Heydreifikerfi
Heydreifikerfi á bænum Hæli í Torfalækjarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Heydreifikerfi urðu vinsæl á níunda áratugnum og þóttu eitt mætasta tækið í tæknilegri framþróun. Rafmagnseftirlit ríkisins hafði vaðið fyrir neðan sig og birti grein í blaðið Feyki árið 1987 með titlinum „Hættur af rafmagni samfara heyverkun“. Þar kom m.a. fram: „Ef heydreifikerfi er notað við hirðingu, þarf að hafa góða gát á blástursrananum, sem dregst sundur og saman samkvæmt kerfi, sem búnaðurinn er tengdur. Utan á rananum liggur raflögnin í lykkjum. Til styrktar rananum eru vírlykkjur, sem einnig hreyfast með honum. Fyrir kemur, að raflögnin flækist í vírlykkjunum með þeim afleiðingum að hún skaddast eða slitnar.“ Mikið var um tölvutengdar nýjungar á þessum árum og kynnir eitt fremsta innflutnings- og þjónustufyrirtæki markaðarins, Globus, sjálfvirkt heydreifikerfi á síðum Tímans árið 1980. Í kynningunni var sérstaklega tekið fram að „þetta tölvustýrða heydreifikerfi sem er það fullkomnasta á markaðnum er fyrir allar stærðir af hlöðum“.
Torfalækjarhreppur var annars sjálfstætt sveitarfélag fram til ársins 2005 er það sameinaðist nokkrum öðrum hreppum sýslunnar í Húnavatnshreppi. Í bókinni Úr sveitinni, Saga og ábúendur Torfalækjarhrepps í Austur-Húnavatnssýslu, má vel fræðast um staðinn sem státar af hvorki meira né minna en
fimmtán manns sem fengið hafa fálkaorðuna. Geri aðrir betur.