Gerum okkur dagamun
Nú eru síðustu hátíðir sumarsins að líta dagsins ljós og með það til hliðsjónar er hér örlítið yfirlit yfir nokkrar þær skemmtanir og húllumhæ sem má finna hérlendis.
Hér til hliðar má sjá brot af því helsta sem er á döfinni í lok ágúst og byrjun septembermánaðar fyrir þá sem vilja gera sér dagamun, en uppákomur næstu vikna verða á dagskrá í næstu blöðum. Hér er um auðugan garð að gresja og næsta víst að ekki komist allt á lista.
Fyrir þá sem vilja koma á framfæri hvers konar skemmtunum, opnunum eða uppákomum, má hafa samband í gegnum netfangið sigrunpeturs@bondi.is og við reynum okkar besta til að koma því að.
Í túninu heima í Mosfellsbæ
Hátíðin Í túninu heima verður sett fimmtudaginn 29. ágúst og verða fjölbreyttir viðburðir í boði að vanda alla helgina. Má þar nefna garðtónleika, markaði, fornvélahátíð, íþróttaviðburði og margt fleira. Á föstudagskvöld safnast íbúar saman í götugrill áður en haldið er í skrúðgöngu og brekkusöng í Álafosskvos sem telur oft þúsundir manna.
Hápunktur hátíðarinnar er á laugardagskvöld þegar stórtónleikar fara fram á Miðbæjartorgi þar sem bæði landsþekktar hljómsveitir og heimafólk stíga á svið. Breyting verður í ár en flugeldasýning sem björgunarsveitin Kyndill hefur staðið fyrir að loknum tónleikum verður ekki á dagskrá. Tekur sú ástæða til nokkurra þátta, erfitt er að finna heppilega staðsetningu auk þess sem taka þarf tillit til umhverfis, dýra og manna. Kyndill verður annars áfram mikilvægur þátttakandi í framkvæmd Tindahlaupsins sem fram fer á laugardeginum og lýsir upp Álafosskvos með blysum í brekkusöngnum á föstudagskvöld. Sveitamarkaður hefst svo á sunnudaginn, í raun framhald af markaðnum sem er alltaf á sumrin í Mosfellsdal – og ætti að gleðja marga.
Ljósanótt Reykjanesbæjar
Menningar- og fjölskylduhátíðin Ljósanótt verður nú haldin dagana 5.–8. september. Hátíðin, sem var fyrst hrundið af stokkunum um aldamótin síðustu, er tileinkuð lýsingu á sjávarhömrum „Bergsins“, þann hluta Hólmsbergs, sem snýr að Keflavík og dregur nafn sitt af þeim viðburði. Var ljósaverkið upphaflega unnið eftir hugmynd Steinþórs Jónssonar, þáverandi bæjarfulltrúa og fyrsta formanns Ljósanæturnefndar.
Er vaninn að á laugardagskvöldinu eftir myrkur séu ljósin á Berginu kveikt og svo flugeldasýning í kjölfarið.
Margt verður um að vera að venju enda hátíðin löngu fest í sessi. Heimatónleikar munu fara fram í Gamla bænum þar sem listamenn koma fram á nokkrum heimilum í Reykjanesbæ og spila fyrir almenning ýmist úti á palli eða inni í stofu gestgjafanna, fyrst klukkan 21 og svo aftur kl. 22. Í ár koma fram þau Júníus Meyvant, Andrea Gylfadóttir, Jón Jónsson, Herbert Guðmundsson, Sucks to be you Nigel og Bjartmar og Bergrisarnir og er miðasala á tix.is.
Hið vinsæla Ljósanæturhlaup fer fram að venju og er bæði rás- og endamark við Sundmiðstöð Reykjanesbæjar og er um mismunandi vegalengdir að ræða, eftir hentugleika hvers og eins. Taka skal fram að 500 kr. af hverri skráningu renna í Minningarsjóð Ölla. Styrkir sá sjóður börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna.
Ágúst–september
Fimmta helgin, 30. ágúst –1. september
Nú fer hver að verða síðastur að heimsækja Salthúsmarkaðinn á Stöðvarfirði sem opnaði dyr sínar þann 18. júní, en opið verður alla daga í sumar frá kl. 10–17. Er markaðurinn rekinn af félagi eldri borgara á Stöðvarfirði, en versla má m.a. íslenskt handverk, bakstur og annað. Fyrir heimsóknir utan venjulegs opnunartíma má hringja í 8960349/8938861.
