Vogarétt árið 1983.
Vogarétt árið 1983.
Mynd / tímarit.is
Líf og starf 13. september 2024

Gerum okkur dagamun

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Nú eru síðustu hátíðir sumarsins, eða öllu heldur haustsins, að líta dagsins ljós og með það til hliðsjónar er hér örlítið yfirlit yfir nokkrar þær skemmtanir og húllumhæ sem má finna hérlendis.

Hér til hliðar má sjá brot af því helsta sem er á döfinni í septembermánuði fyrir þá sem vilja gera sér dagamun enda ekki seinna vænna en að reka tappann í skemmtanalíf sumarsins þó eitthvað sé nú eftir.

Réttir og leitir

Réttir hófust fyrir nokkru og hefur hjörðum verið smalað saman úr fjöllum og dölum með góðri yfirsýn eigendanna sem nýta sér oft fjórhjól við göngurnar, enda farartæki sem má finna á nánast hvaða bæ sem er í dag.

Mismunandi er þó hversu torsótt er að reka féð úr fjalli og benda vanir menn á að ekki komist fjórhjólin í þröng gil eða yfir torfærur á sama hátt og hestar og hundar, sem hafa verið þörfustu þjónarnir í gegnum tíðina við göngur og leitir, og algildir enn þann dag í dag.

Með vasapela í rassvasanum

Réttum fylgir víða lífleg skemmtan enda verið ein helsta samkunda Íslendinga í gegnum aldirnar.

Talsverðan mannafla þarf til þess að allt gangi að óskum og hefur fólk úr öðrum sveitum gjarnan ráðið sig til smalamennnsku landshluta á milli. Vinskapur og réttarómantíkin blómstrar en áður fyrr var réttarlokum gjarnan fagnað í réttunum sjálfum þar sem ungir jafnt sem aldnir staupuðu sig og sungu af hjartans lyst, gripið var í nikkuna og slegið upp í dans.

Þá þótti við hæfi að menn bæru vasapela í rassvasanum enda útlitið misjafnt á sumum. Í dag eru réttaböllin oft formlegri, færri og stærri en áður, þar sem þekktir tónlistarmenn troða upp fyrir vatnsgreiddan almenning. Eitthvað hefur þó frést af því að meiri stemning þyki í minni og nánari hópum og fólk sé í síauknum mæli að fagna réttarlokunum heima á bæ með góðum gestum.

Karnivalstemning stóðrétta

Stóðréttir eru einnig nokkrar hérlendis. Laufskálarétt í Hjaltadal er einna stærst og þekkt fyrir mikið líf og fjör, en hún var vígð þann 20. september árið 1954.

Í grein Feykis á vefsíðunni timarit.is frá árinu 1989 segir réttarstjórinn Haraldur Jóhannesson:

„Það myndast svona hálfgerð karnival stemning, þegar menn eru að glíma við ótemjur og baldin trippi í almenningnum og bregða sér kannski á bak. Menn eru ekkert að víla það fyrir sér þó þeir lendi flatir í forinni.“

Tíu árum síðar í sama blaði tekur þáverandi réttarstjóri, Steinþór Tryggvason, undir: „Skagfirðingar eru þekktir fyrir að kunna að skemmta sér og í einmitt skemmtunina sækir fólk þegar það kemur í réttina.“

Með þennan lestur er ekki seinna vænna en að drífa sig í réttir, en nánari upplýsingar um hvar þær er að finna má sjá HÉR.

Hafravatnsrétt á 8. áratugnum, fjárréttir Reykvíkinga og nágranna þeirra, byggð snemma á 20. öld. Mynd / timarit.is

September

Önnur helgin, 13.–15. september

Tónleikafélag Austurlands stendur fyrir 80's veislu í Valaskjálf þann 14. september kl. 20.30. Gestir eru hvattir til að mæta uppáklæddir með herðapúðana, legghlífarnar, grifflurnar og dansa eins og enginn sé morgundagurinn. Hljómsveitina skipar góður hópur tónlistarfólks með söngvarana Stebba Jak og Stefaníu Svavarsdóttur í fararbroddi, auk þess sem Townies eru sérstakir gestir. Allur ágóði rennur til geðheilbrigðismála á Austurlandi og miða má versla á Tix, miðaverð 4.500 krónur.

Réttarball Uppsveita 2024 fer fram 14. september 2024 í reiðhöllinni á Flúðum. Hljómsveitin Viggó ásamt Ernu og Jónsa munu halda uppi stuðinu á alvöru réttarballi sem fer fram milli klukkan 23–02. Miðasala er á www.sonus.is og kostar aðgangurinn 4.500 kr.

