Bítlarnir í hátískusmekkbuxum.
Bítlarnir í hátískusmekkbuxum.
Líf og starf 3. febrúar 2025

Gengur þú í smekkbuxum?

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Í heimi tískunnar er að jafnaði mest um vert að vera sem smekklegastur. Auðvitað er álit manna á þeirri forskrift mismunandi og þónokkrar flíkur til sem fólki þykir annaðhvort afar hátt skrifaðar eða alveg á lægsta plani. Voða lítið þar á milli. Þar eru til dæmis smekkbuxur.

Úr smiðju Gucci. 

Smekkbuxur tengja flestir við yngsta aldurshópinn, en upphaflega voru þær hannaðar með þarfir hins vinnandi manns í huga. Bæði Levi Strauss, sem margir hafa heyrt nefndan, og fyrirtæki Lee Jeans vilja meina að þeir hafi lagt fram beiðni um einkaleyfi á smekkbuxunum á sama tíma en hönnunin sjálf á aðeins lengri sögu.

Þeirra er fyrst getið í skrifum breska hersins frá átjándu öld, þegar breskar hersveitir voru staðsettar á Indlandi. Þar fundu menn haldgott efni til þess að gera úr vinnubuxur, Dungri-efnið. (þaðan sem orðið dungaree kemur, eða smekkbuxur á ensku). Bretarnir voru útsjónarsamir og bættu við smekknum á öðrum fatnaði sem þeir báru en einnig fékkst þannig aukið geymslupláss.

Vinsældir þessa „one-piece wonders“, eins og þær voru kallaðar, uxu stöðugt fram á 19. öld og þróuðust sífellt meira sem vinnufatnaður. Framleiðendur gerðu sitt í að mæta þörfum hins vinnandi manns og sniðu buxurnar eftir ábendingum og óskum sem þeim bárust enda urðu þær fljótt einkennisbúningur verkamanna.

Sterkt og endingargott efni hefur ávallt verið uppistaðan, vatnsheldar útgáfur komu til sögunnar og þóttu skjólgóðar fyrir veðri og vindum. Í gegnum tíðina hefur smekkbuxnahluti gallanna gengið í gegnum nokkrar breytingar.

Upphaflega var smekkurinn hannaður sem framlenging á fótleggnum, en sá stíll var áberandi frá miðri 19. öld. Í framhaldinu var smekkurinn endurhannaður sem sérstakur efnisbútur festur við neðri buxnahlutann, hlíf hvort sem áttu í hlut járnsmiðir, bændur, veiðimenn eða þeir sem vildu vernda föt sín líkt og bresku
hermennirnir.

Karlmenn í smekkbuxum voru því hetjur veðra og vinda, íklæddir sköpunarverki sem varði þá öllu.

Levi's kynnir kosti smekkbuxna.

En svo skall fyrri heimsstyrjöldin á. Smekkbuxnatískan sást lítið í framvarðasveitum hermannanna en á hinn bóginn gerði kvenfólkið sem heima sat sér lítið fyrir og klæddist þeim einkennisbúning. Í fjarveru karlpeningsins stóðu þær vaktina við hin ýmsu störf, ráku bæði búgarða og stóðu vaktina við framleiðslu verksmiðja. Með tímanum komu þær á breytingum á sniði og efnisvali. Þær kusu belgvíðari buxur úr léttara efni, létu rúnna hálsmálið, mjókka mittissauminn og kusu fleiri og fíngerðari vasa. Þarna voru stigin fyrstu skref smekkbuxna sem alþýðlegrar tískuvöru.