Akureyrarvaka verður haldin hátíðleg 30. ágúst–1. september og mega gestir búast við fjölbreyttum uppákomum og skemmtilegum upplifunum að venju.
Í túninu heima er árleg bæjarhátíð Mosfellsbæjar sem haldin verður dagana 29. ágúst–1. september. Mikið verður um að vera að vanda, garðtónleikar, markaðir, skrúðganga og margt, margt fleira sem ætti að gleðja alla fjölskylduna.
Dagana 30.–31. ágúst fer fram hin geysiskemmtilega blúshátíð Patreksfirðinga, Blús milli fjalls og fjöru. Afar álitlegt úrval tónlistarmanna verður á svæðinu og í minningu „Blúskóngs Íslands“, Halldórs Bragasonar, mun allur ágóði af sölu bols hátíðarinnar fara óskertur til Ljóssins. Bolinn er einnig hægt að versla yfir netið og fá sendan eftir hátíðina.
Kjötsúpuhátíðin á Hvolsvelli verður haldin 29. ágúst–1. september og eins og nafnið felur í sér munu gestir njóta góðs af ilmandi kjötsúpu, en svokallað súpurölt er fastur liður í hátíðinni. Til dæmis mun hljóðlaust diskótek skemmta yngri kynslóðinni á fimmtudeginum, naflahlaup fer fram á laugardeginum auk þess sem tívolí opnar, markaðir af ýmsu tagi verða í gangi og ljósabolti gleður gleður fólk á sunnudeginum þar sem spilað verður í myrkri með sjálflýsandi bolta og hægt verður að kaupa sér góðgæti í sjoppunni hjá tíunda bekk. Kjötsúpuball verður að sjálfsögðu á laugardagskvöldinu og mikið stuð, en einnig verða önnur tónlistaratriði í gangi um helgina.
Myndasöguhátíð Siglufjarðar mun nú í fyrsta skiptið fara fram 30. ágúst til 1. september 2024. Þar verða bæði íslenskir og erlendir listamenn sem með samfélaginu á Siglufirði setja upp einstakan viðburð í kringum menningu myndasögunnar. Til dæmis verða fyrirlestrar í boði, sýningarbásar, vinnustofa í borðspilum og sögusýning um Siglufjarðarprentsmiðju sem prentaði hvorki meira né minna en fyrstu myndasögurnar á íslensku. Sýndar verða einnig teiknimyndir fyrir börn auk þess sem raftónlistarflutningur og dragsýning verða í gangi. Eitthvað sem enginn má missa af.
Fyrsta helgin 6.–8. september
Menningarhátíðin Haustgildi verður haldin á Stokkseyri dagana 7.–8. september. Haustgildi er uppskeruhátíð í víðri merkingu sem fagnar hausti og uppskeru með það að markmiði að tvinna saman menningarviðburði og markað í fjölskylduvæna upplifun við ströndina. Markaður, upplestur, gallerí og vinnustofur, matur og drykkur eru í forgrunni auk hinna ýmsu tónlistaratriða. Lay Low verður með tónleika í Stokkseyrarkirkju á laugardeginum, Íslandskór frá Hollandi þenur raddböndin sama dag og fleiri. Bókaupplestur og ritsmiðja fyrir börn verður í boði enda tíu ára afmæli Bókabæjanna austanfjalls. Nánari dagskrá er að finna á www.haustgildi.is.
Hin alkunna menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar, Ljósanótt, fer nú fram í tuttugasta og fjórða skipti dagana 5.–8. september. Hún er haldin fyrstu helgina í september ár hvert og er áhersla lögð á viðamiklar uppákomur frá fimmtudegi til sunnudags þótt hátíðin teygi stundum anga sína út fyrir þann ramma. Meðal þess sem verður í boði eru listsýningar og tónleikar af ýmsu tagi auk stórkostlegrar flugeldasýningar, auk þess sem Ljósanæturhlaupið fer fram nokkru fyrir helgi, eða miðvikudaginn 4. september kl. 18.30.
Ógleymanlegir sólseturstónleikar verða haldnir þann 7. september í nyrsta þorpi Íslands, Raufarhöfn. Mun hljómsveitin Skálmöld þenja raddböndin og strengi við Heimskautsgerðið, innan höfuðátta víðáttunnar og einstakrar birtu. Mögulegt er að eldspúandi dreki verði á staðnum og er næsta víst að viðburðurinn verður eftirminnilegur, en ágóði tónleikanna fer í áframhaldandi uppbyggingu Heimskautsgerðisins. Miðasala fer fram á tix.is.