Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Gerum okkur dagamun
Mynd / Hinsegin Vesturland
Líf og starf 14. júní 2024

Gerum okkur dagamun

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það til hliðsjónar mun í næstu blöðum birtast yfirlit yfir helstu skemmtanir og húllumhæ hérlendis.

Hér fyrir neðan má sjá brot af því helsta sem er á döfinni í júnímánuði, fyrir þá sem vilja gera sér dagamun, en uppákomur næstu vikna verða á dagskrá í næstu blöðum. Hér er um auðugan garð að gresja og næsta víst að ekki komist allt á lista.

Hins vegar fyrir þá sem vilja koma á framfæri hvers konar skemmtunum, opnunum eða uppákomum, má hafa samband í gegnum netfangið sigrunpeturs@bondi.is og við reynum okkar besta til að koma því að.

Fjölskylduhátíðin Skógardagurinn mikli 2024 verður haldinn í hinum rómaða Hallormsstaðaskógi, laugardaginn 22. júní. Þar mun fara fram Íslandsmót í skógarhöggi, grillveisla, ketilkaffi og heilmikil skemmti- dagskrá að venju.

Í ár fagnar hátíðin 20 ára afmæli og í tilefni þess var nýverið haldin samkeppni um frumsamið lag og texta sem gaman verður að hlýða á.

Kunnugir vita að ekki er langt í hið vel þekkta Lagarfljót, híbýli Lagarfljótsormsins, en fljótið teygir sig um endilangt Fljótsdalshérað. Segir sagan að fyrir mörgum árum hafi stúlka ein sett gull sitt undir lyngorm, með það fyrir augum að auður hennar yxi. Ekki fór betur en svo að bæði ormur og gull uxu svo mikið að stúlkan hræddist og skutlaði hvoru tveggja út í Lagarfljót þar sem enn þann dag í dag telja sumir sig verða vara við dýrið.

Aðfaranótt Jónsmessunætur þykir mögnuð töfranótt þar sem draumar rætast, dýr tala og allir yfirskilvitlegir hæfileikar og mættir koma í ljós.

Óskasteinar, lausnarsteinar, draumagras, lásagras og huliðssteinar eru fólki til láns á Jónsmessunni, auk þess sem sumir telja lukku sína fólgna í því að vera sem frjálslegast til klæða svo auðvelt sé að velta sér nakinn í dögginni er líða tekur á nóttu.

Jónsmessuhátíðir eru haldnar allvíða og um að gera að njóta þeirra töfrandi stunda sem nóttin veitir.

Hinseginhátíð Vesturlands verður haldin í fjórða skipti í ár og mun renna saman við hina sívinsælu Brákarhátíð, helgina 27.–30. júní nk.

Brákarhátíðin er rótgróin skemmtun sem haldin hefur verið í Borgarnesi síðan 2009 og fest sig í sessi sem fjölskyldu- og skemmtihátíð. Bátasiglingar björgunarsveitarinnar, dögurður kvenfélagsins, dansleikur, götugrill og skreytingar víða um bæinn gleðja viðstadda en ákveðið hefur verið að sameina þetta allt í stærstu bæjarhátíðar- og partíhelgi Vesturlands, nóg af regnbogum, gleði, hamingju og glimmeri ... enda verður hápunktur helgarinnar gleðiganga Hinseginhátíðar Vesturlands á laugardeginum ásamt fjölbreyttri skemmtidagskrá að henni lokinni.

Það verður, eins og nærri má geta, mikið líf og fjör í boði alla helgina. Skipuleggjendur og samfélagið í heild sinni eru tilbúin að taka vel á móti gestum og gangandi og því um að gera að líta við í Borgarnesi þessa helgi.

Júnímánuður

Þriðja helgin, 13.–16. júní

Bíladagar á Akureyri fara fram með pomp og prakt í tæpa viku, 13.–17. júní nk. en um ræðir einn stærsta íþróttaviðburð sinnar tegundar sem haldinn er hérlendis.

Dagana 13.–18. júní fer Víkingahátíðin í Hafnarfirði fram á Víðistaðatúni þar sem gestir geta m.a. upplifað eldsmíði, jurtalitun og bogfimi auk tónlistar hljómsveitanna Krauku og Hrafnboða.

Bráðskemmtileg bæjarhátíð, Hofsós heim, verður haldin dagana 14.–16. júní, dansiböll, gleði og glaumur.

Berjadagar á Ólafsfirði dagana 14.–17. júní er fjölskylduvæn tónlistarhátíð klassískrar tónlistar, djass, brasilískrar tónlistar, þjóðlaga, íslenskra sönglaga og óperu.

Þjóðhátíðardagur Íslands, 17. júní, er haldinn hátíðlegur ár hvert um allt land svo nærri má geta að heilmikil stemning verði hvarvetna.

Salthúsmarkaðurinn á Stöðvarfirði opnar dyr sínar þann 18. júní en opið verður alla daga í sumar frá kl. 10–17. Er markaðurinn rekinn af félagi eldri borgara á Stöðvarfirði, en versla má m.a. íslenskt handverk, bakstur og annað. Fyrir heimsóknir utan venjulegs opnunartíma má hringja í 8960349/8938861.

15. júní munu Sæskrímslin, kynjaverur Listahátíðar, mæta í Neskaupstað!

