Þessi hressa fjölskylda lífgaði upp á tískusýninguna með alls konar sprelli.
Þessi hressa fjölskylda lífgaði upp á tískusýninguna með alls konar sprelli.
Líf og starf 30. október 2024

Heil vika til eflingar íslenskri sauðfjárrækt

Höfundur: Hulda Brynjólfsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Uppspuna og ein af stjórnarmeðlimum Ullarvikunnar.

Þann 5. október síðastliðinn lauk ævintýralegri viku sem haldin var að frumkvæði kvenna á Suðurlandi og tileinkuð íslensku sauðkindinni með áherslu á ull hennar.

Á tískusýningunni hringdi síminn hjá Önnu Maríu í Hlíð – það er aldrei slegið slöku við.

Þetta er í þriðja sinn sem Ullarvika á Suðurlandi er haldin og fjölgaði þeim mikið sem komu gagngert til að vera með á Ullarvikunni og njóta þess sem þar var um að vera. Margir tóku sér frí frá vinnu til að geta verið alla vikuna, fóru á milli staða og tóku þátt í viðburðum, fóru á námskeið eða tylltu sér niður í prjónakaffihúsinu í góðum félagsskap, ræddu málin, skiptust á uppskriftum og uppbyggilegum ráðum varðandi prjónaskap og fleira tengt ullarvinnslu. Dagksrá Ullarvikunnar var líka metnaðarfull og viðburðir haldnir vítt og breitt um Suðurland, allt frá umhverfi Selfoss austur í Álftaver í Skaftafellssýslu.

Kraftur og hugmyndaauðgi

Það eru fyrst og fremst tveir hópar kvenna sem standa að undirbúningi og viðburðastjórn Ullarvikunnar, en það eru Spunasystur í Rangárvallasýslu og Þingborgarkonur í Árnessýslu. Innan þessara hópa eru konur sem dreifast um Suðurland og eru þær með viðburði heima á búum sínum, en margar þeirra eru bændur og hafa komið upp vinnustofum heima hjá sér, þar sem þær vinna með ull af sínum eigin kindum á fjölbreyttan hátt. Tvisvar yfir vikuna opnuðu þær vinnustofur sínar og buðu gestum heim til að sjá hvað þær eru að fást við. Yfir 100 manns heimsóttu vinnustofurnar á þessum dögum og höfðu gestir á orði að þarna væri mikill kraftur, mikil hugmyndaauðgi og mikið listfengi að finna og þekkingin mikil.

Kathy Sparks bregður á leik á námskeiði í spuna.

Þá voru haldnar sýningar á munum unnum úr sauðfjárafurðum þar sem ullina bar hæst og mátti sjá glæsileg sjöl og prjónaðar flíkur úr íslenskri ull. Má þar helst nefna glæsilega sýningu Bergrósar Kjartansdóttur, en hún sýndi sjöl úr bók sinni Sjalaseiður. Sjá mátti húsgögn bólstruð með sauðagærum, bæði nýlega bólstruð af Spunasystrum sjálfum og einnig hinn fræga Sindrastól, sem var tískustóllinn um og upp úr miðri síðustu öld og er tímalaus klassík.

Námskeið og fróðleikur

Innlendir og erlendir reyndir kennarar í ullarvinnslu og prjónaskap voru fengnir til að halda námskeið. Uppselt var á mörg námskeiðin, enda voru þau fjölbreytt og fræðandi og hentuðu bæði byrjendum og þeim sem hafa meiri reynslu.

