, Malteser, ískex og bara hvað sem hægt er að gera að dufti í morteli eða matvinnsluvél hljómar rangt en er rétt.

Gott ráð er svo að kæla glasið sem sjeikinn fer í og nota þykkasta rör sem finnst, sérstaklega ef það er duft í spilinu. Plast, gler og málmrör eru málið, pappinn ekki svo mikið.

Hrærður, ekki hristur

Sjeik eða hristingur er tæknilega rangnefni, beinþýtt úr engilsaxnesku og er jafnvel rangnefni þar líka. Þetta er auðvitað hræringur og þá þarf eitthvað sem snýst hratt; blandara, töfrasprota, stórar eða litlar matvinnsluvélar, nú eða sérhæfðari sjeik-græjur sem er gaman að eiga á tyllidögum en eru sjaldnast upp á marga fiska nema um atvinnugræjur sé að ræða. Eitthvað af þessu ætti hið minnsta að finnast á hverju heimili. Enda allir og ömmur þeirra að búa til hin og þessi búst og annað heilsugúmmelaði.

Talandi um heilsu þá þarf ekki að pæla í heilsunni þegar verið er að búa til mjólkurhræring. Hann er tæki til að njóta sumarsins og á að vera svolítið óþekkur. Þess vegna er líka gott að skella endrum og eins í fullorðinsútgáfu. Sérrí eða púrtari í jarðarberjahræring, viskí eða koníak í vanillu og beilís eða kalúa í súkkulaðið. Nokkur prómíl í blóðið er góð leið til að gleyma rigningunni og njóta betur sumarfrísins með grátandi börnum og eða tengdafjölskyldum.

Fullorðinshræringur

250 g rjómaís
85 ml Nýmjólk
30 ml viskí
30 ml espresso (kælt)
30 g Malteser-duft
10 g mjólkurduft
1/3 tsk. vanilludropar

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 14. júlí 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn á von á ánægjulegum framgangi í málum ástarinnar þar sem vonbiðlarni...

Hátíðir í sumar
Líf og starf 11. júlí 2025

Hátíðir í sumar

Í sumar verður fjöldi hátíða víða um land og auðvitað fjölbreytt dagskrá um sjál...

80 þúsund gestir á síðasta ári
Líf og starf 8. júlí 2025

80 þúsund gestir á síðasta ári

Geosea, eða Sjóböðin á Húsavík, voru opnuð í lok sumars 2018. Í dag eru 12 ársve...

Lesið í fannir
Líf og starf 8. júlí 2025

Lesið í fannir

Kannski er ekkert sumarlegt að fjalla um fannir í júní. Og þó – þegar betur er a...

Greinandi og afhjúpandi rödd Ernaux
Líf og starf 7. júlí 2025

Greinandi og afhjúpandi rödd Ernaux

Enn af þýðingum og aftur kemur Þórhildur Ólafsdóttir við sögu hér í Hriflunni. F...

Kynning á íslenskum mat í Japan
Líf og starf 7. júlí 2025

Kynning á íslenskum mat í Japan

Íslandsstofa ásamt utanríkisþjónustunni og sendiráði Íslands í Japan skipulagði ...

17 impa slys
Líf og starf 7. júlí 2025

17 impa slys

Mikil umræða hefur orðið meðal íslenskra keppnisspilara síðustu vikur hvort drag...

Toga beint upp og mest fjórðung plöntunnar
Líf og starf 4. júlí 2025

Toga beint upp og mest fjórðung plöntunnar

Mikilvægt er að uppskera rabarbara á réttan hátt svo að rótin rotni ekki.