Þann 19. júní verður kvennaganga á Hólmanes á Austurlandi, í fararstjórn Hrannar Grímsdóttur og Kömmu Daggar Gísladóttur. Mæting kl. 17 á bílastæði við útsýnisstaðinn á Hólmahálsi, en þaðan verður gengið út á Hólmanesið þar sem leitt verður jóga. Upplýsingar í síma 847-1690.

Farin verður Sólstöðuganga í Hrísey þann 19. júní með Ferðafélagi Akureyrar. Lagt verður af stað á einkabílum frá Strandgötu 23, Akureyri kl. 18:30 og ekið út á Ársskógssand, þaðan sem ferjan leggur af stað klukkan 19:30, í fararstjórn Jóhannesar Áslaugssonar og Marínu Sigurgeirsdóttur. Áætlað er að ganga suður og austur í gegnum þorpið í Hrísey og svo haldið norður gönguleið austan á eynni. Farið verður norður að Borgabrík og þaðan til baka inn í þorpið. Stoppað verður á góðum stað til þess að njóta nestisbita og ferjan tekin til baka klukkan 23:00.

Fjórða helgin, 21.–23. júní

18.–22. júní verður tónlistarhátíðin Við Djúpið haldin, en um ræðir sex daga tónlistarhátíð á Ísafirði þar sem alla daga er boðið upp á fjölbreytta tónleikadagskrá. Tónlistarmenn frá Evrópu, Bandaríkjunum, Reykjavík og Ísafirði troða upp, ýmist á styttri hádegistónleikum eða lengri tónleikum að kvöldi. Tónlistarnemendur geta sótt námskeið hjá reyndum kennurum og börnum býðst að sækja tónlistarleikjanámskeið.

HIP Fest! Dagana 21.–23. júní verður haldin brúðulistahátíðin Hvammstangi International Puppet Festival á Hvammstanga, Norðurlandi vestra, þar sem brúðuleiksýningar og -kvikmyndir verða í hávegum hafðar.

Sumarsólstöðuganga að Svarthamarsvatni! Þann 22. júní stendur Ferðafélag Djúpavogs fyrir sumarsólstöðugöngu þegar gengið verður upp að Svarthamarsvatni í Álftafirði í fararstjórn Eiðs Ragnarssonar. Farið verður frá Bakka 1, 765 Djúpavogshreppi, klukkan 22.

Sólstöðuhátíðin á Kópaskeri verður haldin dagana 21.–23. júní,
en þar bjóða Kópaskersbúar og nærsveitamenn gestum heim og skemmta sér og öðrum. Til dæmis býður íþróttafélagið Þingeyingur upp á afþreyingu fyrir börn, haldið verður hið sívinsæla kjötsúpukvöld, Sólstöðutónleikar Flygilvina verða haldnir auk þess sem gleðisveitin
Í góðu lagi stendur fyrir balli og lofar þéttum dansleik.

Hátíðin Sumarsólstöður í Grímsey verður haldin dagana 21.–23. júní. Verður dagskráin nokkuð háð veðri, en ef vel stendur á verður farið í siglingu á föstudagskvöldinu umhverfis Grímsey, gönguferð norður fyrir flugvöllinn og miðnætursólarinnar notið ... ef hún lætur sjá sig!
Á laugardeginum verður svo blásið til ratleiks og síðan sjávarréttakvölds í félagsheimilinu Múla og heljarinnar dansiball á eftir.

Fjölskylduhátíðin Skógardagurinn mikli 2024 verður haldin í hinum rómaða Hallormsstaðaskógi laugardaginn 22. júní.

Fimmta helgin, 28.–30. júní

Alla laugardaga frá lok júní fram til loka ágúst verður Sumarmarkaður á Selfossi í Tryggvagarði, laugardaga á milli kl. 10–16.

Bæjarhátíðin á Höfn í Hornafirði – Humarhátíð 2024 verður haldin með pomp og prakt 27.–30. júní 2024. Boðið verður upp á humarsúpu í bland við fjölbreytta og skemmtilega dagskrá.

Íbúar Bakkafjarðar tilkynna skemmtilegustu sveitahátíðina, Bakkafest 2024, helgina 28.–29 júní. 2024 á tjaldsvæði Bakkafjarðar. Meðal annars koma fram þeir JóiPé og Króli, Færibandið, Stebbi Jak og Drottningar ... en fjölbreyttari dagskrá má finna á Facebook er nær dregur.

Hinseginhátíð Vesturlands verður haldin í fjórða skipti í ár og mun renna saman við hina sívinsælu Brákarhátíð, helgina 27.–30. júní nk.

Telur árangurinn á EM viðunandi
Líf og starf 23. júlí 2024

Telur árangurinn á EM viðunandi

Evrópumótinu í bridds lauk í síðustu viku í Herning í Danmörku. Ísland sendi út ...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 22. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Kóngurinn í Skagafirði
Líf og starf 22. júlí 2024

Kóngurinn í Skagafirði

Jón Arnljótsson, sauðfjárbóndi á Ytri- Mælifellsá í Skagafirði, hefur lengi veri...

Safnar saman þekkingu um alþýðulækningar
Líf og starf 18. júlí 2024

Safnar saman þekkingu um alþýðulækningar

Skoða á hefðir og notkun óhefðbundinna lækninga á Íslandi í norrænni rannsókn. A...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 18. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...