Fyrir hátt í 100 manns fluttu sérfróðir einstaklingar fyrirlestra og svöruðu hvenær sem var og hvar sem var fjölmörgum spurningum gesta Ullarvikunnar og upplýstu þá um gæði íslenskrar ullar og hvað má gera úr henni og miðluðu þannig þekkingu sinni. Bæði Spunasystur og Þingborgarkonur eru fróðar um ullarvinnslu og hægt að fræðast af þeim um margt sem tengist sauðfé og ull og leiðist þeim ekki að tala um þetta áhugamál sitt sem sumar hafa gert að atvinnu sinni. Þeirra helsta áhugamál er að auka veg og virðingu fyrir íslensku sauðkindinni og afurðum hennar og efla með því sauðfjárrækt á Íslandi. Með Ullarviku á Suðurlandi tókst þeim að sameina fólk úr ólíkum heimshornum og kynna sauðkindina betur fyrir þeim.

Það var fjölmenni á markaðnum og mikil gleði bæði hjá gestum og framleiðendum.

Vikunni lauk með markaðsdegi þar sem hátt í 800 manns mættu og áttu góðan dag. Þar var hægt að kaupa vandaðar vörur beint af framleiðendum, en einnig sjá sýningar, fylgjast með keppni í að spinna og prjóna flík úr óunninni ull, setjast niður og prjóna með öðrum gestum hátíðarinnar og fá sér kaffi og með‘í hjá kvenfélaginu í Flóahreppi. Hápunktur markaðarins var síðan tískusýning þar sem sýndar voru flíkur sem aðstandendur Ullarvikunnar hafa hannað og prjónað eða útbúið með öðrum hætti.

Allt fléttaðist þetta saman í eina stóra heild sem rammaði inn þessa merkilegu skepnu sem sauðkindin er og sannfærði gesti Ullarvikunnar um að íslenska sauðkindin hefur svo miklu fleiri möguleika en að framleiða bara kjöt og takmarkalausa virðingu megi bera fyrir henni.

Ullarvika á Suðurlandi 2024 þakkar fyrir sig og þeim fjölmörgu gestum sem mættu á viðburði hennar. Jafnframt þökkum við þeim sem komu að þessum mikilvæga menningarviðburði á Suðurlandi með stuðningi og styrkjum, en það voru meðal annars Uppbyggingarsjóður Suðurlands, Landsvirkjun, MS, Ullarverslunin í Þingborg, Nonna- og Brynjuhúsi í Álftaveri, Skinnhúfa, Uppspuni og Feldfjárbændur og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn. Ekki síst þökkum við okkur sjálfum; Spunasystrum og Þingborgarkonum, fyrir að standa að eins merkilegum viðburði og Ullarvika á Suðurlandi er og fjölskyldum okkar fyrir að snúast í þessu með okkur og styðja við framtakið með þolinmæði og hvatningarorðum.

Næsta Ullarvika á Suðurlandi mun fara fram haustið 2026. Við erum strax farin að hlakka til og eigum von á að stöðugt stækkandi Ullarvika muni laða að enn fleiri þátttakendur og viðburði um allt Suðurland.

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...

Hrafntinna afmælisbarn
Líf og starf 6. nóvember 2024

Hrafntinna afmælisbarn

Nafn: Hrafntinna Ögmundsdóttir.

Mikilvægustu kosningamál bænda
Líf og starf 6. nóvember 2024

Mikilvægustu kosningamál bænda

Þegar líður að kosningum skiptir máli að vita hvaða málefni brenna á bændum. Bæn...

Auðnutittlingur
Líf og starf 6. nóvember 2024

Auðnutittlingur

Auðnutittlingur er lítill og fíngerður fugl af finkuætt. Hann er langalgengasta ...

Bryndís og Rosemary
Líf og starf 5. nóvember 2024

Bryndís og Rosemary

Kunnar briddskempur, Bryndís Þorsteinsdóttir og Rosemary Shaw, eru Íslandsmeista...

Lopi leiðtoganna
Líf og starf 4. nóvember 2024

Lopi leiðtoganna

Íslenska ullin hefur lengi verið aðaluppistaðan í klæðnaði hérlendis og staðið a...

„... smalinn er alkominn heim“
Líf og starf 4. nóvember 2024

„... smalinn er alkominn heim“

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Stephan G. Stephanssyni.