Hið margrómaða Réttarball Fljótamanna verður haldið laugardagskvöldið 14. september í félagsheimilinu Ketilási. Mun hljómsveitin Ástarpungarnir halda uppi fjörinu frá klukkan 23–03 og því ekki seinna vænna að fara að rifja upp danstaktana, enda má enginn láta sig vanta í þessa veislu! ATH. Góð tilboð á barnum, réttarkokteillinn á sínum stað og miðar seldir við dyr. Aðgangseyrir er 5.500 kr. og aldurstakmarkið 18 ára.

Þriðja helgin, 20.–22. september

Haustinu verður fagnað á uppskeru- og menningarhátíð Fljótsdalshéraðs – Ormsteiti. Hátíðin fer fram dagana 20.–22. september en hún hefur verið haldin árlega síðan árið 1993. Hefjast hátíðahöldin þó laugardaginn 14. september með réttardegi í Fljótsdal en hátíðin sjálf verður á Egilsstöðum og nærsveitum. Þar verður margt um að vera og mikið húllumhæ!

Menningarhátíð Mývatnssveitar, Goslokahátíð Kröflu fer fram dagana 20.–22. september. Um ræðir nýja hátíð sem haldin verður í fyrsta sinn í tilefni af 40 ára goslokaafmæli Kröflueldanna. Karaókí, grill, vísindastofa og tónleikahald eru meðal þess sem er á dagskránni. Tónlistarmenn á borð við Jóa Pé og Króla, Gusgusar og Siggu og Grétar í Stjórninni koma fram, frumsýnd verður heimildarmynd um Kröflueldana og margt fleira. Eitthvað fyrir alla enda vert að kynna sér.

Fjórða helgin, 27.–29. september

Réttarball Laufskálaréttar, eitt stærsta sveitaball á Íslandi, fer fram laugardaginn 28 september í Reiðhöllinni Svaðastöðum við Sauðárkrók. Húsið opnar klukkan 22 og fyrstu tónlistarmenn stíga á svið á slaginu klukkan 23. Hetjur á borð við Herra Hnetusmjör og Á móti sól verða á staðnum og forsala aðgöngumiða verður á N1 Ábær og Kaffi Krók Sauðárkróki og svo Vamos Akureyri.

Dagana 28.–30. september fer í fyrsta sinn fram Hönnunarþing, hátíð vöruhönnunar á Húsavík og nágrenni þar sem almenningur fær að kynnast faginu og hvernig það mótar daglegt líf. Dagskrá hátíðarinnar samanstendur af sýningum bæði innlendra og erlendra hönnuða ásamt fræðandi fyrirlestrum – auk hraðfyrirlesturs um misheppnaða hönnun. Vinnustofur og námskeið verða haldin fyrir börn og fullorðna, Listaháskóli Íslands verður á svæðinu, pub quiz, tónleikar og margt fleira sem gaman er að líta augum.

Siggi Dan gegn Sævari
Líf og starf 4. október 2024

Siggi Dan gegn Sævari

Í þessum skákpistli hefur áður verið birt skák sem Sigurður heitinn Daníelsson t...

Sýn féhirðis á sauðkindina:
Líf og starf 2. október 2024

Sýn féhirðis á sauðkindina:

Að bera fé: Afklæða kind. Aflafé: Kindur sem stunda veiðiskap. Áhættufé: Fífld...

Ávaxtakarfan í Hveragerði
Líf og starf 2. október 2024

Ávaxtakarfan í Hveragerði

Eins og vani er á haustin eru áhugaleikhúsin komin á fullt og eitt þeirra, Leikf...

Mannlífið í réttum
Líf og starf 1. október 2024

Mannlífið í réttum

Réttir eru mannfögnuður og annáluð lopapeysupartí. Magnús Hlynur Hreiðarsson, fa...

Ljósið sigrar myrkrið
Líf og starf 1. október 2024

Ljósið sigrar myrkrið

Seint í september, um svipað leyti og heyskaparlok, fjárleitir og upphaf sláturt...

Blítt og létt í Ölfusrétt
Líf og starf 30. september 2024

Blítt og létt í Ölfusrétt

Sólin skein á gangnamenn og gesti Ölfusréttar sunnudaginn 15. september síðastli...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 30. september 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn þarf að vera opinn fyrir nýjungum í takt við þau skref sem hann hefu...

Tjaldur
Líf og starf 25. september 2024

Tjaldur

Tjaldur er stór og auðþekkjanlegur vaðfugl sem finnst um allt land. Tjaldar eru ...