Eftir því sem árin liðu héldu þessar elskur velli bæði í samfélögum til sveita og hjá verkamönnum í borg og bæ. Þær þóttu sterkt merki samstöðu hinna vinnandi og á sjöunda áratugnum höfðu þær öðlast þrefalt vægi. Fyrst og fremst sem vinnufatnaður, í öðru lagi sem samstöðumerki innan hópa sem stóðu í mótmælum við hugmyndir yfirstéttarinnar og síðan tóku hipparnir ástfóstri við smekkbuxurnar, enda svo hagnýtur og þægilegur klæðnaður að varla þurfti nokkuð annað. Þeir hófu einnig að sauma buxurnar úr mislitum efnisbútum, oft blöndu af silki, hör og bómull sem hentaði vel frjálslyndi þess tíma. Þekktir einstaklingar eins og meðlimir Bítlanna létu sjá sig í smekkbuxum sem voru á hraðri uppleið á tískupallana.

Smekkbuxnasnið Donnu Karan.

Rúmum áratug síðar tóku listamenn hipphopp-tónlistar smekkbuxurnar upp á sína arma og var þar annar hver maður íklæddur flíkinni, helst með annað axlabandið laust. Þeir komu margir hverjir frá verkamannaheimilum og vildu með þessu staðfesta að hér væri alvöru fólk á ferð sem hefði unnið hörðum höndum að því að komast í heim frægðarinnar. Eða svo segir sagan.

Fjöldinn leitar í heim frægðarinnar og hugðu því tískuhönnuðir níunda og tíunda áratugarins sér gott til glóðarinnar. Þar kom Tommy Hilfiger sterkur inn auk þess sem hönnuðurinn Donna Karan, þekkt undir merkinu DKNY, bætti um betur. Í tískuriti Vouge á tíunda áratugnum birtist snið DKNY af smekkbuxum og má ætla að æst áhugafólk smekkbuxna hafi þar heldur betur komist í feitt.

Í dag sigla buxurnar einhvern meðalveg í lífi hversdagsmannsins. Traustar að grípa í fyrir þá sem vinna ekki við skrifborð og kostur fyrir skrifborðsfólk sem vill skera sig örlítið úr. Með seinni hópinn í huga verður að minnast á hönnun Gucci árið 2020 en á tískupöllunum birtust smekkbuxurnar, ataðar grasgrænu og fáanlegar fyrir einungis 168.600 krónur íslenskar.

Hoppar þú um berrassaður?
Líf og starf 12. febrúar 2025

Hoppar þú um berrassaður?

Þorrablót, sólarkaffi, bónda- og konudagar eru sitthvað sem landinn hefur glatt ...

Unglingaafgangahrísgrjónasteikarhræra
Líf og starf 12. febrúar 2025

Unglingaafgangahrísgrjónasteikarhræra

Hvað á að gera við alla litlu afgangana? Þessa sem duga varla upp í nös á ketti ...

Eru neyðarbirgðir á þínu heimili?
Líf og starf 10. febrúar 2025

Eru neyðarbirgðir á þínu heimili?

Stjórnvöld hafa tilkynnt að gefnar verði út leiðbeiningar innan tíðar um hvaða n...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 10. febrúar 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn þarf að hafa eitt í huga ofar öllu og það er að vera skýr í hugsun. ...

Kraftur í nýnorrænni matargerð
Líf og starf 5. febrúar 2025

Kraftur í nýnorrænni matargerð

Blásið hefur verið nýju lífi í nýnorræna matargerðarhreyfingu í takt við nýja tí...

Heydreifikerfi
Líf og starf 5. febrúar 2025

Heydreifikerfi

Heydreifikerfi á bænum Hæli í Torfalækjarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Heydrei...

Skálholtsdómkirkja í sýndarveruleika
Líf og starf 4. febrúar 2025

Skálholtsdómkirkja í sýndarveruleika

Nú er hægt að ganga um Skálholtsdómkirkju í Bláskógabyggð í sýndarveruleika.

Lífrænn lífsstíll hjartans mál
Líf og starf 3. febrúar 2025

Lífrænn lífsstíll hjartans mál

Anna María Björnsdóttir, fulltrúi Lífræns Íslands, ásamt Tuma Bjarti Valdimarssy...