Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hjónin Sæbjörg Gísladóttir og Eyvindur Atli Ásvaldsson á Flateyri tóku við starfsemi Kalksalts ehf. sumarið 2019 og hafa þau nú vart undan að framleiða saltbætiefni fyrir bændur landsins.
Hjónin Sæbjörg Gísladóttir og Eyvindur Atli Ásvaldsson á Flateyri tóku við starfsemi Kalksalts ehf. sumarið 2019 og hafa þau nú vart undan að framleiða saltbætiefni fyrir bændur landsins.
Mynd / Úr einkasafni
Líf og starf 29. desember 2020

Hafa ekki undan að framleiða íslenskt kalksalt

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Hjónin Sæbjörg Gísladóttir og Eyvindur Atli Ásvaldsson á Flateyri tóku við starfsemi Kalksalts ehf. sumarið 2019, sem er eina fyrirtækið á Íslandi sem framleiðir saltbætiefnafötur fyrir búfénað. Saltið í bætiefnafötunum kemur frá fiskverkunum á Vestfjörðum og hafa þau ekki undan að framleiða fyrir bændur landsins.

Kalksaltið er steypt í melassa sem gerir það afar lystugt en þar að auki eru í því selen, A-vítamín, E-vítamín og D3.

„Við byrjuðum með þetta sumarið 2019 en áður var ég blaðamaður á Bæjarins besta á Ísafirði en missti vinnuna rétt fyrir jólin 2018. Þá kom til mín maður, Úlfar Önundarson á Flateyri, sem stofnaði Kalksalt árið 2016 og bjó til uppskriftina í samstarfi við fleiri aðila. Hann var byrjaður að þróa vöruna og seldi bændum á Vestfjörðum og í nokkrar verslanir á öðrum stöðum. Hann sagðist vera með frábæra hugmynd fyrir mig og ég hélt auðvitað að hann væri með hugmynd að blaðaútgáfu til að byrja með en nei, nei, annað kom á daginn,“ segir Sæbjörg.

Einföld og frumstæð verksmiðja

Bændur þekkja vel gæðin sem felast í salti sem hefur komist í návígi við fisk, því saltið dregur í sig prótein, vítamín og snefilefni frá fisknum sem hefur góð áhrif á kýr, kindur og hesta.

„Við fórum að skoða hvort þetta borgaði sig, skoðuðum lánamál og annað og eignuðumst síðan reksturinn i júní árið 2019. Maðurinn minn er kokkur á Hótel Ísafirði og hann hefur liðlega yfirmenn svo hann hjálpar mér þegar ég þarf á aðstoð að halda. Það er búið að vera brjálað að gera síðan við byrjuðum,“ útskýrir Sæbjörg, en þau hjónin keyptu beitningaskúr síðasta sumar og eyddu sumrinu í að gera húsið upp og laga að starfseminni.

Hjónin hafa fengið ýmsa styrki fyrir vöruþróun, meðal annars frá Atvinnumálum kvenna og Uppbyggingarsjóði, ásamt Íslandsbanka og frumkvöðlastyrk frá Ísafjarðarbæ.

Synir þeirra hjóna, Ívar Hrafn og Andri Pétur, eru liðlegir að hjálpa til í saltbætiefnaverksmiðjunni en móðir þeirra segir þetta sennilega frumstæðustu verksmiðju landsins.

„Þetta er mjög einföld verksmiðja og líklega frumstæðasta verksmiðjan á landinu. Við fáum salt frá Patreksfirði og víðar. Í byrjun ferilsins er saltið malað, síðan sett í síló og þaðan í steypuhrærivél. Þar blöndum við öðrum innihaldsefnum saman við svo sem melassa og vítamínum. Hrærunni er svo hellt í hjólbörur og mokað með handafli í föturnar.“ Til stendur að nýta jólafríið í að tæknivæða verksmiðjuna örlítið en ný og stærri hrærivél er á leiðinni til landsins svo hjónin geti aukið afköstin.

Hlúum að íslenskri framleiðslu

„Framleiðslan er á fljúgandi siglingu núna, en við höfum sent frá okkur fjögur bretti á viku síðan í september. Við áttum kindur og foreldrar Eyvindar eru sauðfjárbændur, svo við vissum að það vantaði minni saltsteina heldur en bara þessa í 15 kílóa fötum. Fyrir um ári síðan hófum við tilraunaframleiðslu á 7,5 kg steinum sem passa í uppskrúfaða saltsteinahaldara og nú er svo komið að við höfum ekki undan að framleiða í þá. Eftir jólin munum við svo byrja að markaðssetja enn minni steina sem henta fyrir hesta. COVID-19 hefur haft þau áhrif að fleiri og fleiri sjá ágóðann í því að kaupa innlenda vöru en við deilum þeirri skoðun með mörgum bændum að við eigum að hlúa að íslenskri framleiðslu í stað þess að kaupa innfluttar vörur. Og ótrúlegt en satt þá rekum við eina fyrirtækið á Íslandi sem framleiðir bætiefnafötur fyrir skepnur, allt annað er erlent,“ segir Sæbjörg og bætir við:

„Kalkþörungarnir sem varan dregur nafn sitt af koma frá Kalkþörungaverksmiðjunni á Bíldudal. Kalk hefur góð áhrif á vöxt beina, tanna, ullar og felds. Kúabændur sem nota kalksalt hafa talað um að frumutala hafi lækkað og fita hækkað hjá kúnum eftir að þeir fóru að gefa kalksalt. Kalksaltið er steypt í melassa sem gerir það afar lystugt en þar að auki eru í því selen, A-vítamín, E-vítamín og D3. Nú eru vörurnar okkar seldar um allt land og í langflestum búvöruverslunum nema hjá Landstólpa. Og á þeim svæðum þar sem ekki eru verslanir þá selja bændur fyrir okkur. Við erum ákaflega þakklát fyrir viðtökur bænda við vörunum frá okkur en þeir kunna vel að meta að geta keypt íslenska kalksteina með litlu kolefnisspori.“

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...